Óhamingjusamar fjölskyldur

LUNGU_coverFjölskyldan og ættartengsl eru helstu umfjöllunarefni Pedros Gunnlaugs Garcia í bókinni Lungu. Stefán reynir að byggja brú og sættast við Jóhönnu dóttur sína en sagan gerist einhvern tíma í framtíðinni. Jóhanna hefur notfært sér nýjustu tækni til að klæðskerasníða dóttur sína, ef svo má segja, þ.e. breyta genamengi hennar til að hún verði sem fullkomnastur. Stefán hafði látið orð falla um þá fyrirætlun sem Jóhanna getur ekki fyrirgefið. Hún fer að lesa handrit að fjölskyldusögunni eftir föður sinn og hugsanlega getur það fært þau nær hvort öðru.

Þetta er fjörlega skrifuð og að mörgu leyti vel unnin saga. Þarna eru áhugaverðar persónur en einnig nokkrar ógeðfelldar. Jóhanna er einstæð móðir, fráskilin, með eitt barn sem skiptist á að dvelja já henni og barnsföðurnum, hún er forritari að leikjum sem nýta sér sýndarveruleika. Fjölskylda hennar er fámenn en því fjölbreyttari. Jóhanna á ættar að rekja til Ítalíu og Víetnam. Fólkið hennar hefur lagt á flótta undan erfiðum lífskjörum, stríði og kúgun og stjórnsemi og leiðindum. Margt er forfeðrum hennar til lista lagt en þau eru gölluð líka.

Helst stendur þeim fyrir þrifum erfiðleikar við að tengjast öðrum og gefa sig alla í samskiptum. Hér eru einbirni kynslóð fram af kynslóð og ekkert þeirra á í góðu sambandi við foreldra sína. Það er eins og enginn geti rofið einangrun hinna fullorðnu. Hér er ýjað að því að erfðir ráði miklu og alls konar genabreytingar koma við sögu en einnig dýr sem eru algeng fórnarlömb vísindamanna í leit að svörum m.a. hamstur, hundur og froskur. En þarna er líka stökkbreyttur hani, fyrsti náni vinur einnar sögupersónunnar, vinur sem viðkomandi svíkur. Hér eru stórar spurningar undir. Fyrir utan þessar klassísku um erfðir og umhverfi, spurningar um hvort rétt sé að létta foreldrum og börnum lífið með hjálp vísindanna og hvaða máli fjölskyldur skipti? Er barni nauðsyn að lifa fjölskyldulífi og veldur vangeta foreldranna til að mynda sambönd barninu óhjákvæmilega skaða? Þegar stórt er spurt verður jafnan fátt um svör en þessi bók vekur mann sannarlega til umhugsunar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband