12.2.2008 | 10:00
Heimspeki og foreldraábyrgð
Eva, dóttir mín, var mikill heimspekingur þegar hún var barn. Hún var sú eina í minni annars óguðlegu fjölskyldu sem hugsaði um eðli og tilvist guðs. Einn morguninn þegar hún var fjögurra ára stóð ég í eldhúsinu tilbúinn að skenkja henni Cheerio's á disk þegar hún sagði: Ég vil fá hafragraut í morgunmat. Guð borðar hafragraut á morgnana. Hvað hefur þú fyrir þér í því, spurði ég hálfpirruð yfir að þurfa að drösla fram potti og sjóða hafragrjón. Jú, afi segir að hafragrautur sé besti morgunmaturinn og guð veit hvað manni er fyrir bestu, var svarið. Hún hafði farið með leiksskólanum sínum í heimsókn í Hallgrímskirkju skömmu áður og þetta var meðal þess sem presturinn hafði sagt þeim. Hún fékk sinn hafragraut en verra þótti aftur á móti þegar hún fékk að fara í Vindáshlíð með vinkonu sinni. Ég var rétt búin að sækja hana í rútuna og við skruppum í fataverslun hér í bænum (nokkuð dýra). Ég mátaði buxur og peysu sem klæddu mig sérlega vel en bar mig upp við afgreiðslukonuna yfir að þetta væri nú heldur mikil fjárfesting á einu bretti og klykkti út með að segja: En það er rosalega freistandi að kaupa bæði. Maður á að standast freistingar gall þá í dóttur minni og ég stundi: Þetta hefur maður upp úr því að senda börnin sín í kristilegar sumarbúðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2008 | 09:13
Páskahérinn og bollurnar
Ég er óforbetranlegur sælkeri og sykurfíkill. Hana, ég viðurkenni þetta bara sisvona. Undanfarnir dagar hafa nefnilega verið martröð. Í öllum búðum vella nú páskaegg úr pappakössum og blasa við í þar til gerðum eggjabökkum. Þetta er hræðilega eggjandi því í þeim sameinast tvær helstu ástríður mínar í lífinu, snjallyrði eða orðskviðir og súkkkulaði. Ég á verulega bágt þessa dagana og á von á að ummálið aukist umtalsvert fram að páskum ef páskahérinn miskunnar sig ekki yfir mig og forðar hluta af þessum litlu freistingum úr augsýn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)