Með réttarmeinafræðing á heimilinu

Tíkin Freyja á alltaf sinn eigin bangsa. Með hann druslast hún í kjaftinum fram og aftur um húsið og jafnvel í langa göngutúra. Á stundum er hún góð og blíð við þessi leikföng sín en þess á milli siðar hún þau óþyrmilega. Eins og að líkum lætur endast tuskudýrin mislengi en alltaf endar það með að saumar gefa eftir og innvolsið vellur út. Á laugardaginn var gaf sig svo óvenjulega harðger flóðhestur úr IKEA og síðan hef ég ekki gert annað en að tína upp hvíta hnoðra sem svífa hér um gólfin. Í gærkveldi var ég búin að fá alveg nóg af þessu og hvæsti á hundinn: Viltu gera svo vel að færa þessar krufningar þínar út úr húsinu. Þetta fannst börnunum mínum bráðskemmtilegt og sérstaklega í ljósi þess að móðir þeirra hefur legið í ótal sögum af réttarmeinafræðingum sem leysa flóknustu sakamál með innsæi, gáfum og nákvæmni. Ég tala af reynslu þegar ég fullyrði að það er allt annað að vera með einn slíkan inn á heimilinu en bara að lesa um þá.

Páskakveðjur

Ég og sonur minn sendum hvort öðru þessar páskakveðjur í gærkveldi eftir að hann hafði borðað hjá mér.

Eitt sinn var ungur maður
sem varð rosalega glaður
þegar fékk hann naut
og leysti þraut
sem snerist um bölvað þvaður.

Þetta síðasta vísar auðvitað til krossgátu Morgunblaðsins en við mæðginin erum bæði forfallnir krossgátufíklar.
Svarið sem ég fékk var svona:

Þessi maður var einkar góður
en átti snaróða móður.
Hún með vísum hann hrelldi
og vöngum velti
um fokdýrt svínafóður.

Ég veit ekki hvort svínafóðrið sem verið er að tala um er nautahryggurinn sem ég eldaði handa syninum og kærustu hans.


Bloggfærslur 9. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband