Haustlitir

Hvert sem litið er minnir haustið á sig. Haustlitirnir birtast í gluggum tískuverslana og á laufinu á trjánum. Súldin og rigningin eru líka óhjákvæmilegur fylgifiskur haustsins. Mér finnst þetta dásamlegur tími. Tískan mun fallegri og skemmtilegri en sumartískan. Það er eitthvað svo varanlegt og traust við klassísk sniðin, brúna, gráa og fjólubláa litina. Það er líka fátt skemmtilegra en að tína njóla, beitilyng og óæt ber til að bera inn í húsið og skreyta með. Reyniber, rósaber og sortuber eru tilvalin. Hálfsölnuð grös, lauf og aðrar haustlegar jurtir eru líka frábært skraut. Reyndar hrynur svolítið af þessu en skítt með það. Ég hef að vísu ekki tínt hvönn síðan eldhúsveggurinn lifnaði við hjá mér forðum en allt annað tíni ég enn. Hvannarskrattarnir eru nefnilega hættulegar að því leyti að alls konar skorkvikindi gera sér heimili í stönglunumm þegar líða tekur á sumarið. Ég vissi þetta ekki og tíndi risavönd af glæsilegri ætihvönn í Elliðaárdalnum. Ég hengdi hann til þerris í eldhúsloftið og nokkru síðar leit ég upp úr eldamennskunni og sá hvar heil herdeild svartra bjalla stormaði niður eldhúsvegginn hjá mér í von um að finna vænlegri bústað en deyjandi hvannastóð. Ég æpti upp yfir mig, fleygði hvönninni í ruslið og sótthreinsaði eldhúsið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Talar haustbarnið:) Dýrka haustið með regni, svalara lofti og fallegum litum en sleppi því að hafa dauðan gróður inni hjá mér. Sammála með tískuna nema þessi fjóliblái litur í ár heillar mig ekki. Hér er enn hlýtt en mjög blautt í dag. Mjög gaman að fara út bæjarbúar telja mig örugglega klikkaða með sólgleraugun í regninu.

Aðalheiður Magnúsdóttir, 29.8.2007 kl. 21:53

2 identicon

haustgróðurinn endist lengur inni ef þú spreyjar á hann með hárlakki, drepur líka óæskilega hluti á gróðrinum, ef þú prófar þetta, þá auðvita úti í garði, svo menn og dýr verði ekki veik. eins er hægt að nota glært lakk,sama aðferð

sigurveig eysteins (IP-tala skráð) 29.8.2007 kl. 23:02

3 Smámynd: Svava S. Steinars

Af hverju sagðir þú ekki bara "bugger off" við bjöllurnar ?

Svava S. Steinars, 30.8.2007 kl. 01:29

4 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Já, ég er haustbarn Heiða mín. Fjólublái liturinn er sagður andlegur litur. Kannski er ég loksins að fá einhverja tilfinningu fyrir því andlega en þú enn svona jarðabundin. Takk fyrir ráðleggingarnar Sivva mín. Allt veist þú um svona hluti. Og Svava að sjálfsögðu sagði ég bugger off við bjöllurnar. Þær svöruðu bara að bragði og sögðu beatles búgí vúgí vúgí og þar með var málið útrætt.

Steingerður Steinarsdóttir, 30.8.2007 kl. 10:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband