16.1.2008 | 16:10
Það var og ...
Vog: Það býr til vandamál úr engu með því að spyrja of margra spurninga eða koma með of margar athugasemdir. Takmarkaðu þig við það sem nausynlega þarf að segja til að leysa málin, það er einfaldast og best.
Þetta er stjörnuspáin mín í dag. Gersamlega óskiljanleg. Hvaða Það er þetta sem býr til vandamál úr engu með því að spyrja of margra spurninga? Er ég í hvorukyni vegna þess að ég fæddist í vogarmerkinu? Er það málið? Og hvaða orðskrípi er nausynlega?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2008 | 09:53
Þar lágu Danir í því
Ég er seinheppinn maður það sést best á því ... segir í texta gamals dægurlags og mér dettur þessi setning oft í hug einkum þó eftir reynslu eins og þá sem ég varð fyrir í morgun. Ég var á gangi í Kópavogsdalnum með tíkina í stilltu yndislegu veðri. Allt var svo hvítt og hljótt að mig greip einhver hundakæti og ég tók upp á því að valhoppa eftir göngustígnum. Í einni lendingunni lenti ég á svelli sem var vandlega hulið undir snjónum og rann á annað hnéð. Þetta hefði svo sem ekki talist stórmál í mínum gönguferðum ef ekki hefði birst fyrir framan mig einhver mannfýla sem ég get svarið að spratt upp úr jörðinni því hvergi sá ég honum bregða fyrir örskömmu áður. Tíkin greip auðvitað þetta tækifæri til að rykkja í tauminn með þeim afleiðingum að hnykkur kom á efri búk minn og hendurnar lyftust upp í einhverja biðjandi stöðu. Stellingin var þannig að það eina sem eftir var að stynja upp bónorðinu.
Þetta vakti upp sára minningu frá því ég var í landsprófi hérna í denn og tók strætó í skólann. Þrír sætustu strákarnir í skólanum tóku vagninn á sömu stoppistöð og ég. Þetta fannst mér mikill kostur þar til ég var fyrir því að stíga á hálkublett og detta. Ég lenti á hliðinni með hönd undir kinn og engu líkara en ég hefði einfaldlega lagst þarna. Ég hugsaði í örvæntingu: Þú segir eitthvað fyndið og snjallt og reddar þessu. Það eina sem kom upp úr mér var hins vegar: Ég datt. Eftir þetta hlógu töffararnir eins og hýenur í hvert skipti sem þeir sáu mér bregða fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)