Armur laganna

Ég var að fletta Mogganum mínum í morgun þegar ég rakst á áhugaverðan uppslátt eða þá fullyrðingu að fólki sem þarf á gervilimum að halda er gert að skila vottorði frá geðlækni. Ah! Grundvallaratriði, hugsaði ég. Auðvitað verður að koma í veg fyrir að fólk sem haldið er óstöðvandi löngun til að hafa átta arma eins og kolkrabbi nái að svíkja út úr Tryggingastofnun hvern handlegginn á fætur öðrum. Svo eru örugglega til menn sem vilja svindla á ólympíuleikum fatlaðra og hlaupa ekki á tveimur jafnfljótum heldur tíu mismunandi löngum. Svo las ég greinina. Nei, geðlæknisvottorðið er ekki til að hindra svo augljóst svindl heldur til þess að fá fyrir því sönnur að félagsleg einangrun fylgi því að fólk fái ekki nýjustu og bestu gervilimi á markaðnum. Þannig að ef þú ert fótalaus en vinmörg er þér ekki ofgott að staulast um tréfótum rétt eins Long John Silver hér á árum áður. Hann var reyndar illmenni og átti fáa að svo TR hefði rétt honum tölvustýrðan fót án frekari málalenginga. Long John var hins vegar skáldsagnapersónu og því lítil hætta á að íslenska ríkið verði fátækara hans vegna. En hverslags eiginlega heimskuþvaður er þetta. Hverjir semja svona fíflareglur? Við erum ríkt samfélag og sjálfsagt að þeir sem búa við fötlun hér á landi njóti umsvifalaust góðs af tækninýungum. Það á ekki einu sinni að þurfa að ræða það hvað þá að afla einhverra vottorða umsókn þessara einstaklinga til stuðnings. Þetta er álíka heimskulegt og þegar Helen systir var gert það árum saman að mæta með vottorð um að hún væri með sykursýki I í hvert skipti sem hún sótti um endurgreiðslu á kostnaði vegna ýmislegs sem til féll vegna sjúkdómsins. Hún fékk lyfin sín frítt en það sem þurfti til að hún gæti mælt blóðsykur og sprautað sig var endurgreitt tvisvar á ári og þá þurfti læknisvottorð. Já, þeir ætluðu sko að sjá til þess að ef hún læknaðist fyrir tilstilli kraftaverks þá fengi hún ekki krónu umfram það sem henni bar frá íslenska ríkinu. Og ég sem hélt að læknar og sérfræðingar TR væru hámenntaðir og gáfaðir menn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Rugl er þetta. Pabbi minn sem er alveg heyrnarlaus og hefur verið frá æsku þarf reglulega að fara í heyrnarmælingu þegar örorkan hans er metin vegna heyrnarleysisins. Svo er hann spurður. Heyrirðu þetta hljóð?

En þetta hljóð? í gegnum allt prófið og hann auðvitað bara hristir hausinn. Og honum finnst þetta niðurlægjandi. Og mér líka.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 10.2.2007 kl. 11:44

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ein vinkona mín þurfti reglulega að skila vottorði til Tryggingarstofnunar um að dóttir hennar væri með Down Syndrome, svipað og með sykursýkina hjá Helen! Börn með DS nota bleiur miklu lengur en önnur börn og þær voru niðurgreiddar. Stelpan var þó enn á fyrsta árinu þegar vinkona mín var beðin um vottorð um fötlun barnsins og að svara því hversu lengi hún teldi að barnið þyrfti bleiur. Hún var að hugsa um að svara því þannig að barnið þyrfti þær þar til það hætti að vera mongólíti! Henni fannst þetta bara fyndið!

Guðríður Haraldsdóttir, 10.2.2007 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband