Gamalmenni á ýmsum stigum

Jæja, þá er ég ári eldri en ég var í fyrradag. Þann 1. október þjóðhátíðardag Kínverja á ég afmæli og varð blíb ára gömul. Sonur minn sendi mér hjartnæma afmæliskveðju í SMS-i, nefnilega: Til hamingju með daginn gamla hræ og dóttirin gaf mér gullfallega eyrnalokka. Annars er þvílíkt afmælisfargan í fjölskyldunni þessa dagana að það hálfa væri nóg. Tengdamamma varð áttræð þann 26. sept. og við fórum með henni út að borða á laugardagskvöldið að því tilefni. Ég átti svo afmæli í gær, tengdadóttir mín í dag og sonur minn á fimmtudaginn. Maður bara tútnar út af öllum þessum afmælismat.

Mamma kom í gærkvöldi til að færa mér afmælisgjöf og sagði mér einstaklega fína sögu af upplifunum gamalmenna í þessu landi og kannski ekki seinna vænna að maður fari að venja sig við því sjálfsagt eru þetta örlög okkar allra. Hún hafði fengið andlitsbað í afmælisgjöf í vor og hugðist nýta sér það núna. Hún mátti sjálf velja snyrtistofuna og hún hringdi og pantaði tíma hjá einhverjum Kínverjum í Hamraborg. Það gekk greiðlega og gamla konan mætti á tilsettum tíma og var þá skipað að klæða sig úr öllu nema nærbuxunum. Henni leist nú ekki á að fara í andlitsbað nánast nakin þannig að hún reyndi með bendingum að gera konunni sem talaði nánast enga íslensku skiljanlegt að hún væri að koma í andlitsbað. En það var sama hvað hún benti og pataði úr skyldi hún og til að lenda ekki í enn verri hremmingum hlýddi mamma. Henni var svo vísað inn í hálfrokkið herbergi þar sem hún sá varla neitt en tókst samt að paufast að einhverjum bekk og koma sér notalega fyrir.

Þá birtist sterklegur Kínverji og skipaði henni með bendingum að snúa sér við, ekki bara á magann heldur átti höfuðið að vera þar sem lappirnar voru. Gamla konan hlýddi hálfskelkuð og kom sér fyrir með andlitið í þar til gerðri holu. Hún reyndi að stynja því upp að hún hefði ætlað að fá andlitsbað en Kínverjinn skildi ekki orð og svarði með einhverjum tjíáng syngjanda sem mamma skildi ekki bofs í. Hún kaus því þann kostinn að gera eins og henni var sagt. Þá upphófst baknudd með miklum tilfæringum og handaskellum. Með reglulegu millibili barði hann hana með handarjarkanum og endaði með að renna fótunum eftir völdum stöðum á líkamanum. Þegar þarna var komið gerði mamma sér ljóst að gersamlega vonlaust væri að reyna að skýra fyrir þessu fólki að hún væri þarna komin í andlitsbað svo hún sætti sig einfaldlega við örlög sín. Henni var svo snúið og hún nudduð, barin og fótum troðin jafnvandlega að framan sem að aftan. Meðferðinni lauk svo á því að konan sem talaði örfá orð í íslensku kom og nuddaði á henni andlitið og setti á hana einhvern ferskan maska með agúrkulykt.

Þetta var ekki alveg andlitsbaðið sem mamma hafði reiknað með en hún er víst svo lipur og fín í skrokknum að hún hefur ákveðið að panta annan tíma. Mórallinn í þessari sögu er sem sagt: Þó þú fáir ekki alveg það sem þú reiknaðir með þarf það ekki að vera slæmt og gamalmenni hafa gott af því að vera barin af og til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Sigurðsson

,,Hey massa svalt", eins og liðið í Laugum segir, ég átti líka afmæli í gær :)

Sigurjón Sigurðsson, 2.10.2007 kl. 09:48

2 Smámynd: Heiða  Þórðar

Til hamingju með afmælið (undarlegt orð finnst þér ekki? af-mælið...mæla af...árunum!? ) ef ég hefði vitað þetta hefði ég sent þér köku! Blóm að ári...;)

Heiða Þórðar, 2.10.2007 kl. 10:46

3 identicon

Til hamingju með daginn í gær Steingerður mín, vonandi naustu hans til fullnustu með nýja eyrnalokka.....þó svo sonurinn segði þig hræ  hehe.

Kveðja að norðan

Alma

Alma Lilja (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 11:02

4 identicon

Já ég grét úr hlátri þegar amma var að lýsa þessu þetta er allveg sjúklega fyndið .D

Eva Halldóra (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 20:20

5 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

 Hún átti afmæli um daginn

Ákvað að blístra lagið fyrir þig, er aldrei hvattur til að endurtaka afmælissönginn ef ég syng hann af einhverjum ástæðum.

Til hamingju.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 3.10.2007 kl. 13:39

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Ji ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta vegna mömmu þinnar...gott að hún er betri Og hvað lærir maður af þessari sögu??

Það er eins gott að vera búin að læra kínversku áður en maður nær ellilífeyrisaldrinum. Ekkert öðruvísi.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 3.10.2007 kl. 22:31

7 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ja, nú hló ég ósviknum, dillandi, gleðihlátri, - takk, Steingerður, þetta er óborganlegt.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 4.10.2007 kl. 21:50

8 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Mamma þín er ótrúlega kúl.    Til hamingju með dagana öll.

Anna Einarsdóttir, 5.10.2007 kl. 10:42

9 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

 þetta var skemmtileg saga. Takk fyrir hana. Skilaðu kveðju til mömmu þinnar, hún er greinilega ótrúlega cool manneskja.

Jóna Á. Gísladóttir, 5.10.2007 kl. 18:22

10 identicon

Til hamingju með afmælið!

Þú verður sífellt fallegri - rétt eins og forsíðurnar á tímaritinu þínu 

Hrund (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 14:51

11 Smámynd: Marta B Helgadóttir

... ahhh hvað er gott að hlæja svona innilega

Marta B Helgadóttir, 7.10.2007 kl. 01:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband