Stystu dagarnir, lengstir allra

downloadUndanfarin tíu ár hefur það verið hluti af starfi mínu að lesa og fjalla um nýútkomnar bækur fyrir jólin. Ég viðurkenni fúslega að mörg verkefni mín voru mun meira íþyngjandi að mínu mati. En það er erfitt að hætta svona á hnefanum að lesa og spjalla um bækur svo ég hef haft alla anga úti undanfarið við að útvega mér bækur. Um daginn keypti ég Urtu eftir Gerði Kristnýju og hún liggur núna á náttborðinu mínu. Það er hrein nautn að grípa hana og lesa. Engu orði ofaukið og hvert orð svo sterkt og akkúrat þar sem það á að vera. Er nokkuð fullkomnara en:

Legg ég hönd
á belg
er sem hnöttur iði
í lófa mér.

Ég er hrædd um að þessi hverfi ekki upp í hillu á næstunni eða hafið þið velt fyrir ykkur hvað það er stórkostlega ánægjulegt að vita að svona listaverk eru til? Mér finnst það að minnsta kosti segja mér að enn sé von fyrir mannkynið. Í þessari bók leggur Gerður út frá sögu formóður sinnar, Sigríðar Jónsdóttur, magnaðrar konu. Hún bjó norður á Ströndum var ljósmóðir og átti sjálf nítján börn. Líklega geta flestir ímyndað sér hversu harðsótt glíman við náttúruöflin hefur verið þar og lífsbaráttan almennt. Hungurvofan hékk alltaf úti fyrir dyrum torfbæjanna ekki hvað síst þar sem marga munna þurfti að metta. Líklega væru þetta nægar hindranir fyrir manneskju að takast á við en Sigríður var einfætt og mátti ferðast um stórgrýttar fjörur, snarbrattar brekkur, þýfð tún og engi. Engin meðalkona þarna á ferð.

Kveikjan að ljóðabálknum var hins vegar sú staðreynd að Sigríður var einhverju sinni sögð hafa hjálpað urtu að kæpa. Meðlíðan ljósmóðurinnar kviknar þegar hún gengur fram á dýrið og sér að það er í nauð og bjargar bæði urtu og kópi. Auðvitað vekur þetta upp hugrenningatengsl við þjóðsögur tengda selum, konuna sem átti sjö börn á landi og sjö í sjó, að selurinn hafi mannsaugu því þeir séu hermenn Faraós sem drukknuðu í Rauðahafinu eða endurbornar þær sálir sem hafa fyrirfarið sér í sjó.

Í þessum einstaka ljóðabálki er hins vegar svo mikill kraftur að í hvert sinn sem ég tek bókina upp verður mér hugsað til ákvæðaskálda fortíðar. Ég sé Látra Björgu fyrir mér skálmandi milli bæja, háa til hnésins og kraftalega. Hún og Sigríður eiga það sameiginlegt að láta ekki óblíða náttúru buga sig. Báðar hafa þó áreiðanlega átt sínar viðkvæmu stundir þegar stutt var í örvæntinguna

Vef mig inní
þéttofna eymdina
dökkvoðungur
í dyngju sinni
 
Draugaverkur
í fæti
 
Enginn mig svæfir
 
Stystu dagarnir
lengstir allra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband