Launaleyndin og samstaðan

Loksins er komin af stað umræða um að banna atvinnurekendum að gera þá kröfu til starfsmanna að þeir þegi yfir því hvaða laun þeir þiggja. Á öllum þeim vinnustöðum sem ég hef unnið á hefur mér verið sagt að ég væri yfirborguð. Að laun mín væru yfir töxtum og ég með hærri laun en almennt gerðist á þessum tiltekna stað. Hins vegar hafði ég aldrei nein tök á að sanna eða afsanna þetta og komst fljótt að því að hugsanlega var ég með hærri laun en einhverjar samstarfskvenna minna en ávallt lægri en samstarfsmennirnir. Ég ákvað því snemma að þegja ekki yfir því hvað ég fengi í laun ef það gæti orðið til að hjálpa samstarfskonum mínum að sækja meira og hef aldrei gert það þótt ég hafi verið beðin um það. Þetta var ekki alltaf vinsælt en mér var ekki sagt upp fyrir tiltækið. Ein systra minna vann einu sinni á fjölmennum vinnustað og þar höfðu konurnar með sér samtök um að láta hvor aðra vita ef þær fengu launahækkun. Þessi samstaða varð til þess að þær hógværari í hópnum áttu auðveldara með að sækja sér uppbót á launum. Þær gátu farið með vel rökstudda beiðni um hækkun til yfirmanna sinna og bent á fordæmi í öðrum deildum. Mín skoðun er sú að launaleynd rjúfi alla samstöðu meðal launafólks og geri öllum erfiðara fyrir að sækja sér kjarabætur, bæði körlum og konum. Að mínu mati á atvinnurekandi auðvelt með að rökstyðja val sitt ef hann kýs að verðlauna einhvern starfsmanna sinna. Það er svo auðvelt að benda á meiri afköst, betri vinnuviðveru, meiri reynslu, betri menntun eða önnur verðmæti sem felast í þessum tiltekna starfskrafti umfram aðra. Hvers vegna atvinnurekendur eru svona hræddir við að þurfa að verja mál sitt finnst mér gersamlega óskiljanlegt. Og hvers vegna launafólk er tilbúið að láta draga sig inn í að eiga einhver leyndarmál með vinnuveitanda sínum finnst mér álíka heimskulegt. Ef við erum góð og njótum viðurkenningar fyrir það er þá ekki eðlilegra að viðurkenningin sé opinber?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þú, ég og Bjarni Ármanns hjá Glitni erum núna sammála um þetta og þá hlýtur að fara að draga til tíðinda ...

Berglind Steinsdóttir, 16.4.2007 kl. 23:35

2 Smámynd: Jón Svavarsson

Já Steingerður það er alveg rétt, oft er leyndin til að fela það að hin fá hærri laun en maður sjálfur og tilhvers er þá leyndin? Það er lágmarkskrafa að greitt sé samkvæmt töxtum og gott ef betur en það er gert.Fer það þá eftir þeim verðleikum sem sá starfsmaður býður uppá, til dæmis sérlega góðir blaðamenn á móti af léglegum eða sérlega duglegur bókari á móti öðrum sem ekki er jafn afkasta mikil og lengi mætti telja. Kær kveðja Jón

Jón Svavarsson, 17.4.2007 kl. 09:39

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir góðan pistil.  Ég var nánast alltaf í þessari aðstöðu að vera sagt að ég væri hærri en flestir en gat sjaldnast sannreynt það. Það er svo sannarlega kominn tími á að aflétta þessari leynd því ég er sannfærð um að hún gerir atvinnurekendum mögulegt að viðhalda launamisrétti kynjanna.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.4.2007 kl. 09:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband