9.6.2023 | 18:28
"Sumir skrifa í öskuna, öll sín bestu ljóð
Íslenskar alþýðukonur hafa jafnan unnið verk sín hljóðar og skrifað í öskuna, öll sín bestu ljóð. Sumarblóm og heimsins grjót er saga einnar slíkrar. Sóley er yfirgefin af karlmönnunum í fjölskyldu sinni eftir að móðir hennar þegar hún er barn að aldri. Eftir það er hún upp á náð og gæsku annarra komin og sumir reynast henni vel en aðrir skelfilega. Sóley nær hins vegar með glaðlyndi sínu, lífsvilja og hæfileikum að vinna úr verstu aðstæðum og koma börnum sínum til manns.
Sigrún Alba Sigurðardóttir byggir þessa fyrstu skáldsögu sína á ævi ömmu sinnar. Hún skrifar af skilningi og næmni þótt ég hefði viljað sjá hana sviðsetja atburði meira er þetta engu að síður eftirminnileg bók. Hér fléttast saman ill örlög og útsjónarsemi og þrautseigja ungrar konu fæddrar í byrjun síðustu aldar. Það eldar af nýjum degi og glampar af auknu frelsi kvenna til að stjórna sér og hlutskipti sínu eru jafnvel farnir að ná til Íslands. Sóley hefur hæfileika til að hverdagsleg hráefni að veislumat. Það verður vinkonum hennar innblástur að því að stofna matsölu á Seyðisfirði og um tíma nýtur Sóley hamingjunnar. En stórt áfall ríður yfir og þá er ekki um annað að velja en bjarga sér eftir þeim leiðum sem vænlegastar eru hverju sinni.
Hér eru allar mannlegar tilfinningar undir og oft ekki hægt annað en finna til með Sóleyju, vitandi að valkostirnir sem bjóðast eru ekki margir. Hún á aldrei möguleika á að vera fyllilega sjálfstæði eða skapa sér eigið líf. Sigrún Alba hefur verið opin með að aðalpersónu sögunnar, Sóleyju, byggir hún á ömmu sinni og jafnframt að vekja athygli á hlutskipti kvenna sem hingað til hafa ekki verið áberandi á spjöldum sögunnar eða í íslenskum skáldsögu. Það hefur aldrei verið auðvelt að vera einstæð móðir á Íslandi og það alltaf krafist gríðarlegra fórna. Segja má að Sóley hafi verið heppin að því leyti að hún gat með aðstoð annarra haldið börnum sínum hjá sér en hún þurfti til þess að gera margar og sársaukafullar málamiðlanir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.