Ást, nánd og tilgangur lífsins

download-1Sally Rooney er án efa meðal athyglisverðastu rithöfunda vorra tíma. Fyrsta bók hennar Conversations With Friends, sem fékk titilinn Okkar á milli á íslensku var bráðfyndin en jafnframt skörp greining á tengslum eða tengslaleysi ungs fólks í dag. Næst fylgdi Normal People eða venjulegt fólk. Ljúfsár og raunsönn ástarsaga og sjónvarpsþættir gerðir eftir henni slógu áhorfsmet beggja vegna Atlantsála. Nýjasta bók hennar, Beautiful World, Where Are You? eða Fagri heimur hvar ert þú? ber öll höfundareinkenni þessa frábæra höfundar sem ótrúlegt en satt er aðeins þrjátíu og tveggja ára.

Bókin fjallar um verðlaunahöfundinn Alice og vinkonu hennar frá í háskóla Eileen. Ástalíf þeirra beggja  er flókið. Eileen er ástfangin af Simon en þorir ekki að gera kröfur til hans um skuldbindingu. Í það minnsta er hann ávallt í vafa um hvað hún vill, hvort í hennar huga séu þau vinir sem eigi í kynlíf af og til eða hvort hún ætlar sér meira. Eileen er blaðamaður og starfar hjá bókmenntatímariti í Dublin en Simon stjórnmálaráðgjafi. Þau búa bæði í Dublin.

downloadAlice býr hins vegar í litlum bæ við ströndina í um það bil þriggja klukkustunda ferðafjarlægð frá höfuðborginni. Hún er þreytt og finnur fyrir kulnun. Hún fékk taugaáfall og lagðist inn á geðsjúkrahús í kjölfar sambandsslita og hefur ekki fengið góða hugmynd í langan tíma. Í raun er hún að gefast upp á að skrifa. Henni finnst það tilgangslaust í heimi þar sem Internetið skiptir öllu máli og skrifin einhvers konar vitsmunalegur leikur þegar fólk ætti að taka alvarlega á loftslagsmálum og annarri hnignun í heiminum. Frægðin hefur einnig komið aftan að henni og það hvernig fólk telur sig vita hver hún er og krafan er að hún sé þakklát fyrir allt sem henni hefur hlotnast. Hún fellur fyrir manni sem hún kynnist á Tinder, Felix er starfsmaður í vöruhúsi.

Líkt og í fyrri bókum Sally Rooney er ástin ekki einföld og þótt tilfinningar séu sannarlega í spilinu hjá þeim öllum er eins og þau nái ekki að skapa hamingju eða hreina gleði í kringum ást sína. Á milli Felix og Alice ríkir gjá, hann virðist tortryggja menntun hennar og vitsmuni. Til að mynda skýtur hann því að henni að hún hafi sjálf skrifað umfjöllunina um sig á Wikipedíu. Hún svarar: „Nei, bara bækurnar.“ Hún býður honum með sér til Rómar í kynningarferð en samband þeirra er brokkgengt í byrjun. Þær vinkonurnar tala hins vegar saman af einlægni og reyna að styðja hvor aðra með tölvupóstum.

downloadHöfundurinn á margt sameiginlegt með Alice í bókinni. Hún er nýorðin þrjátíu og tveggja ára, fædd 20. febrúar 1991. Fagri heimur, hvar ert þú er þriðja bók hennar og fyrstu tvær eru margverðlaunaðar. Hún notar í þessari bók sendibréfaformið til að koma hugsunum og tilfinningum persónanna til skila. Hún er einnig kaldhæðin og skemmtileg en einmanaleiki persónanna, leit þeirra að tengslum og tilgangi með lífi sínu er augljós. Aðeins Simon hefur fundið leið til að fylla upp í tómið. Þetta er áhugaverð bók, vel skrifuð og merkingarrík.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband