12.7.2008 | 00:09
Slegist um krásina
Ég hrökk upp við það klukkan tvö í nótt að tíkin hentist undan rúminu mínu og hljóp á eftir Matta. Við tók gelt og gá, hvæs og dynkir svo ég fór niður til að gá hvað væri að gerast. Matti var þá með fugl í kjaftinum og Freyja var ákveðin í að fá bita af krásinni. Kötturinn Matise er þekktur fyrir flest annað en að gefast auðveldlega upp svo hann æddi um hús með bráð sína í kjaftinum og stökk upp á húsgögn. Þaðan hvæsti hann á hundinn sem flaðraði upp um skápa og eldhúsinnréttingar og gelti. Ég kom svo síðustu sussandi og hvíslandi: Nei, Freyja, nei, þegiðu þetta má ekki. Ekkert sérlega áhrifríkt þegar maður um miðja nótt vill ekki auka enn frekar á skarkalann með því að æpa. Að lokum brá ég á það ráð að grípa tíkina og loka hana inni á geymslugangi. Þar ýlfraði hún, krafsaði í dyrnar og kastaði sér á þær meðan ég elti Matti með það í huga að koma bitbeini þessara tveggja út úr húsinu. Hann var auðvitað ekkert frekar á því að láta mig hafa fuglinn en hundinn svo góður klukkutími leið áður en mér tókst að koma fuglinum í tunnuna og dýrunum í ró. Þá tóku við þrif því húsið var allt út í blóðslettum og fiðri. Ég sofnaði ekki fyrr en um sjö í morgun og treysti mér því ekki í vinnuna. Já, það fylgja því ýmsir ókostir að eiga dýr.
Athugasemdir
Nei, á svona stundum hætti ég að öfundast út í fólk sem er svo heppið að geta átt mörg dýr. - Þ.e.a.s. þegar ég les eða heyri eigendur heimilisdýranna segja svona sögur af afrekum þeirra.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 12.7.2008 kl. 00:55
Smart......... ;)
Hrönn Sigurðardóttir, 12.7.2008 kl. 10:18
Æ, æ, æ. Tragíkómískt!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 12.7.2008 kl. 22:03
Katta er ikke snill nok til å kalles Matti.
Heidi Strand, 13.7.2008 kl. 20:51
úff, þetta hefur verið rosalegt ojoj, blóðslettur um allt ojjjjj...eitt sinn slógiust kettir inni í herbergi dóttur minnar ojoj...skítur og þvag og blóð um allt herbergi...ég hef aldrei lent í öðrum eins viðbjóði. Skil vel að þú hafir verið heima eftir þetta!!
alva (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 13:19
Það er sem ég segi; því fylgja ókostir sko...en dýr eru nú samt dásemdarverur.
Heiða Þórðar, 15.7.2008 kl. 02:56
Það er alltaf snilld að lesa það sem þú skrifar Steingerður mín, meira að segja hvernig maður fer í hund og kött!
Anna Laxdal (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 12:47
Hef verið að hugsa málið hvort ég fæ mér hund eða ekki..., og rekst alltaf öðru hvoru á eitthvað sem verður til þess að ég fresti þeirri ákvörðun. Þessi frásögn fór í þann bunkann

Marta B Helgadóttir, 15.7.2008 kl. 21:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.