Féll fyrir sívalning

Mig hefur alltaf langað í sívalan kodda eða púða. Ég man eftir slíkum þarfaþingum úr æsku minni, enda var eitt slíkt í sófanum í stofunni hans afa á Vesturgötunni. Svona til að útskýra ögn betur hvað ég á við þá eru þetta langir, mjóir en alveg sívalir koddar sem iðulega voru í skrautlegum koddaverum jafnvel með dúskum á endunum. Alveg guðdómlegt. (Mamma hefur oft skammað mig fyrir glysgirnina en sennilega er þetta úrkynjaði Rómverjinn í mér). Við Helen systir brugðum okkur í verslunina Egg í gær og viti menn þar voru til sölu á útsölu meira að segja svona sívalir koddar. Reyndar var bara hægt að fá koddaver utan um þau í stíl við rúmföt sem voru til sölu í versluninni en ég kolféll og bar heim minn sívalning alsæl. Hann var settur undir koddann minn í gærkvöldi en eitthvað virkar þetta öfugt því ég vaknaði með hausinn í miðju rúminu í morgun og engan kodda undir hausnum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

He, he, já mikið skil ég þig. Það eru stundum svona gamlir draumar frá æsku sem dúkka upp. Það er eitthvað sem blikkar manna svo gjörsamlega. Þegar ég var lítil stelpa var sessalong það flottasta sem til var og svo konunglegt. Einnig var draumurinn að vera með himnasæng. Það var toppurinn. En ég hef aldrei komið því í verk og draumurinn hefur fölnað með árunum. Ótrúlegt hvað hlutir geta blikkað mann!

Sigurlaug B. Gröndal, 16.8.2007 kl. 08:54

2 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Þessir sívalningar voru nú meira notaðir til skrauts en sem koddar. Kannski hafa einhverjir þó nýtt þá undir höfðuðið þegar þeir voru að lesa í rúmini. Forðaðu honum allavega undan höfðinu svo þú fáir ekki hálsríg.

Aðalheiður Magnúsdóttir, 16.8.2007 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband