Barist við hvíta dauðann

Brefin_hennar_mommu_72ptEngan grunaði að í gamalli blárri ferðatösku leyndist fjársjóður. Samt var henni ekki hent þótt flutt væri milli húsa, eigandinn Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, vissi að þarna voru skjöl tengd fjölskyldu hans en gaf sér aldrei tíma til að fara í gegnum þetta og skoða nákvæmlega. Eftir að forsetatíð hans lauk afhendir hann persónuleg gögn sín Þjóðskjalasafninu til varðveislu og það er ekki fyrr en ástríðufull leikkona, María Pálsdóttir hefur samband og spyr hann hvort til séu einhverjar heimildir um dvöl móður hans á Kristneshæli að hann fer að kanna málið. Hann fer á Þjóðskjalasafnið og er afhentur fullur kassi af bréfum Svanhildar Hjartar, móður hans, til föður hans meðan hún lá veik heima, dvaldi á Vífilsstöðum og á Kristneshæli til lækninga. Nú eru þau komin út á bók.

Bréfin hennar mömmu er átakanleg en einstaklega heillandi saga konu sem glímdi við vanheilsu nánast alla ævi. Hún er opinská í fallegum bréfum til mannsins síns og sveiflast stöðugt milli vona og vonbrigða. Það er augljóst að samband hennar og Gríms hefur verið ástúðlegt og hún sækir til hans styrk og gleði en líður líka af söknuði og sárindum yfir að geta ekki tekið þátt í hversdagslegu heimilislífi með honum og seinna drengnum þeirra.

Í ljósi þess hversu skæður sjúkdómur berklarnir voru og hversu margar fjölskyldur hann snerti er undarlegt að ekki hafi verið meira skrifað og talað um þennan tíma þegar ótal ungir menn og konur hurfu frá fjölskyldum sínum mánuðum og árum saman í þeirri von að ná að yfirvinna sjúkdóminn. Margir áttu ekki afturkvæmt og margir komu til baka illa leiknir eftir höggningu. Engin lyf voru til og helsta ráðið í raun að styrkja sjúklinginn í þeirri von að líkama hans tækist að yfirvinna meinið. Stundum var blásið lofti inn í lunga til að fá það til að falla saman. Það var gert þegar fólk var komið með berklaholur eða berklaígerð í lungun og stundum dugði þetta til. Einnig reyndu menn að brenna með rafmagni samgróninga vegna berklasýkinga. Höggning var svo síðasta úrræðið og það versta. Þá voru skorin burtu efstu rifbeinin í þeim tilgangi að fá brjóstkassann til að falla saman og loka þannig berklaholunni. Sjúklingurinn bar svo auðvitað varanlegan skaða af þessari aðferð en í sumum tilfellum dugði hún til að yfirvinna berklana.

Bréfin hennar Svanhildar segja sögu konu sem þráir að vera heilbrigð, taka þátt í lífinu en þarf að dvelja fjarri manninum sem hún elskar, barninu sínu, fjölskyldu og vinum. Hún er einmana, kvíðin og leið á þjáningum sem virðast engan enda ætla að taka. Það er í senn fróðlegt og athyglisvert að fá á þennan hátt innsýn inn í tilveru manneskju sem barðist við þennan illvíga sjúkdóm. Á Kristnesi við Eyjafjörð hefur María Pálsdóttir komið upp safni sem segir sögu berklasjúklinga á Íslandi og þar er stofa helguð Svanhildi. Eftir lestur þessarar bókar langar mig að heimsækja Hælið og skoða þær aðstæður sem hún og aðrir í hennar stöðu bjuggu við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband