24.2.2007 | 11:52
Sterastríðið í Neðstutröðinni
Dóttir mín hefur í vetur þjáðst af þurrkexemi í andliti og frostið í janúar jók mjög á þjáningar hennar. Við fengum þær upplýsingar hjá lækni að auðvelt væri að eiga við þetta með tiltölulega mildu sterakremi sem fæst lyfseðilslaust í apótekum. Við keyptum auðvitað umsvifalaust túpu en urðum fremur undrandi þegar í ljós kom að tíkin Freyja sótti stíft í sterana og ef túpan lá einhvers staðar á glámbekk greip hún hana umsvifalaust og nagaði í sundur. Ótótlegar leifar af áltúpunni fundust svo einhvers staðar í íbúðinni og við forsjármenn tíkurinnar urðum að hlaupa í næsta apótek eftir nýrri túpu handa arfareiðri ungri stúlku. Þegar túpunum, sem fóru forgörðum á þennan hátt, fór fjölgandi hófst mikið stríð við að halda tík og túpu sem lengst frá hvor annarri. Túpunni var komið fyrir hátt uppi í hillu inni í herbergi og herberginu harðlokað væri þar enginn íbúi. En allt kom fyrir ekki. Stundum gleymdist að henda túpunni í hæstu hæðir og iðulega var herbergið skilið eftir opið meðan skotist var í sturtu og þá var gula hættan ekki sein á sér að skjótast inn og ná sér í eitthvað að narta í. Hún skreið síðan undir hjónarúm með ránsfenginn og næst þegar sópað var í svefnherberginu birtust tætingslegar túpur, tappar og önnur sönnunargögn. Ég hélt hins vegar að með hækkandi sól og ögn hlýrra veðri færi að draga úr þessari óværu hér á bæ en öðru er nær. Í morgun birtist dóttir mín á þröskuldinum hjá mér og sagði með hyldjúpri ásökun í augunum: Hefur þú fundið einhverjar ónýtar sterakremstúpur nýlega. Ég finn nefnilega ekki sterakremið mitt og ég þarf á því að halda. Nú þori ég ekki að sópa svefnherbergisgólfið. P.S. Fyrir Svövu systur og aðra dýraverndunarsinna. Það er enga breytingu að sjá á tíkinni þrátt fyrir að hafa innbyrt ómælt magn af sterakremi. Hún hefur ekki þykknað, skapstyggð er ekki til í henni og hvergi vottar fyrir aukahárvexti. Rödd hennar hefur heldur ekki breyst.
Athugasemdir
"Hún hefur ekki þykknað, skapstyggð er ekki til í henni og hvergi vottar fyrir aukahárvexti. Rödd hennar hefur heldur ekki breyst. "
En er hundur í´enni?
Heimir Lárusson Fjeldsted, 24.2.2007 kl. 12:01
Hhahahhaha, Freyja hrekkjusvín! Vitlaus í sterakrem, þetta er eitt af því fyndnara sem ég hef heyrt. Gott að hún finnur ekki fyrir einkennum!!!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 24.2.2007 kl. 18:05
Hahahah, ég hef reynslu af sérstakri matarlyst Freyju. Hún hakkaði m.a. í sig tjalddýnuna hennar Hildu einu sinni og breytti dömubindum í frumeiningar sínar. Freyja er örugglega mjög góð í húðinni eftir þessa steranotkun
Svava S. Steinars, 25.2.2007 kl. 19:12
Ég er búin að bíða alla helgina eftir að geta svarað Heimi. Ég get nefnilega ekki skrifað athugasemdir í tölvunni heima. Þetta er makki með Safari vafra og hann neitar að birta athugasemdir við skrif mín hér. Jæja en að svarinu. Freyja er fremur hundsleg en enginn hundur í 'enni svona venju fremur og sennilega verður að flokka það undir hundaheppni miðað við steramagnið sem hún hefur innbyrt.
Steingerður Steinarsdóttir, 26.2.2007 kl. 09:07
ég held að þú ættir að koma henni í vinnu hjá póstinum eða tollinum
sivva
Sigurveig Eysteins (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 00:53
Æ, mikið var gaman að heyra í þér Sivva mín. Að sjálfsögðu ætti ég að reyna að fá vinnu fyrir hundinn hjá tollinum. Að minnsta kosti er öruggt að tíkin finnur næstu sterasendingu.
Steingerður Steinarsdóttir, 28.2.2007 kl. 14:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.