Töfrar orðanna

Allt frá því ég man fyrst eftir mér hafa orð heillað mig. Eitt orð hefur náð að lyfta andanum eða breyta skyndilega hvítu í svart, gleði í sorg og hlátri í grátur. Einar Benediksson skildi á móðurkné að á íslensku orð væri til yfir allt sem er hugsað á jörðu og ég upplifði það sama.

Mamma kenndi mér ótalmargt en ég er henni þó þakklátust fyrir að hafa sýnt mér hversu snilldarlega er hægt að flétta orðum saman. Aðferð mömmu við að slaka á og láta líða úr sér eftir erfiðar vinnutarnir var nefnilega að lesa ljóð. Ein af fyrstu minningum mínum um mömmu er þegar ég laumaðist undir borðstofuborðið heima til að geta hlustað á hana lesa upphátt fyrir sjálfa sig. Ég sat með öndina í hálsinum og þorði ekki að gefa frá mér minnsta hljóð. Að mínu mati var þetta helg stund. Rödd mömmu breyttist þegar hún las og þótt ég skildi ekki orðin sagði hljómfallið mér að öll voru þau orð töfrum slungin.

Undir borðstofuborðinu heima held ég að áhugi minn á bókmenntum hafi kviknað en hann hefur aldrei slokknað síðan og kannski var þetta jafnvel kveikjan að því að ég ákvað að starfa við skriftir. Og bækur hafa alltaf fylgt mér. Á náttborðinu mínu liggja gjarnan tíu til fimmtán bækur, sumar er ég að lesa aðrar á ég eftir að lesa og sumum get ég ekki beðið eftir að byrja á. Hvenær sem stundarkorn gefst yfir daginn gríp ég bók eða blöð og les eins lengi og ég get. Börnin mín telja þetta fíkn og segja að ég fái fráhvarfseinkenni hafi ég ekki eitthvað að lesa. Þetta er alveg rétt því ákveðið eirðarleysi grípur mig þegar engin bók er eftir ólesin á náttborðinu. Stundum hefur fráhvarfið orðið það slæmt að ég hef tekið til við að lesa á kornflekspakka fremur en ekki neitt.

Ég skildi þess vegna nákvæmlega hvað Kurt Vonnegut átti við þegar hann sagði frá því hvernig hann hafði reynt í leit að slökun og hugarró eftir sjálfsvíg sonar síns að fara á námskeið í hugleiðslu en ekki náð að tæma hugann eins og nauðsynlegt var fyrr en kennari benti á að þetta væri eins og að hverfa í huganum inn í góða bók. Á hverju kvöldi hverf ég inn í annan heim og hrærist til meðaumkunar með persónum sem spretta ljóslifandi upp af blöðunum, græt með þeim, hlæ með þeim, reiðist og fyllist auðmýkt. Stundum verða þessar tilfinningar sem bókin vekur allsráðandi í lífi mínu næstu daga á eftir og ég berst fyrir réttlæti eða geng um þakklát og glöð fyrir sköpunarverkið. Já, orðin eru mögnuð og penninn hvassari en nokkurt sverð.

 


Sumar manneskjur

Ég er að verða svo lesblind með árunum. Nú rakst ég á fyrirsögnina Sjúkrahúsið á Egilsstöðum lokar fyrir innlagnir vegna manneskju. Það er aldeilis, hugsaði ég. Sumar manneskjur eru til meiri vandræða en aðrar. Síðan leit ég aftur á þetta og þá kom í ljós að þarna stóð manneklu ekki manneskju.

Bloggfærslur 30. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband