Konur og klæðaburður

Ég fékk það komment við nýju forsíðuna mína að hún bæri vott um karlæga afstöðu mína til kynhlutverka. Ég varð undrandi á þessu vegna þess að ekkert var fjær mér en karlremba þegar ég ræddi við stílistann um forsíðurnar. Við ákváðum að reyna að láta myndirnar endurspegla fólkið sem var í viðtali. Reynir Harðarson skóp tölvuleikinn Eve online sem gerist meðal annars úti í geimnum þannig að okkur fannst við hæfi að gera hann svolítið geimfaralegan, ekki síst vegna þess að þegar hann byrjaði var hugmynd hans svolítið far out eða speisuð eins og krakkarnir segja. Katrín Harðardóttir er hins vegar ung kona sem náð hefur ótrúlega langt í viðskiptaheiminum og það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég hitti hana var að hún var ekki hrædd við að klæða sig kvenlega jafnvel svolítið stelpulega. Samt nýtur hún gífurlegrar virðingar meðal samstarfsmanna sinna og þeirra sem eiga við hana viðskipti. Klæðaburður er vissulega hluti af táknkerfi samfélagsins og ekki langt síðan að boðskapurinn dress for success var hluti af öllum þeim ótal námskeiðum sem ætlað var að kenna fólki hvernig það ætti að öðlast sjálfstraust og klífa metorðastigann. Í þessu fólst auðvitað að konur áttu að reyna að karlgera sig eins og þær gátu. Dragtirnar svörtu, dökkbláu og brúnu voru einmitt viðleitni í þá átt. Konur reyndu eftir bestu getu að klæða af sér kvenleikann. Mér fannst þess vegna svo ánægjulegt að sjá að Katrín var alls ekki hrædd við að undirstrika glæsilegan og mjög svo kvenlegan vöxt sinn. Hún er sannarlega ekki mjaðma- og brjóstalaus horrengla og hefur ánægju af því að velja föt sem fara vel á líkama hennar og undirstrika hann. Þetta fannst mér sjálfsagt að reyna að endurspegla því að mínu mati er frami kvenna ekki eftirsóknarverður nema að hann sé á þeirra forsendum. Ef konur þurfa að fórna hluta af persónuleika sínum til þess að komast áfram í starfi höfum við til lítils barist í hálfa aðra öld. Boðskapur kvennalistans um að konur væru góðar eins og þær eru og þær ættu erindi út á vinnumarkaðinn, í stjórnmálin og hinn opinbera vettvang einmitt vegna þess hefur alltaf hljómað eins og tónlist í mínum eyrum. Minnumst þess að hjá kvennalistanum mættu konur á fundi með smábörn og gáfu þeim brjóst meðan rætt var um landsins gagn og nauðsynjar. Kvennalistakonur áttu líka til að taka með sér vær ungabörn í tíma í Háskólanum og hika ekki við að gefa þeim brjóst ef á þurfti að halda. Þær prjónuðu líka á borgarstjórnarfundum og í þingsölum. Ég elska konur sem þora að vera konur og vilja vera konur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Sammála...er nokkuð hægt að lesa magasínið á netinu ??? Lítur ferlega girnilega út.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 14.4.2007 kl. 18:58

2 Smámynd: Heiða  Þórðar

Bíddu nú við! Karlæga afstöðu þína til kynhlutverka! Já það sannast sem sagt hér "fornkveðið" að ýmislegt lesa má um persónuleika annarra, afstöðu og fl. með myndum og/eða orðum. Er ekki svo að forsíðan hefur ekkert með þig, þína afstöðu að gera/segja? Hver og einn hlýtur að sjá forsíðuna og túlka hana fyrir sig. (sbr. Smáralindabæklinginn)

Fyrir mér; smekkleg, frumleg og smart. Og er ég ekki alveg reynslulaus á þessu sviði. Gangi þér vel með tímaritið og í lífinu almennt.

Heiða Þórðar, 14.4.2007 kl. 19:44

3 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Takk elskurnar. You give me reason to live.

Steingerður Steinarsdóttir, 15.4.2007 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband