Gengisfelling mannslífa

Fyrrum skólafélagi minn Guðni Einarsson skrifar áhugaverðan pistil í Morgunblaðið í dag um blogg og hvernig í skjóli nafnleyndar eða kannski vegna eðlis miðilsins mönnum finnst þeir geta verið stóryrtari og sagt meira en þeir myndu nokkru sinni gera í öðrum fjölmiðlum. Hann nefnir dæmi um líflátshótanir sem erlendum bloggurum hafa borist. Mér finnst hins vegar ekki þurfa komment á bloggsíðum til. Ég hef þá tilfinningu að mannslífið hafi verið gengisfellt á ákveðinn hátt á undanförnum árum. Kannski vegna ofbeldismynda og sjónvarpsþátta þar sem ótal einstaklingar eru strádrepnir fyrir augun á okkur þykir ekki lengur eins alvarlegt að segja við fólk eitthvað á borð við: Það ætti bara að skjóta þig. Þegar ég var barn var það lokaúrræðið þegar fokið var í öll skjól og maður gersamlega búinn að missa stjórn á sér vegna stríðni eða áreitni að maður hreytti í einhvern annan: Ég skal drepa þig. Eftir á var eins og köld hönd gripi um hjartað og manni fannst maður hafa verið óskaplega áræðinn og gengið fjarskalega langt. Núorðið heyri ég oft fólk hafa gróft ofbeldi í flimtingum og jafnvel tala um að það sé ásættanlegt að samfélagið beiti því í refsingarskyni. Til að mynda er algengt að eftir að sagðar eru fréttir af að komist hafi upp um barnaníðinga að heyra yfirlýsingar eins og: Það ætti bara að skera undan þessum perrum. Það ætti að hengja þá alla í hæsta gálga þessa barnaníðinga, þeir eru óforbetranlegir. Eru þeir sem hafa orðið fyrir barðinu á þessum mönnum eitthvað bættari ef þeir eru teknir af lífi? Verður samfélagið betra við það? Sennilega ekki en víst er að karlmönnum myndi fækka umtalsvert á Íslandi ef tekið er tillit til þess að samkvæmt könnunum verður þriðja hvert stúlkubarn og fjórði hver drengur fyrir kynferðislegri misnotkun af einhverju tagi. Ég hef líka heyrt menn lýsa því yfir að eiturlyfjasala eigi að taka af lífi og það helst án dóms og laga. Hvers vegna ætli þetta sé? Ég finn ennþá kaldan hroll hríslast um mig þegar ég heyri fólk tala svona því mér finnst eitthvað kaldlynt við að geta talað á þennan veg um líf annars manns sama hversu brotlegur hann hefur gerst.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband