Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Glæsilegt blað

Forsidur_maiMaíblaðið er komið út og ég er mjög ánægð með blaðið.

 


Seinheppni

Ég er ein af þeim sem alltaf velur vitlausa röð í stórmarkaðnum. Að verslunarferð lokinni skanna ég raðirnar við kassana og vel vandlega. Sú röð sem er styst og þar sem fólk er með minnst af vörum í körfunni verður ævinlega fyrir valinu. Það bregst hins vegar sjaldan að konan á undan mér er ekki með eitt einasta hæti í körfunni sinni sem er skannanlegt þannig að afgreiðslustúlkan hleypur milli tíu og fimmtán ferðir til að leita að verðinu. Í þeim tilfellum sem innrauði geislinn nær að lesa vöruverðið skammlaust er alveg öruggt að viðskiptavinurinn á undan mér taki upp á að kvarta og heimta að allar vörurnar séu skannaðar aftur til að tryggja að hann verði ekki snuðaður og gerist ekkert þessu líkt er ég svo stálheppin að lenda á hreyfihamlaðri afgreiðslustúlku með athyglisbrest sem vinnur á snigilhraða. Mér skilst að ég sé ekki ein um að verða mosavaxin í röðinni í stórmarknum en ég veit ekki hversu algengt það er að vera svo óheppin með almenningsklósett að ótti minn við þau stappar nærri fóbíu. Ég held í mér klukkutímunum saman frekar en að fara á klósettið á opinberum stað en þá sjaldan að ég neyðist til gerist alltaf eitthvað ömurlegt. Allir vita hvernig það er að sitja á páfastólnum og hafa nýlokið við að losa sig við það sem þurfti út og uppgötva þá að engan klósettpappír er að finna í þínum bás. Ég hef oft lent því og líka að klósettið reynist stíflað. Það er bókstaflega ekki hægt að lýsa þeirri örvæntingu sem grípur mann þegar nýbúið er að sturta niður á almenningsklósetti og í stað þess að fara niður svífur gromsið upp á móti þér. Eina leiðin sem þá er fær er að hlaupa eins og fætur toga eins langt og úthaldið endist. Það er líka pínlegt að tylla sér á klósett sem þjáist af sírennsli og uppgötva þegar upp er staðið að ekki er nægilegt vatn í vatnskassanum til skola burtu því sem þú skildir eftir. En alversta uppákoma sem ég hef lent í á almenningsklósetti átti sér stað í dag. Ég var búin að halda í mér dágóða stund og því var brýnt að setjast sem fyrst. Ég reif niðrum mig og hlammaði mér á setgagnið og viti menn það rann af stað og afturendinn á mér með. Það vildi mér til happs að klefinn var mjór og stað þess að skella í gólfið skullu fæturnir á mér utan í klefavegginn, innbyggjara næsta klefa til mikillar skelfingar. (Hann stóð snarlega upp, skellti niður og fór.) Ég mjakaði hins vegar setunni til baka og þorði ekki að hreyfa einn einasta vöðva meðan ég lauk við losun þvagblöðrunnar. Ég stóð líka ofurvarlega á fætur og sturtaði niður og forðaðist gersamlega að líta til hliðar til að athuga hvort eitthvað hefði ekki farið rétta boðleið til sjávar.


Ekki alveg í lagi

Ég beit mig í puttann og er alveg að drepast. Nei, ég er ekki að ljúga ég beit þéttingsfast í vísifingur hægri handar hér rétt áðan og bitförin eru velsjáanleg. Ég var sko, nefnilega að tala og ætlaði að strjúka hárið úr augunum en fór svo að hlæja um leið eða þannig og það endaði sem sagt með því að ég beit mig í puttann. Ég held að þarna sé verið að hefja sjálfspíningarhvötina upp í eitthvert æðra veldi. Að minnst kosti er þetta ekki alveg eðlilegt.

Kræsilegar kynningar

Ég eyddi helginni á sýningunni Veiði 2007, ekki vegna þess að ég sé svo mikill veiðimaður heldur af því að ég hef í tíu ár kynnt fyrirlestra á fundi hjá manninum sem skipulagði sýninguna. Hann heldur nokkrar sýningar ár hvert og í fyrsta skipti sem ég tók þátt í þessu hjá honum var ég sannfærð um að hann bæði mig aldrei aftur og að koma nálægt nokkrum hlut sem hann gerði. Þannig var nefnilega mál með vexti að ég hafði tekið eitt útrásarkastið og uppgötvaði daginn áður en sýningin átti að fara fram að ég passaði ekki neitt af frambærilegustu fötunum mínum. Ég reif mig því í Kringluna og keypti mér reglulega fínt pils og bol í Noa Noa. Helvíti fín og bara reglulega ánægð með mig mætti ég galvösk um morguninn og stýrði fyrirlestrum af mikilli röggsemi. Í hádegishlénu fór ég á klósettið og uppgötvaði að pilsið mitt fína var svaðalega gegnsætt. Eftir það var ég hin vandræðalegasta og kynnti fyrirlesarana sitjandi. Þetta virtist ekki hafa mikil áhrif á sýningarhaldarann því að ári hringdi hann í mig aftur og bað mig að koma og kynna fyrirlestra. Þegar ég sagði manninum mínum frá þessu himinglöð spurði hann: „Hvort ætlarðu að vera botnlaus eða topplaus í þetta sinn?“ Stundum er fyllilega réttlætanlegt að beita maka sinn ofbeldi.

En allt gekk sem sagt vel þessa helgi þótt ég væri fullklædd. Reyndar var ég rám sem hrafn því ég hef verið með svæsna hálsbólgu undanfarna daga og gengið fyrir sólhatti, C-vítamíni og lýsi. Þess á milli sýg ég hálstöflur og drekk berjate. Þrátt fyrir allt þetta er röddin eins og í Mae West og sumir myndu kannski kalla þetta sannkallaða svefnherbergisrödd. Ég er þá trú hefðinni þegar ég kynni fyrirlestra.


Með nefið ofan í bókum

Ég játaði það fúslega um daginn að vera orðhákur mikill. Ég er alltaf með einhverjar bækur í takinu og sílesandi blöð og bloggfærslur. Hér áður fyrr þótti það ekki sæmilegt að vera sífellt með nefið ofan í bókum. Málshátturinn: Ekki verður bókvitið í askana látið vitnar um það og sömuleiðis sagan af Gilitrutt. Sú saga var sögð bókhneigðum stúlkum til viðvörunar, svona rétt til að benda þeim á að iðjusemin væri dyggð en bóklestur ekki því eins og menn muna vildi húsfreyja ekki sinna ullarvinnu, matargerð og öðrum heimilisstörfum heldur liggja í bókum allan daginn. Gilitrutt kenndi henni þá lexíu að slíkt borgaði sig ekki með því að vera nærri búin að svipta hana fyrsta barninu sína. Þessi blessuð húsfreyja hefur verið fyrsta kvenréttindakona á Íslandi og það þurfti heila tröllskessu til að kenna henni að þjóðfélagið væri ekki búið undir breytingar. En hvað um það. Að undanförnu hef ég verið að lesa Það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri og þess vegna er jafnréttið mér svona hugleikið. Ég var líka að ljúka við Úlfurinn rauði, Ahab's Wife og Óvinir ríkisins. Í kvöld ætla ég svo að byrja á Síðasta musterisriddaranum og segja Gurrí minni hvernig mér líkaði þegar sú bók verður upplesin.

Já, og fyrst minnst er á lestur fékk ég að heyra hér á blogginu að sonur minn þjáist af svipaðri lesblindu og ég. Hann sá auglýsingu í dagblaði þar sem verið var að bjóða ferðir til Bretlands og piltur las Breiðholt. Honum þótti dýrt drottins orðið að borga rúmar 20.000 fyrir viku í Breiðholtinu en tekið skal fram að þessi ungi maður getur helst ekki hugsað sér að fara nokkru sinni í hærra póstnúmer en 105. Honum hefur því þótt eðlilegra að menn fengju borgað fyrir að dvelja viku í Breiðholtinu.


Vísnabók barnanna minna

Aldrei of illa farið með góð börn

Alltaf þegar börnin mín halda að þau séu laus undan þeirri áþján að þurfa að þola kveðskap móður sinnar sendi ég þeim örlítinn glaðning. Þetta fengu þau í morgun.

Það var strákur í Timbuktú
sem átti aðeins eina kú.
Hann gaf henni gras
og eftir mikið bras
hann tók fyrir hana trú.

Það var stúlka sem átti kött
og elskaði Hróa hött.
Hún borðaði pítu
og hringdi í Rítu
og tilkynnti: Þú ert brött.

Lítið lát er á andagift minni þessa dagana. Þetta fengu börnin mín sent rétt í þessu.

Ef ég ætti að syngja þér söng
vetrar- og vorkvöldin löng.
Ég mundi það róma
að þú ert fegurst blóma
og alveg eins og Gunna stöng.


Ókosturinn við að heita algengu nafni

Nafnarugl og hugmyndadeyfð

Það er ekki tekið út með sældinni að heita algengu nafni. Auður Haralds sagði eitthvað á þá leið í einni bóka sinna að sumir þjáðust alla ævi vegna hugmyndasneyðar foreldra sinna. Ég hef alltaf verið sammála henni og vorkennt þeim sem koma sér upp ótal kynslóðum Jóna Jónssona eða þegar tvö nöfn skiptast á, menn heita þá ýmist Jón Karlson eða Karl Jónsson. Ég veit að þetta háir mörgum fjölskyldum og hefur beinlínis staðið mörgum manninum fyrir þrifum í þroska og geðprýði.

En aftur að algengum nöfnum. Guðmundur minn hefur mátt þola margt gegnum tíðina sökum nafns síns. Frægasta dæmið er örugglega árásarmálið. Hér kemur sagan af því. Við hjónin, þá reyndar sambýlisfólk, brugðum okkur af bæ til að halda upp á tvítugsafmæli hans Guðmundar og fréttum þegar heim kom að lögreglan hefði komið um kvöldið að leita hans. Við vorum mjög hissa á þessu, enda vissum við ekki til þess að Gummi hefði brotið nokkurn hlut af sér. Eftir hálfgerða andvökunótt fór hann niður á lögreglustöð og fékk að vita að hann væri ákærður fyrir að hafa brotið rúðu í hurð á íbúð á Skúlagötu 61. Tilgangur hans með rúðubrotinu var sá að opna sér leið inn til sextugrar konu sem þar bjó. Lögregluskýrslan tiltók ekki í hvaða tilgangi hann vildi komast inn til konunnar en lesendur geta bara beitt ímyndunaraflinu og getið í eyðurnar. Samkvæmt framburði vitna hét þessi kröftugi maður sem réðst inn í stigaganginn þeirra Guðmundur og bjó á Laugavegi 159.

Þetta passaði við Gumma minn en mannlýsingin var fremur ólík honum nefnilega á þessa leið: Fremur lágvaxinn maður, þykkur um miðjuna og hárið heldur farið að þynnast. Þegar þessi saga gerist var Guðmundur spengilegur og kraftalegur ungur maður með allt sitt hár óskert. Málrekstur gegn honum var því látinn niðurfalla eftir viðtal við rannsóknarlögreglumann daginn eftir. Í annað sinn fékk Gummi ástarbréf frá Svíþjóð. Þar skrifaði ung kona að hann hefði reynst henni seingleymdur eftir nokkurra daga unaðsleg kynni og hún teldi sig því þurfa að láta á það reyna hvort ekki væri hægt að endurnýja kynnin. Það vildi Gumma til happs að hann hafði ekki átt leið um Svíþjóð á þeim tíma sem stúlkan tiltók annars hefði hann sennilega ekki kembt hærurnar eftir að konan hans komst í bréfið. Já, svonalöguðu geta jónar, gunnur og gummar alltaf búist við en Steingerðar og Kolgrímur sleppa blessunarlega við skammt af slíkum misskilningi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband