Þrjú horn og draumleysi

Ég gekk á fjallið Þríhyrning um helgina. Fór að vísu ekki alveg upp á topp vegna hvassviðris en skemmti mér konunglega í góðum hópi Kraftgöngufólks. Eftir þessa hressandi göngu í (sumir lentu í sviptivindum og urðu að fleygja sér á bakið til að fjúka ekki út í buskann) fórum við í sumarbústað hjóna í hópnum og borðuðum ótrúlega gott grillkjöt frá Ká-Ess kjötvinnslu. Við hjónin vorum hvorugt í mjög góðu formi, Gummi enn að jafna sig eftir lungnabólguna sem hann fékk í sumar og ég hef mest gengið á jafnsléttu þannig að fjöllin eru erfið í augnablikinu. En ég hefði sannarlega ekki viljað missa af þessu og vonandi verða fleiri ferðir með Kraftgönguhópnum sem fyrst.

Þríhyrningur er reglulega fallegt fjall og þaðan er mjög víðsýnt, enda faldi Flosi á Svínafelli sig þar eftir að hann hafði brennt Njál og fjölskyldu hans inni á Bergþórshvoli. Þaðan gat hann fylgst með mannaferðum og fullvissað sig um að enginn kæmi á eftir þeim til að hefna illvirkisins. Fyrst þegar ég heyrði nafnið hélt ég að það væri til komið vegna þess að fjallið væri í laginu eins og þríhyrningur og það var ekki fyrr en ég sá það frá tilteknu sjónarhorni að ég áttaði mig á að á því eru þrjú horn. Auðvitað þekktu forfeður okkar ekki táknið þríhyrning sem flöt með þremur hornum þannig að sjálfsögðu hefðu þeir aldrei skýrt eitthvað þríhyrningslaga eftir því. Í þeirra huga táknaði þríhyrna eitthvað allt annað. Mig minnir það vera sólartákn eða eitthvað svoleiðis.

Í ferðinni var Njála rifjuð upp og að sjálfsögðu draumur Flosa þegar hann dreymdi að jötuninn kæmi með járnstaf í hendi úr Lómagnúp og kallaði upp nöfn brennumanna. Mér hefur alltaf þótt gaman af draumum og draumráðningum og sú var tíð að mig dreymdi mikið á hverri nóttu og mundi það allt þegar ég vaknaði. Nú man ég hins vegar sjaldnast stundinni lengur það sem mig dreymir og flesta morgna vakna ég og finnst að mig hafi ekki dreymt neitt. Þetta þurfti auðvitað að byrja eftir að ég uppgötvaði ágæta vefsíðu www.draumar.is þar sem hægt er að slá inn ýmsum orðum og fá að vita hvað þau þýða í draumi. (Að vísu fá á íslensku en þess fleiri á ensku). Já, það verður að fara að gera eitthvað í þessu draumleysi. Getur maður borðað eitthvað sérstakt til að ýta undir drauma? Kannski draumsóley?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svava S. Steinars

Prófaðu að vakna og setja á klukkuna á snooze.  Sofnaðu svo aftur milli snooza, þeir draumar sem þú dreymir milli þeirra eru ferskir í hausnum þegar þú ferð á fætur.  Um daginn dreymdi mig í einni snooze pásunni að Angelina Jolie og Brad Pitt væru í heimsókn hjá mömmu.  Hvað ætli það þýði ?

Svava S. Steinars, 9.10.2007 kl. 01:17

2 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Fáðu þér draumarún í Nornabúðinni við Vesturgötu. Þá fer þig að dreyma unaðslega, þ.e.a.s. þú ferð að muna þínu unaðslegu draumaferðir.....

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 11.10.2007 kl. 22:21

3 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

voodoo magick  þessi draumasíða

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 12.10.2007 kl. 20:45

4 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Steingerður ég var úti að borða á fimmtudagskvöldið með 4 öðrum konum á Madonna veitingastaðnum á Rayðarárstíg. Þar var kona að borða sem ég var næstu viss um að væri þú en ég þorði ekki að ganga að henni og spyrja. Varstu þar? 

Marta B Helgadóttir, 13.10.2007 kl. 11:28

5 Smámynd: Heiða  Þórðar

draumar.is

Heiða Þórðar, 13.10.2007 kl. 13:15

6 Smámynd: Heidi Strand

Klukk

Heidi Strand, 13.10.2007 kl. 17:23

7 identicon

Já, Marta mín, ég var þarna með systur minni. Ég tók ekki eftir þér en næst þegar þú sérð mig verð ég óð ef þú heilsar ekki upp á mig.

Steingerður Steinarsdóttir (IP-tala skráð) 13.10.2007 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband