Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Nýtt h-tímarit

Nýjasta tölublað h er komið út. Forsidur

Þjóðkirkjan og snældusnúðurinn

Um daginn las ég bloggfærslu Bjarna Harðar. þar sem hann dáist að hófstilltu trúboði og ráðvendni þjóðkirkjunnar íslensku. Ég nenni svo sem ekki að elta ólar við hitt og þetta sem hefur misfarist hjá þeirri blessuðu kirkju en minni á að þegar prestar geta ekki setið á sátts höfði við sóknarbörn sín eða verða uppvísir af ýmsum brestum hafa þeir verið óþreytandi að minna á að mennirnir séu breiskir en stofnunin standi eftir sem áður óbrotin. Ýmislegt kann að vera til í því en við verðum að horfast í augu við að sífellt vaxandi hluti landsmanna vill ekki tilheyra þessari stofnun og kærir sig lítt um að halda henni gangandi með fjárframlögum. Í lýðræðisþjóðfélagi sem kennir sig við trúfrelsi er einnig beinlínis rangt að trúarstofnun skuli vera ríkisstofnun meðan önnur trúfélög njóta ekki sambærilegra kjara. Hins vegar reka forsvarsmenn kirkjunnar ævinlega upp mikið ramakvein þegar talað er um aðskilnað ríkis og kirkju og segja að verði skilið á milli þurfi menn að gera upp kirkjujarðirnar sem látnar voru ganga til ríkisins gegn því að það borgaði laun presta. Þetta hljómar einhvern veginn alltaf eins og hótun úr munni þeirra en ég skil ekki hvers vegna það þarf að vera vandamál. Jarðir eru metnar til ákveðins verðs og einhvern tíma hlýtur það að vera fullgreitt nema það gildi það sama um kirkjujarðir og snældusnúð kerlingar forðum sem reyndist Kiðhús dýr og þótti honum seint fullborgaður snúðurinn.

Í leit að afþreyingu

Við Svava brugðum okkur út á Suðurnes að skoða Wilson Muuga á annan í páskum. Okkur systrum fannst við alveg dásamlega hallærislegar að láta okkur detta í hug að skoða brotajárn í fjörunni í hífandi roki og rigningu. En þegar við komum suður úr kom bílalest á móti okkur. Það hvarflaði ekki að okkur að þetta fólk væri að koma úr sömu erindagjörðum og við vorum í þannig að við leiddum getum að því að allir væru á leið milli bæjarfélaga í fermingarveislur. „Kannski eru þeir að skoða Wilson Muuga,“ sagði Svava og við hlógum dátt að þessari vitleysu. Við Hvalsnes varð okkur hins vegar ljóst að fyndni Svövu var dauðans alvara því um það bil fjörutíu bílum hafði verið lagt á mjóum veginum og í vegkantinn og heil prósessía af forvitnum gestum var á leið niður í fjöruna til að berja augum dýrindið. Þetta fyrirbæri sem situr fast þarna í fjörunni var greinilega áhugaverðara en halastjarnan sem hér skaust í gegn á vetrarmánuðum og fyrirhafnarinnar virði að arka í vondu veðri niður í fjöru til að berja það augm. Það var ekki laust við að við systur skömmuðumst okkar enn meira fyrir hallærisganginn þegar við áttuðum okkur á því hversu útbreiddur hann var.

Með réttarmeinafræðing á heimilinu

Tíkin Freyja á alltaf sinn eigin bangsa. Með hann druslast hún í kjaftinum fram og aftur um húsið og jafnvel í langa göngutúra. Á stundum er hún góð og blíð við þessi leikföng sín en þess á milli siðar hún þau óþyrmilega. Eins og að líkum lætur endast tuskudýrin mislengi en alltaf endar það með að saumar gefa eftir og innvolsið vellur út. Á laugardaginn var gaf sig svo óvenjulega harðger flóðhestur úr IKEA og síðan hef ég ekki gert annað en að tína upp hvíta hnoðra sem svífa hér um gólfin. Í gærkveldi var ég búin að fá alveg nóg af þessu og hvæsti á hundinn: Viltu gera svo vel að færa þessar krufningar þínar út úr húsinu. Þetta fannst börnunum mínum bráðskemmtilegt og sérstaklega í ljósi þess að móðir þeirra hefur legið í ótal sögum af réttarmeinafræðingum sem leysa flóknustu sakamál með innsæi, gáfum og nákvæmni. Ég tala af reynslu þegar ég fullyrði að það er allt annað að vera með einn slíkan inn á heimilinu en bara að lesa um þá.

Páskakveðjur

Ég og sonur minn sendum hvort öðru þessar páskakveðjur í gærkveldi eftir að hann hafði borðað hjá mér.

Eitt sinn var ungur maður
sem varð rosalega glaður
þegar fékk hann naut
og leysti þraut
sem snerist um bölvað þvaður.

Þetta síðasta vísar auðvitað til krossgátu Morgunblaðsins en við mæðginin erum bæði forfallnir krossgátufíklar.
Svarið sem ég fékk var svona:

Þessi maður var einkar góður
en átti snaróða móður.
Hún með vísum hann hrelldi
og vöngum velti
um fokdýrt svínafóður.

Ég veit ekki hvort svínafóðrið sem verið er að tala um er nautahryggurinn sem ég eldaði handa syninum og kærustu hans.


Stundum er gott að villast

Í dag ákváðum við systur að fara út á Reykjanes að labba. Við ætluðum niður að Kálfastrandarkirkju og ganga þaðan einhverja af nokkrum merktum gönguleiðum sem þar eru í grennd. Einhvern veginn tókst okkur að keyra framhjá afleggjaranum niður að Kálfaströnd og enduðu því á Vatnsleysuströnd nánar tiltekið í Flekkuvík. Þarna var ævintýralegt um að litast. Fjaran er grýtt og hrauntungurnar teygja sig í sjó fram en inn á milli er skeljasandur því ógrynni af skeljum og kuðungum skolar þarna á land. Stórir móbergshnullungar sem sjórinn hefur mótað og sorfið alls konar myndir í eru á víð og dreif um fjöruna. Enginn þeirra nægilega lítill til að hægt sé að flytja hann án hjálpar stórvirkra vinnuvéla. Því miður liggur mér við að segja því við systur vorum fljótar að sjá að listasmíð af þessu tagi væri gaman að eiga í garðinum sínum eða inni í stofu. Þarna eru ótal tóftir sem minna á forna útgerð á þessum slóðum en einnig eyðibýli sem er ákaflega sérstætt. Gamall kofi stendur við hlið yngra og reisulegra húss sem ráðist hefur verið í af miklum metnaði. Það virðist alls ekki gamalt og þakjárnið er mjög fallegt. Við hlið húsins er grunnur og undir því heilmikið pláss sem og á stétt fyrir framan. Allt ber hér vott um stórhug og brotna drauma því aldrei var lokið við þessa metnaðarfullu byggingu. Einhvern veginn finnst manni að þarna hafi átt sér stað mannlegur harmleikur og einhver orðið að lúta í duft og gefast upp. Örlög alltof margra. Á veggnum neðan við húsið eru áhugaverðar myndir sem steyptar hafa verið inn í vegginn, m.a. mannsmyndir og rúnaletur sem við Svava gátum ekki lesið. Veðrið var yndislega gott og við blasti snæviþakið Snæfellsnesið og jökullinn með skýjahettu í toppinn. Sjórinn var sléttur og fallegur og til að byrja með tók á móti okkur hressandi og svöl gola af hafi en síðan datt allt í dúnalogn í bókstaflegri merkingu þess orðs og við vorum hreinlega að kafna úr hita. Hilda og Freyja léku sér í feluleik um hraunið og það var frábært að sjá tíkina stökkva á eftir vinkonu sinni til að leita. Þvílíkur sprettur. Ótal smátjarnir í öllum bollum og klettaskorum voru henni líka ómæld uppspretta ánægju og gleði því hún óð út í og sportaði sig fram og aftur um vatnið. Ég var á hinn bóginn ekki jafnglöð því mér varð hugsað til þess að baðið sem Gummi gaf henni áður en hann fór út á sjó færi þarna fyrir lítið. Við hittum tvær konur sem þarna voru á gangi og þær sögðu okkur að staðurinn væri kenndur við Flekku. Landnámskonu og frænku Ingólfs Arnarsonar en hann hafði komið henni þarna fyrir til að losna við hana úr Brynjudalnum þar sem grösugra var og búsældarlegra. Leiði hennar er að finna einhvers staðar í túnfætinum en konunni hafði ekki tekist að finna það að þessu sinni. Við Svava reyndum ekki að leita því við bjuggumst ekki við að heppnin yrði með okkur fyrst kona sem kunnug er staðháttum fann ekkert. En þetta var mikið og skemmtilegt ævintýri og nú langar mig mest að vita hver stóð fyrir húsbyggingunni sem þarna er og hvers vegna hún var yfirgefin. Mér hefur ekki tekist að hafa upp á neinum upplýsingum þar að lútandi enn. Ef einhver veit eitthvað um Flekkuvík þá væri sannarlega gaman að fá að heyra það.


Tilfinningasemin og aldurinn

Að undanförnu hef ég velt því fyrir mér hvort maður verði tilfinningasamari með aldrinum. Ástæðan fyrir þessum vangaveltum er sú að ég las frétt um það á mbl.is nýlega að ógæfumanni nokkrum hefði verið stungið í steininn fyrir að stela tveimur sláturkeppum. Keppirnir fundust inn á honum. Um leið og ég las þetta duttu mér í hug vísuorð Bólu-Hjálmars um Sólon Íslandus, umkomuleysið féll að síðum. Þetta hefur ekki almennilega farið úr huga mér síðan. Ég velti líka fyrir mér hvort mér liði eins ef manngreyið hefði stolið svínslæri.

Að vefjast tunga um tönn

Ég er að mestu hætt að ergja mig á þeim málvillum og ambögum sem daglega dynja á manni á þessum síðustu og verstu tímum. Stundum velti ég því reyndar fyrir mér hvort stéttskipting sé að verða mörkuð málfari hér á landi líkt og í Bretlandi og víðar. Þegar ég var barn taldist það metnaðarmál að tala og rita sem skýrast og réttast. Í dag segja menn ef þeim er bent á verstu villurnar: „Gerir ekkert til þetta skilst.“ Hugsanlega í sumum hópum. Líklega er það til marks um hversu hrokafull ég er að ég get einhvern veginn ekki tekið fullt mark á þeim sem ekki gera neinn greinarmun á y og i skrifa t.d. fornafnið þeir með y (þeyr), skilja að samsett orð þannig að úr verði tvö orð, skrifa á í banki, hanki og skanki og ótalmargt fleira sem of langt mál væri að telja upp. Í hvert skipti sem ég sé svona texta fer um mig og ég nenni ekki að lesa skilaboð viðkomandi. Ég get hins vegar alveg fyrirgefið kauðalegt orðalag, hik og tafs. Þá er möguleiki að skilja kjarnann frá hisminu að mínu mati. Hitt er bara svo yfirmáta asnalegt að það er óskiljanlegt að nokkur láti það frá sér fara.

Alltaf einhver hængur á

Mikið er það undarlegt að í hvert sinn sem stjórnmálamenn gera eitthvað sem við getum verið ánægð með kemur í ljós að einhver hængur er á málum og því er umsnúið á þann veg að henti yfirvöldum. Þetta kom enn og aftur á daginn eftir kosningarnar í Hafnarfirði. Flestir fögnuðu því að íbúar fengju einhverju ráðið um það hvort álver og virkjanir héldu áfram að hellast yfir okkur eins og rigningin en hvað kom svo í ljós. Álverið getur og mun sennilega stækka hvað sem Hafnfirðingar og aðrir íbúar þessa lands segja. Alveg er þetta dæmigert. Meirihluti Austfirðinga sem er minnihluti landsmanna fékk að ráða því að Kárahnjúkavirkjun var byggð og álver byggt á Reyðarfirði. Mikið var reynt að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðlsu um það mál en fékkst ekki því allir vissu hvernig sú kosning myndi fara. Rök Austfirðinga gegn slíkri atkvæðagreiðslu voru þau að þetta kæmi þeim einum við og að ekki væru þeir skipta sér af því sem við gerðum fyrir sunnan. Þeir steingleymdu þar flugvellinum sem þeir börðuðst gegn að yrði fluttur. Kannski er jafngott að þjóðaratkvæðagreiðsla fékkst ekki. Við hefðum þá kannski komist að því fyrr að vilji meginþorra íbúa þessa lands skiptir engu í ákvarðanatöku stjórnvalda.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband