Ekki fyrir alla þessi brúnkukrem

Þegar ég var að vinna á Vikunni kom eitt sinn til okkar ung fegurðardrottning í forsíðumyndatöku. Hún hafði með sér eitthvert sprei í brúsa sem átti að virka svona líka flott á fæturna á manni. Hún sýndi mér þetta og spreiaði létti yfir leggina og viti menn fínleg og falleg húð lagðist yfir fallega fætur hennar. Ég heillaðist af þessari lausn, enda alræmdur sokkabuxnamorðingi, eiginlega raðmorðingi því venjulega duga ekki tvær á kvöldi. Nú en víkjum aftur að fyrri sögu minni. Ég sem sé keypti þennan fína úða sem heitir Airbrush og er úðað á lappirnar. Þá á að setjast fín og jöfn húð yfir fótleggina sem hylur alla smávægilega galla og gefur fótunum brúnan og sumarlegan lit. Okkur Gumma var boðið á opnun málverkasýningar og ég leit svo á að varla væri betri tími til að láta á brúsann góða reyna en einmitt þá. Ég úðaði og úðaði, spreiaði og spreiaði en alltaf voru helgidagar og hvítir blettir á löppunum á mér. Í örvæntingu kallaði ég á eiginmanninn því hann er handlagnari og nú hófst lagfæringin. Ég stóð gleið og hélt upp um mig pilsinu meðan eiginmaðurinn úðaði upp og niður lappirnar á mér. Ég var eins og paródía af Marilyn Monroe yfir útblástursgrindinni forðum. Honum gekk lítið betur en mér og alltaf vantaði einhvers staðar smá í viðbót til að jafna litinn. Að lokum vorum við orðin svo sein að við urðum að æða út úr dyrunum og lappirnar á mér voru enn blautar og smituðu lit í pilsið mitt, á bílsætið og utan í einhvern mannaumingja sem var svo óheppinn að ganga fram hjá mér. Ekki skánuðu skallablettirnir við það. Ég sat prúð og stillt allt kvöldið með lappirnar kvenlega krosslagðar undir pilsið. Aldrei verið jafnpen á ævinni. Brúsinn á að duga í 6-8 skipti en eftir þetta eina skipti hjá mér er ekki meira en svo eftir en að duga á eina löpp á meðalflugu. Kannski óþarft að taka það fram en ég mæli ekki með þessu í stað sokkabuxna. Þótt það sé dýrt að eyðileggja einar sokkabuxur á kvöldi er enn dýrara að úða á sig 2400 kr. og vera skellótt ofan í kaupið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Þarna hefði ég viljað vera fluga á vegg. Verst að ég hefði örugglega dáið úr hlátri. Það hlýtur að vera betra að fá sér bara háa sokka undir pilsið.

Aðalheiður Magnúsdóttir, 5.9.2007 kl. 18:28

2 Smámynd: Heiða  Þórðar

Veistu Steingerður ég roðna núna..... er einmitt útötuð í lófunum þessa stundina......og næ því ekki af!

Heiða Þórðar, 6.9.2007 kl. 11:16

3 identicon

Bara þú gætir gert svona Steinka , eehhhmm , jú mamma og Svava líka. Ég vil fá að fylgjast með næst þegar svona æfingar eru í vændum , myndi hlæja fyrir árið . Yndislega fyndið

Hildur Þöll (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 15:20

4 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Frábær frásögn

... mér finnst ég verða einkennilega lík kartöflum í útliti þegar ég hef reynt að fikta í svona brúnkukremum, hætti því fljótt og örugglega eftir 2 - 3 tilraunir  

Marta B Helgadóttir, 6.9.2007 kl. 23:21

5 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Hahahaha, þekki þetta svoooo vel. Þú ættir að vita hvað ég hef orðið fullkomlega og algerlega að athlægi vegna klaufalegrar notkunar á svolögðuðu....

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 9.9.2007 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband