Ekki fyrir alla þessi brúnkukrem

Þegar ég var að vinna á Vikunni kom eitt sinn til okkar ung fegurðardrottning í forsíðumyndatöku. Hún hafði með sér eitthvert sprei í brúsa sem átti að virka svona líka flott á fæturna á manni. Hún sýndi mér þetta og spreiaði létti yfir leggina og viti menn fínleg og falleg húð lagðist yfir fallega fætur hennar. Ég heillaðist af þessari lausn, enda alræmdur sokkabuxnamorðingi, eiginlega raðmorðingi því venjulega duga ekki tvær á kvöldi. Nú en víkjum aftur að fyrri sögu minni. Ég sem sé keypti þennan fína úða sem heitir Airbrush og er úðað á lappirnar. Þá á að setjast fín og jöfn húð yfir fótleggina sem hylur alla smávægilega galla og gefur fótunum brúnan og sumarlegan lit. Okkur Gumma var boðið á opnun málverkasýningar og ég leit svo á að varla væri betri tími til að láta á brúsann góða reyna en einmitt þá. Ég úðaði og úðaði, spreiaði og spreiaði en alltaf voru helgidagar og hvítir blettir á löppunum á mér. Í örvæntingu kallaði ég á eiginmanninn því hann er handlagnari og nú hófst lagfæringin. Ég stóð gleið og hélt upp um mig pilsinu meðan eiginmaðurinn úðaði upp og niður lappirnar á mér. Ég var eins og paródía af Marilyn Monroe yfir útblástursgrindinni forðum. Honum gekk lítið betur en mér og alltaf vantaði einhvers staðar smá í viðbót til að jafna litinn. Að lokum vorum við orðin svo sein að við urðum að æða út úr dyrunum og lappirnar á mér voru enn blautar og smituðu lit í pilsið mitt, á bílsætið og utan í einhvern mannaumingja sem var svo óheppinn að ganga fram hjá mér. Ekki skánuðu skallablettirnir við það. Ég sat prúð og stillt allt kvöldið með lappirnar kvenlega krosslagðar undir pilsið. Aldrei verið jafnpen á ævinni. Brúsinn á að duga í 6-8 skipti en eftir þetta eina skipti hjá mér er ekki meira en svo eftir en að duga á eina löpp á meðalflugu. Kannski óþarft að taka það fram en ég mæli ekki með þessu í stað sokkabuxna. Þótt það sé dýrt að eyðileggja einar sokkabuxur á kvöldi er enn dýrara að úða á sig 2400 kr. og vera skellótt ofan í kaupið.

Sælgætissúpa í góðum félagsskap

Í hádeginu fór ég á súpufund hjá Kvenréttindafélaginu og hlustaði á Maryam Namazie flytja erindi er nefnist: Women´s Rights, the Veil and Islamic Rule. Hún kom hingað til lands á vegum Siðmenntar og á vef þeirra, www.sidmennt.is er að finna grein eftir hana sem þýdd hefur verið á íslensku og þar sem hún segir svipaða hluti og hún gerði í erindinu í dag. Þetta var einstaklega áhugavert sérstaklega í ljósi þess að hún benti á að trúarbrögð og ríkisvald verður skilyrðislaust að aðskilja. Ef það er ekki gert fara trúarbrögðin að hafa óæskileg áhrif á lagasetningar og framkvæmd laga í samfélaginu. Eins og hún benti á þá eru trúarbrögðin ekki slæm en þegar þau eiga að ráða lífi þjóða er skrattinn laus, ef svo má að orði komast. Trú er einkamál hvers og eins og hver einstaklingur á að iðka sína trú á sinn hátt án þess að reyna að kúga henni upp á aðra. Og í ljósi þessi er ekki tími til kominn að við horfumst í augu við það að þjóðkirkja er tímaskekkja jafnvel þótt hún sé jafnafskiptalítil og sú íslenska.

Hér eru nokkrar frekari upplýsingar um Maryam. Hún fæddist í Íran en fluttist síðar með fjölskyldu sinni til Bretlands. Hún menntaðist í Bandaríkjunum þar sem hún bjó um nokkurt skeið. Hún er nú búsett á Bretlandi og hefur látið mjög að sér kveða í baráttunni fyrir auknum mannréttindum kvenna einkum íslamskra kvenna. Hún er harðorð í garð Íslamstrúar og hefur reynt að aðstoða flóttamenn frá Íran og þá sem búa þar enn og þjást undir stjórn klerkanna. Frekari upplýsingar um Namazie er að finna á heimasíðu hennar http://www.maryamnamazie.com/


Bloggfærslur 5. september 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband