13.6.2023 | 08:00
Gamlar syndir hafa langan hala
Gamlar syndir hafa langan hala segir máltækið og nú í dag vitum við að ofbeldi hefur margvíslegar langvarandi afleiðingar. Strákar sem meiða eftir Evu Björg Ægisdóttur er sakamálasaga byggð á því þema. Elma er nýkomin úr fæðingarorlofi og Sævar tekin við umönnun Öddu dóttur þeirra í sínu feðraorlofi þegar lík finnst í sumarbústað í Skorradal. Um er að ræða mann um fertugt og hann hefur verið stunginn til bana. Verknaðurinn hefur verið framinn af umtalsverðum ofsa en svo undarlega bregður við að stór gamall blóðblettur finnst einnig undir teppi í bústaðnum. Hörður er enn í sorg eftir lát Gígju, konu sinnar, en stjórnar eigi að síður rannsókninni. Fyrir tilviljun rekst Sævar á gamla dagbók í kassa á nýja heimilinu þeirra og það verður til þess að hann og Elma gera sér ljóst að þetta nýja mál kann að eiga sér rætur aldarfjórðung aftur í tímann. Eva Björg er flottur sakamálahöfundur og kann að flétta flókin vef. Þessi bók er virkilega fín og frábær til að taka með sér í frí.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.