Á fjórum fótum í brekku

sincerely-media-3uNmV2wdaDM-unsplashBílaeign landsmanna eykst ár frá ári og flestir nútímamenn gersamlega háðir bílum sínum til að komast á milli staða þótt margir myndu áreiðanlega kjósa að nota tvo jafnfljóta eða annan umhverfisvænan ferðamáta. Hægt gengur að skapa og bjóða almenningssamgöngur sem eru raunverulegur valkostur. Líklega vildu flestir geta sparað bílinn en á því eru ýmis tormerki, þótt borgaryfirvöld hafi af yfirlýstri stefnu að draga úr notkun einkabílsins. 

Bíllinn minn var á verkstæði um tíma um daginn og ég var bíllaus frá átta um morguninn til klukkan fimm í eftirmiðdaginn. Ég fór í tvö viðtöl yfir daginn og sníkti far með samstarfsmanni í annað en bjargaði mér gangandi í hitt. Í lok vinnudags var farið að fara um mig því enn hafði ekkert heyrst frá verkstæðinu. Ég hringdi þess vegna í þá og fékk þær upplýsingar að bílinn hefði ekki verið tekinn inn fyrr en örskömmu áður og ekki víst að hægt væri að ljúka verkinu fyrir lokun.

Ég bar mig aumlega við þessi tíðindi, enda gönguferð framundan í góðra vina hópi og saumaklúbbur um kvöldið. Ég sá engin ráð til að komast á báða staði bíllaus. Afgreiðslumaðurinn var þá svo einstaklega elskulegur að benda mér á strætisvagna Reykjavíkurborgar en ég benti honum á að ég hefði þegar skoðað það og ferðirnar tóku samkvæmt leiðarvísi Strætó 45 mínútur hvor um sig en á bílnum mínum hefði þetta tekið mig tíu mínútur. En þar sem ég þurfti milli tveggja úthverfa hefði ég þurft að taka alls fjóra vagna til að komast á milli.

Afgreiðslumaðurinn ljúflyndi stakk því þá að mér að erfitt væri að giska á hvernig afar og okkar og langafar hefðu farið að við svipaðar aðstæður. Þetta hefði hann alls ekki átt að gera því þarna var ég á heimavelli. Ég svaraði honum hvöss og benti á að afar okkar og langafar hefðu sjaldnar þurft að bregða sér af bæ en við og hver maður að meðaltali einu sinni lagt upp í langferð á ævi sinni. Langfeður vorir hefðu sömuleiðis haft þarfasta þjóninn sér til aðstoðar og þess vegna hefði engum með fullu viti jafnvel í þá tíð dottið í hug að labba úr Vesturbænum upp í Breiðholt nema brýna nauðsyn bæri til og hefðu þá gefið sér að minnsta kosti dag til heimsóknarinnar. Menn fyrri tíðar voru þar að auki ekkert sérstaklega hrifnir af flökkurum. Þeir voru umsvifalaust handsamaðir og sendir aftur í sína heimasveit ef í þá náðist. Langafi hefði sennilega ekki verið hrifinn af því að Sölvi Helgasson fengi komist með strætó á framfæri hans hrepps. Svo áhrifamikil var þessi ræða að ég fékk bílinn og ekki reyndi á kraft postulahesta minna að þessu sinni né heldur sjálfsbjargarviðleitni mína á ögurstundu. 

Í sjálfheldu í miðri fjallshlíð

Ég veit ekki hins vegar ekki af hverju það hefur loðað við mig frá barnæsku að koma mér alltaf og ævinlega í einhverjar ógöngur þar sem aðrir sjá ekki annað en greiðfærar leiðir og beina braut. Þannig lenti ég nokkrum sinnum í því að taka vitlausan strætisvagn þegar ég var á leið í skólann, leið 13 í stað 3 og áttaði mig þegar ég var komin hálfa leið upp í Breiðholt. Þar fór ég úr vagninum og gekk eina sjö kílómetra í skólann. Í hitt sinnið endaði ég í Árbæ og ákvað að taka strikið yfir Elliðaárdalinn því í það sinn átti ég erindi upp í Breiðholt en ruglaði saman úthverfavögnunum.

joshua-earle-xEh4hvxRKXM-unsplashÍ fyrstu gekk allt vel og ég þrammaði eftir svelllögðum göngustíg niður að Elliðaánum. Þá var ég búin að fá nóg af að tvista á svellinu og ákvað að skella mér út í skóginn þar sem heldur minni svellalög voru. Þetta varð til þess að ég villtist. Ég gekk og gekk en hvergi bólaði á stígnum sem ég hafði fetað áður og fljótlega fór ég að örvænta. Ef ég færi ekki að koma mér á rétta leið yrði ég sennilega enn á gangi um miðnættið svo ég beygði snarlega og æddi beint af augum gegnum skógþykknið. Ég náði ekki langt fljótlega var ég komin í hina verstu sjálfheldu í miðjum þykkum gróðri og komst eiginlega hvorki aftur á bak né áfram. Það var alveg sama í hvaða átt ég leit allt var jafntorfært svo ég hélt bara áfram sömu leið. Daginn eftir var ég blóðrisa á öllum efri hluta líkamans, helmingurinn af hárinu á mér varð eftir á trjágreinum í Elliðaárdalnum og buxurnar mínar og skórnir hafa lifað sitt fegursta. En af hverju ég lendi endilega í svona aðstæðum veit ég ekki. Þetta hefur ekki elst af mér því nýlega tókst mér að komast í svo rækilega sjálfheldu í flughálku í Vífilsstaðahlíð að ég var sannfærð um að ég kæmist ekki óbrotin frá því. Á endanum brá ég á það ráð að skríða á fjórum fótum yfir verstu kaflana og án efa bjargaði það útlimum mínum í þetta sinn. Kannski er bíllinn bara eftir allt saman öruggasti fararskjótinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband