Andleysi og undarlegir menn

Bloggleysi mitt að undanförnu hefur ekki stafað af tímskorti heldur miklu fremur andleysi og deyfð. Mér hefur sem sé ekki dottið í hug nokkur hlutur að skrifa um. Ólíkt bloggvinum mínum sem upptendrast af anda og innblæstri þegar þeir lesa fréttir sit ég eftir alveg tóm og hugsa bara með mér: Ja hérna það er margt skrýtið í kýrhausnum. Vissulega er það skoðun sem vert er að deila með öðrum en leiðigjörn þegar hún hefur verið endurtekin nokkrum sinnum yfir daginn. Jæja, þessi færsla er hins vegar til komin vegna manns sem ég mætti á morgungöngunni áðan. Við Freyja vorum að skondrast eftir Kópavogsdalnum (þ.e. tíkin skondraðist, ég dróst á eftir) þegar á móti okkur kemur maður dökkur yfirlitum, líklega frá Austur-Evrópu og brátt barst okkur til eyrna ómur af samtali sem maðurinn átti við sjálfan sig. „Grosní baroddí marsku fer,“ tuldraði maðurinn og svo stóð út úr honum bunum af setningum jafnóskiljanlegum og þessari fyrstu. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að segja nokkurn hlut sérstaklega í ljósi eigin tilhneigingar til að tala við sjálfa mig og þagði því og starði fast fram fyrir mig eins og maður gerir þegar maður þarf að láta sem maður sjái ekki undarlegt fólk. Maðurinn gekk hins vegar hiklaust framhjá mér símalandi og það var fyrst þá sem ég tók eftir að hann var með lítið tæki í eyranu og hefur sennilega verið að tala í það. Mér finnst að það ætti að banna ósýnileg tæki. Setja lög sem kveða á um tæki megi aldrei vera minni en svo að þau séu vel sýnileg úr fjarlægð og ekki til þess fallin að hræða líftóruna úr miðaldra húsfreyjum á morgungöngu í sumarsólinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hehe, má fólk tala í símann?  Ég hefði orðið viti mínu fjær ef umhverfið hefði verið: Dimmt, rigning, haustlitir og hvínandi vindur.  Það verður í semptember þegar þú ferð út með Freyju.  Muhahahahaha

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.7.2007 kl. 11:12

2 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Já, ég kannast vel við þetta andleysi. Góða veðrið þessa dagana hafa kallað á meiri útivist, yndislegra stunda í garðinum mínum, frábærra samverustunda með hundinum mínum á göngu og hlaupum. Bloggið bíður síns tíma, en þetta með símanna finnst mér alltaf jafnfurðulegt. Hvað er fólk að gera með gsm síma í gönguferð í guðs grænni? Í mínum huga er aðalatriðið að skilja hann eftir heima í slíkum ferðum til að geta notið náttúrunnar ótruflað. Sådan er livet i dag!

Sigurlaug B. Gröndal, 3.7.2007 kl. 11:42

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Þú átt hjá mér bók og tæki! You know whattttt!

Guðríður Haraldsdóttir, 3.7.2007 kl. 15:54

4 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Sæl (þjáningar)systir í anda og andleysi.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 3.7.2007 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband