15.8.2007 | 18:41
Bókasafn í nýju ljósi
Ég gekk framhjá Bókasafni Kópavogs áðan og sá skilti í glugganum sem á stóð: Skilalúga á norðurhlið. Þetta tókst mér auðvitað að lesa: Skítalúga á norðurhlið sem setur starfsemi safnsins óneitanlega í dálítið annað samhengi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.8.2007 | 09:29
Féll fyrir sívalning
Mig hefur alltaf langað í sívalan kodda eða púða. Ég man eftir slíkum þarfaþingum úr æsku minni, enda var eitt slíkt í sófanum í stofunni hans afa á Vesturgötunni. Svona til að útskýra ögn betur hvað ég á við þá eru þetta langir, mjóir en alveg sívalir koddar sem iðulega voru í skrautlegum koddaverum jafnvel með dúskum á endunum. Alveg guðdómlegt. (Mamma hefur oft skammað mig fyrir glysgirnina en sennilega er þetta úrkynjaði Rómverjinn í mér). Við Helen systir brugðum okkur í verslunina Egg í gær og viti menn þar voru til sölu á útsölu meira að segja svona sívalir koddar. Reyndar var bara hægt að fá koddaver utan um þau í stíl við rúmföt sem voru til sölu í versluninni en ég kolféll og bar heim minn sívalning alsæl. Hann var settur undir koddann minn í gærkvöldi en eitthvað virkar þetta öfugt því ég vaknaði með hausinn í miðju rúminu í morgun og engan kodda undir hausnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2007 | 09:22
Slagurinn óvenju snemma á ferðinni
Þessi einstaklega skiljanlega fyrirsögn er á frétt á visir.is um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Ég sé þetta alveg fyrir mér: slagurinn færist líkt og hvirfilbylur yfir öll Bandaríkin og eirir engu. Menn dragast með í slagsmálin og ráða ekki neitt við neitt en vita þó að hann er óvenjusnemma á ferðinni að þessu sinni. Kannski er þetta maður sem heitir Slagur og ætlar sér í forsetaframboð en hefur margreynt það áður og ekki tekist og það er þess vegna sem menn slá þessu svona fram: Slagurinn óvenju snemma á ferðinni. Já, ræfillinn hann var vonglaður og byrjaði því snemma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)