Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Vegleg verðlaun

Á dögunum villtist ég inn á vef Mjólkursamsölunnar og tók þátt í einhverri getraun þar sem þekkja átti höfund ljóða. Þetta tókst mér svo bráðvel að í gær fékk ég senda tilkynningu um að ég hefði unnið veggspjald með mynd af Jónasi Hallgrímssyni. Ég gladdist ósegjanlega, enda þessi eina mynd sem ég hef séð af Jónasi glæsileg og til að vitna nú í merkan persónu þá myndi svoleiðis skraut sannarlega „tie the room together.“ Af einhverjum ástæðum ætla ég nú samt að láta hjá líða að sækja veggspjaldið góða.

Hnífur og skæri eru ekki barna meðfæri

Á heimili mínu var til tippexpenni sem reyndist mér ávallt hinn ágætasti vinur meðan ég er að ráða vísbendingakrossgátur helgarinnar. Síðastliðinn sunnudag sat ég með sveittan skalla við að lemja saman krossgátu Morgunblaðsins sem ég er by the way alveg viss um að er vitlaus núna. Það er örugglega ekki til orð sem þýðir að bjástra við og byrjar á ás vantar þrjá stafi a vantar tvo stafi a. Nokkrum sinnum þurfti ég að grípa til pennans góða í þeim tilgangi að leiðrétta lítilfjörleg mistök sem mér urðu á. Reyndist pennaskriflið stíflað og þrátt fyrir kreistur, pot með nálum og alls konar fleiri æfingar var ekkert úr honum að fá af hinu indæla hvíta sulli sem gefist hefur vel til að hylja slóð mistaka. Maðurinn minn hélt því fram að penninn væri tómur en því átti ég bágt með að trúa þar sem hann var bústinn um miðjuna og dúaði vel þegar á hann var þrýst. Ég brá mér því fram í eldhús og klippti í sundur pennaskrokkinn og við það sprautaðist tippex um allt eldhúsið mitt. Skærin mín urðu hvítskellótt, eldhúsbekkirnir líka og stálvaskurinn varð eins og golsótt ær. Langt fram eftir nóttu var ég að þrífa tippex úr eldhúsinu og þrátt fyrir öflug og hreinsiefni og pússisvampa tókst ekki með nokkru móti að gera skærin lík skærum. Ég reyndi að sletta asitoni á skærin þar sem lífræn efni gefast vel, að sögn efnafræðingsins sonar míns, til að leysa upp lífræn efni og asitonið má síðan sápuþvo af skærunum. Ég eyddi upp öllum naglalakksuppleysi í húsinu en þótt vaskurinn og eldhúsbekkurinn hafi að mestu fengið fyrra form eru skærin undarlega grámygluleg. Ekki beint lík áhaldi sem maður kýs að beita á matvæli. Af þessum atburði hef ég dregið þann lærdóm að líklega borgi sig að henda stífluðum tippexpennum.


Í rúmið með Bill Bryson

Að undanförnu hef ég verið að lesa Stiklað á stóru um næstum allt eftir Bill Bryson. Bókin sú er af stærri gerðinni og því ekki heiglum hent að druslast með hana í rúmið en ég hef látið mig hafa það fyrst og fremst vegna þess að maðurinn er svo skemmtilegur penni að maður er tilbúinn að leggja ýmislegt á sig. Áður hafði ég lesið Notes from a Small Island og Notes from a Big Country en i þeirri fyrri skrifar Bill um reynslu sína af því að vera Bandaríkjamaður búsettur í Bretlandi og í hinni síðari um hvernig það er að koma aftur heim til USA eftir tuttugu ára búsetu í Evrópu. Báðar eru frábærar. Bill er mikill húmoristi og kann þá list að opna manni nýja sýn á alla hluti. Maður sem getur skrifað um mikla hvell þannig að hann sé bæði fyndinn og spennandi hlýtur að vera góður, ekki satt?

Kjartan og svanurinn

Heidi Strand er með frábæra fuglasögu á blogginu sínu sem ég vil endilega benda ykkur á en er of tæknifötluð til að geta búið til link á hana. Af því tilefni vil ég líka deila með ykkur bestu sögu sem ég hef heyrt af viðskiptum við fiðraða vini vora. Maðurinn minn og vinur hans, sem við skulum kalla Kjartan, voru á leið heim eftir gleðskap en báðir voru milli tektar og tvítugs þegar þetta var. Þeir voru búsettir á Akureyri og áttu leið framhjá andapollinum. Svanahjón höfðu hreiðrað þar um sig og ungarnir nýkomnir úr eggjunum. Kjartan var í góðu skapi og vildi tala við fuglana og lýsa aðdáun á elju þeirra við hreiðurgerð og uppeldi. Hann teygði sig inn fyrir girðinguna og rétti fram handlegg og gúaði eitthvað svona eins og menn gera í átt að ungbörnum. Svanurinn fyrrtist við, enda fullorðinn og ekki fyrir svona væmni og svaraði með reiðigargi og vængjaslætti. Kjartan ákvað því að bregða sér inn fyrir girðinguna svona til að sýna að hann færi með friði og þá skipti engum togum að svanurinn réðst á hann. Pilturinn reyndi að taka á móti og verja sig en átti ekkert í þennan stóra reiða fugl. Skyndilega birtust lögreglumenn sem sáu að við svo búið mátti ekki standa og vippuðu sér því inn í girðinguna, skildu þá félaga og skelltu handjárnum á Kjartan. Hann brást hinn reiðasti við og sagði sár: „Til hvers eruð þið að handtaka mig? Það var hann sem byrjaði.“ Og benti titrandi fingri á svaninn. Sá sat hins vegar hróðugur og horfði yfir óðal sitt sem nú var frítt af öllum óboðnum gestum.


Heimspeki og foreldraábyrgð

Eva, dóttir mín, var mikill heimspekingur þegar hún var barn. Hún var sú eina í minni annars óguðlegu fjölskyldu sem hugsaði um eðli og tilvist guðs. Einn morguninn þegar hún var fjögurra ára stóð ég í eldhúsinu tilbúinn að skenkja henni Cheerio's á disk þegar hún sagði: Ég vil fá hafragraut í morgunmat. Guð borðar hafragraut á morgnana. Hvað hefur þú fyrir þér í því, spurði ég hálfpirruð yfir að þurfa að drösla fram potti og sjóða hafragrjón. Jú, afi segir að hafragrautur sé besti morgunmaturinn og guð veit hvað manni er fyrir bestu, var svarið. Hún hafði farið með leiksskólanum sínum í heimsókn í Hallgrímskirkju skömmu áður og þetta var meðal þess sem presturinn hafði sagt þeim. Hún fékk sinn hafragraut en verra þótti aftur á móti þegar hún fékk að fara í Vindáshlíð með vinkonu sinni. Ég var rétt búin að sækja hana í rútuna og við skruppum í fataverslun hér í bænum (nokkuð dýra). Ég mátaði buxur og peysu sem klæddu mig sérlega vel en bar mig upp við afgreiðslukonuna yfir að þetta væri nú heldur mikil fjárfesting á einu bretti og klykkti út með að segja: En það er rosalega freistandi að kaupa bæði. Maður á að standast freistingar gall þá í dóttur minni og ég stundi: Þetta hefur maður upp úr því að senda börnin sín í kristilegar sumarbúðir.

Páskahérinn og bollurnar

Ég er óforbetranlegur sælkeri og sykurfíkill. Hana, ég viðurkenni þetta bara sisvona. Undanfarnir dagar hafa nefnilega verið martröð. Í öllum búðum vella nú páskaegg úr pappakössum og blasa við í þar til gerðum eggjabökkum. Þetta er hræðilega eggjandi því í þeim sameinast tvær helstu ástríður mínar í lífinu, snjallyrði eða orðskviðir og súkkkulaði. Ég á verulega bágt þessa dagana og á von á að ummálið aukist umtalsvert fram að páskum ef páskahérinn miskunnar sig ekki yfir mig og forðar hluta af þessum litlu freistingum úr augsýn.

Furðuleg hugrenningatengsl

Af einhverjum ástæðum hefur mér verið efst i huga í allan morgun gamli húsgangurinn: Nú er úti veður vott, verður allt að klessu, ekki á hann Grímur gott að gifta sig í þessu. Þetta er kannski ekki alveg við hæfi og væri ábyggilega nær að raula Þorraþræl eftir Fjallaskáldið. Ég þarf alltaf að vera eitthvað svo öfug. Kannski er votviðrið svona mikið í huga mínu því mig dreymdi í nótt að ég væri í baði og vatn flæddi yfir baðkersbrúnina.

Glæpir á glæpi ofan

Þá er Pressan búin og ég á eftir að sakna hennar. Þetta voru prýðisþættir en ég hafði reyndar giskað á hver var morðinginn og hafði rétt fyrir mér. Öðru máli gegnir hins vegar um dönsku þættina Forbrydelsen sem ég er svo spennt yfir að ég ræð mér tæpast. Þar er ég búin að forma fjórar kenningar um hver sé morðinginn og einn minna morðingja er dauður þannig að hann er úr leik. Nú er enn einn í sigt og það á eftir að koma í ljós hvort sá reynist sekur um annað en að vera persóna í þessum þáttum. En mikið skelfing er hann Lars Mikkelsen aðlaðandi maður. Persónulega tel ég hann bera af bróður sínum, Mads, eins og gull af eiri en sennilega eru ýmsir því ósammála. Mads býr auðvitað að því að hafa leikið í Bond-mynd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband