Hver var Roald Dahl

1397780-1Nýlega bárust fregnir af því að breskir bókaútgefendur hefðu farið í gegnum bækur Roald Dahl og hreinsað úr þeim ýmis orð og setningar sem ekki þykja passa við hugsunarhátt nútímans. Miklar umræður um réttmæti þess spunnust í kjölfarið en hver var þessi fyndni og skemmtilegi höfundur sem hafði lag á að þurrka út mörkin milli veruleika og ævintýra. 

Roald Dahl fæddist 13. september 1916 i Llandaff, Wales. Foreldrar hans Harald og Sofie fluttust frá Sarpsborg í Noregi til Bretlands árið 1880. Harald var ekkill og tveggja barna faðir þegar hann kynntist Sofie en eftir að þau gengu í hjónaband bættust þrjú börn í hópinn. Roald fékk gælunafnið „eplið“ af því að hann var augasteinn móður sinnar þ.e. the apple of her eye eins og Bretar segja enda eini strákurinn. Eigi að síður er undarlegt að segja þetta því móðir hans var fjarlæg og sýndi börnunum ekki mikla hlýju.

Alin upp við norskar þjóðsögur

Fyrsta mál Roalds og systkra hans var norska en faðir hans hafði mikla trú á bresku skólakerfi og vildi að börnin menntuðust í nýja landinu. Mikil áföll riðu yfir fjölskylduna árið 1920, en þá lést Astri systir Roalds aðeins sjö ára að aldri.  Banamein hennar var botnlangabólga og tveimur mánuðum seinna dó Harald úr lungnabólgu, en sagan segir að hann hafi dáið úr sorg yfir að missa Astri. Heimilið var efnhagslega vel statt og það hefur ábyggilega hjálpaði ekkjunni ungu en hún tók þá ákvörðun að snúa ekki aftur heim til Noregs.

Sumarfríum varði fjölskyldan hins vegar í gamla landinu og þar hlustuðu börnin á þjóðsögur um tröll og aðrar furðuverur. Glögg merki þessa má sjá í bókum Roalds þar sem ævinlega er stutt í hið óvænta, ótrúlega og yfirskilvitlega. Hann las mikið skáldsögur sem barn, en þótti ekki sérlega góður námsmaður, þrátt fyrir miklar væntingar móður hans til einkasonarins. Hann var sendur í heimavistarskóla, Repton í Derbyshire, til að undirbúa hann undir háskólanám. Skólum var stjórnað af hörku og jafnvel mætti tala um sadistískar hvatir hjá stjórnendum hans.

Roald hafði alltaf verið uppátækjasamur og honum var refsað harðlega fyrir skammarstrik sín. Hann fékk að finna fyrir staf skólameistarans og átti erfitt með að fyrirgefa hýðingarnar. Í sumum tilfellum virðast refsingarnar hafa verið með öllu tilhæfulausar og það átti drengurinn erfitt með að skilja, sérstaklega í ljósi þess að áhersla varð lögð í skólanum á kristna trú og bænir. Undanfarna áratugi hafa æ fleiri nemendur breska heimavistarskólakerfisins stigið fram og líst því ofbeldi sem þar var ríkjandi. Nemendurnir víða beittu hvern annan ofbeldi og oft voru ýmsar óskráðar reglur sem nýnemar fengu að finna fyrir. Roald slapp við ofbeldi af hálfu samnemenda, enda var hann rúmir 2 metrar á hæð og afar góður í íþróttum. Hann var kappsamur og keppti í nokkrum íþróttagreinum á vegum skólans, ásamt því að spila golf.

Vildi ekki fara í háskóla

RoaldDahl_Matthildur_Kapa-600x921Móðir Roalds vildi að hann héldi áfram námi og færi í háskóla en hann hafði ekki áhuga á því. Hann réð sig í vinnu til olíufyrirtækisins Shell í þeirri vona að vera sendur til Afríku en af því varð ekki fyrr en fjórum árum seinna en þá fór hann til Dar es Salaam í Tanzaníu. Seinni heimstyrjöldin braust út um um þetta leyti og Roald sótti um að komast í flugherinn. Hann varð einn af hinu þekktu bresku flugásum og styrjöldin varð vendipunktur í lífi hans. Eftir þjálfun var hann sendur til Egyptalands en þar var honum gert að fljúga flugvél af gerðinni Gloster Gladiator langa vegalengd og taka eldsneyti tvisvar. Þegar hann átti að lenda á áfangastað fann hann ekki flugvöllinn, varð eldsneytislaus og brotlenti í eyðimörkinni nálægt Alexandríu. Hann slasaðist illa í andliti, baki og mjöðm, en náði að skríða út úr vélinni áður en eldurinn læstist í bensíntankinn og sprengdi flugvélina.

Roald þurfti að gangast undir margvíslegar skurðaðgerðir og langan tíma tók að ná heilsu. Rannsókn leiddi síðar í ljós að honum hafði verið gefin upp röng staðsetning og í stað þess að senda hann á flugvöllinn var hann sendur út í eyðimörkina út í svokallað einskismannsland mitt á milli víglína bandamanna og ítölsku og þýsku hersveitanna. Ári síðar var hann útskrifaður og hann tók þátt í mörgum loftbardögum í Evrópu meðal annars þegar Aþena var frelsuð. Aftur var hann sendur til Afríku en þar fór hann að fá alvarlega höfuðverki og að lokum var hann leystur frá herþjónustu af heilsufarsástæðum. 

Hann var staðsettur í London árið 1942 þegar hann hitti utanríkisráðherra landsins á götu og sá sendi hann til Washington og sagt er að þar hafi hann starfað sem njósnari, ásamt félaga sínum Ian Fleming, höfundi James Bond. Lífið í Washington var ævintýralegt, en þar umgekkst hann fólk eins og Roosevelt forsetahjónin, Ernest Hemingway, Walt Disney og rithöfundinn C.S. Forrester, sem einmitt hvatti Roald til að skrifa. Roald fór að ráðum hans og fljótlega fóru sögur hans að birtast í virtum tímaritum. Hann þótti ekki góður penni í skóla en frá barnæsku hafði hann skrifað minningar sínar um ferðir fjölskyldunnar til Noregs og fleira. Roald skrifaði fyrstu barnabók sína The Gremlins árið 1942 fyrir Walt Disney. Bókin gekk ekki sérlega vel og Roald einbeitti sér að bókum fyrir fullorðna lesendur, hann skrifaði meðal annars metsölubækurnar Someone Like You árið 1953 og Kiss, Kiss árið 1959. Hann hafði einnig mikinn áhuga á ljósmyndun og var mjög góður ljósmyndari og afar sterkur bridds-spilari.

Hjónaband og barneignir

kalli-og-saelgaetisgerdinÁrið 1953 giftist Roald Hollywood-leikkonunni Patriciu Neal. Hún var virt leikkona og hafði meðal annars leikið aðalhlutverk í myndinni The Day the Earth Stood Still. Síðar sýndi hún tilþrif í aukahlutverki í Breakfast at Tiffany’s og árið 1964 vann hún Óskarsverðlaun fyrir hlutverk Ölmu Brown í Hud. Hún og Roald eignuðust fimm börn en þeim mættu miklir erfiðleikar og sorg. Árið 1960 lenti sonur þeirra Theo Matthew, þá fjögurra mánaða, í bílslysi í New York, þegar leigubíll keyrði á barnavagn sem hann var í. Theo varð fyrir áverka á heila sem olli þrýstingi, en tæknin sem læknavísindin höfðu þá yfir að ráða var afar áhættusöm. Í samráði við taugasérfræðing og vökvafræðisérfræðing, fann Roald upp ventil sem tekur þrýsting af heilanum. Þessi ventill heitir Wade-Dahl-Till (WDT) ventillinn. Theo litli hafði ekki þörf fyrir ventilinn þegar hann var tilbúinn en hann bjargaði ótalmörgum börnum allt þar til til önnur tegund kom fram. Þremenningarnir þáðu aldrei þóknun fyrir uppfinningu sína.

Annað alvarlegt áfall reið yfir fjölskylduna árið 1962 þegar elsta dóttir þeirra, Olivia Twenty fékk mislinga og lést. Roald varð talsmaður bólusetninga, enda hefði bólusetning bjargað lífi dóttur hans, ef hún hefði verið á boðstólum. Bóluefni gegn mislingum kom fyrst á markað í Bandaríkjunum ári seinna. Þetta var ekki allt því árið  1965 fékk Patricia alvarlegt heilablóðfall, þá ólétt af yngstu dóttur sinni, Lucy. Hún var í dái í þrjár vikur. Hún þurfti að læra að ganga og tala á nýjan leik. Roald studdi hana með ráðum og dáð og að lokum fór hún aftur að leika og lék allt fram til ársins 2009. Eftir þetta breytti Roald áherslum sínum og fór að sinna heimilinu meðfram ritstörfunum. Þau Patricia skildu árið 1983. Roald giftist Felicity Ann Crosland stuttu eftir skilnaðinn, en hún var góð vinkona Patriciu. Felicity stjórnar dánarbúi Roalds á myndarlegan hátt og hefur vakið athygli fyrir að vera fylgin sér gagnvart framkvæmdastjórum í Hollywood.

Fjölhæfur snillingur

9789935941961Þótt fyrsta barnabókin, Gremlins hafi ekki gengið vel gerði Roald aðra tilraun árið 1961 þegar Jói og risaferskjan kom út. Hún varð metsölubók og höfundurinn fylgdi henni eftir með Kalla og súkkulaðiverksmiðjunni. Hann var afkastamikill og á næstu árum bættust við ótal frábærar bækur meðal annars Georg og magnaða mixtúran, Matthildur, Refurinn frábæri og Nornirnar. Alls liggja eftir hann nítján barnabækur en hann skrifaði einnig handrit að kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, ljóð og bækur fyrir fullorðna. Hann þótti einkar snjall smásagnahöfundur og margar sögur hans hafa ratað á hvíta tjaldið. Þar ber meðal annars að telja Charlie and the Chocolate Factory, Matilda og The BFG. Skammstöfunin stendur fyrir The Big Friendly Giant útleggst á íslensku Bergrisinn frómi góði. Leikarinn áststæli Ólafur Darri Ólafsson fer einmitt með hlutverk eins risans í myndinni, en þeir eru alls níu, vondu risarnir og gaman verður að sjá hvaða risa Ólafur Darri mun leika. The BFG mun verða sýnd í Sambíóunum og íslensk þýðing bókarinnar er væntanleg í sumar, útgefandi er bókaútgáfan Kver.

Roald Dahl lést í Oxford, 23. nóvember 1990, 74 ára að aldri, eftir stutt veikindi. Hann var aðdáendum sínum harmdauði, en sífellt bætast fleiri í þann hóp, enda eru töfrar ævintýranna slíkir að þau ná ávallt ákveðinni prósentu af hverri kynslóð á sitt vald.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband