Gott ráð

Í umræðum að undanförnu hefur komið fram að um það bil tuttugu menn hafi grætt óheyrilega á íslensku útrásinni. Við höfum séð myndir af sumarhöllum þeirra víða um land, snekkju með sérhönnuðum innréttingum, þyrlum, þotum og fleiru. Mér var að detta í hug hvort ekki væri ráð að skylda hvern og einn þessara manna til að skila svona 300 milljónum í löndum og lausum aurum. Peningana mætti setja í sjóð og úthluta síðan úr honum til þeirra sem verst eru staddir t.d. til fólks með lítil börn sem er að sligast undan húsnæðislánum, atvinnulausra bankastarfsmanna og annarra sem eiga um sárt að binda.


Frábær Egill Helga.

Mikið var ég ánægð með Egil Helgason í Silfrinu í gær. Hann spurði einmitt þeirra spurninga sem ég vildi fá svör við. Það sló mig hins vegar að þegar Egill spurði Jón Ásgeir hvort hann væri ekki tilbúinn að leggja 100 miljóna íbúð sína í New York, snekkju og þotu inn hjá íslenska ríkinu til að bæta upp eitthvað af þeim fjármunum sem hafa tapast svaraði Jón Ásgeir því til að sagan myndi dæma hann og aðra útrásarvíkinga og leiða í ljós hvort nauðsynlegt hefði verið að yfirtaka Glitni. Ég velti því fyrir mér hvort dómur sögunnar yrði ekki mildari gagnvart Jóni Ásgeiri hvernig sem allt hitt mun metið ef hann skilar verðmætum af fúsum og frjálsum vilja.

Traust og vantraust

Við Magga systir fórum með mömmu á listsýningu í Gerðarsafni í gær. Þar eru nú til sýnis frábærlega fallegir listmunir frá Ekvador og hluti þeirra til sölu. Mitt í hruninu féllum við í þá freistni að kaupa glaðlegar og gullfallegar myndir frá þessu merkilega Suður-Ameríkuríki. Á leið heim til mín aftur sagði mamma: „Heyriði stelpur, við fengum enga kvittun fyrir kaupunum. Verðum við ekki að snúa við og fá eitthvað slíkt?“ „Nei, mamma mín,“ svaraði Magga. „Þetta er stofnun sem við getum treyst. Þetta er ekki banki.“

Arðbær endurvinnsla

Maðurinn minn mætti í vinnuna til mín áðan og bauð mér og samstarfsfélögunum sælgæti upp úr dós. Við spurðum hann hvað þetta væri og svarið var: Endurunninn hlutabréf með lakkrísbragði. Þessi ljósu eru Glitnir en þau dökku Landsbankinn. Ekki ónýtt að eiga svona útsjónarsaman mann í kreppunni. Stofnum bara um þetta fjölskyldufyrirtæki og endurvinnum á fullu í bílskúrnum. Hægt að bæta við ótalbragðtegundum.

Að vera eða ekki vera?

Já, það er og verður alltaf spurningin hvort menn eigi að aðhafast eða ekki og ætli sú spurning sé ekki áleitnari en ella þessa dagana hér á landi. Það er ljóst að fjöldi fólks hefur tapað því fé sem það lagði í hlutabréf í bönkunum. Hugsanlega hrynja fleiri fyrirtæki og sjóðir í kjölfarið og enn fleiri sjá að baki peningum sem þeir vildu ávaxta. Pétur Blöndal ráðleggur fólki að leita ekki að sökudólgum en ég vil gjarnan sjá að þeir sem auðguðust á þessu ævintýri meðan það var og hét sýni samfélagslega ábyrgð í verki og leggi fram eitthvað af milljónunum og milljörðunum sem þeir voru metnir á fyrir örfáum mánuðum. Eitthvað af þessu er bundið í eignum og því er hægt að skila. Hannes Hólmsteinn segir að skilja beri á milli kapítalista og kapítalisma. Mér er það ómögulegt. Kapítalismi er hugmyndafræði sem byggir á því að menn sjái sér hag í að eiga sem mest og vegna þess að finni þeir fyrir ábyrgð og fari vel með eignir sínar. Þetta hefur nefnilega gersamlega afsannast. Þegar menn komast að fullum potti af kjöti mun stór hluti þeirra éta þar til ekkert er eftir og ekki sjá um að geyma neitt til næsta dags. Hugmyndafræði kapítalismans hefur því beðið skipbrot rétt eins og Sovíetríkin sönnuðu að samfélag þar sem allir eiga allt og enginn neitt ganga ekki fyllilega upp heldur. Hugsjónir þær sem þessar samfélagsímyndir byggðu á eru hins vegar fallegar og hugmyndafræðin að mörgu leyti vel útfærð. Ef einhver lexía felst í þessu öllu þá er hún sú að samfélagið verður ávallt að mynda ramma og setja skorður, líka frelsinu til að græða.

Líf í kössum

Við hjónin bíðum eftir að fá afhent hús sem við vorum að kaupa en aðeins er hálfur mánuður í að við flytjum. Við búum því í kössum í augnablikinu og búið að pakka öllu því sem hægt er og koma kössunum fyrir á vörubrettum í bílskúrnum. Alveg er það með ólíkindum furðulegt hvað mig bráðvantar alltaf einhvern hlut um leið og ég er búin að pakka honum niður. Meira að segja dót sem ég hef ekki notað árum saman verður allt í einu alveg ómissandi við eitthvert tækifæri um leið og það er komið í kassa. Þetta er hreinlega ekki einleikið.

Hvar eru frjálshyggjupostularnir nú?

Hrun markaðanna um allan heim hefur fært okkur heim sanninn um að þjóðskipulag byggt á frjálshyggju er ekki það besta. Frjálshyggjupostularnir sem hlökkuðu yfir líki kommúnismans á sínum tíma og fullyrtu að sameignar- og samábyrgðarþjóðskipulag gengi ekki vegna þess að það væri andstætt eðli mannsins eru undarlega þögulir nú. Skipbrot græðginnar er sem sé ekki eins áhugavert og skipbrot mannúðarinnar. Því þrátt fyrir hið meingallaða þjóðskipulag Sovíetríkjanna er mannúð kjarninn í hugsjón kommúnismans og félagshyggjunnar. Ef græðgin er svona eðlislæg manninum ber okkur þá ekki skylda til að hemja hana og leggja í bönd? Alls staðar heyrast raddir sem segja að Glitnismálið sé aðeins byrjunin, bráðum taki dómínókubbarnir að falla hver af öðrum og Kaupþing og Landsbankinn riði til falls. Skattborgarar þessa lands verða látnir borga brúsánn á  einn eða annan hátt. Enginn bankastjóranna sem þáði hundruð milljóna í laun árlega hefur boðist til að borga til baka eitthvað af gróðanum. Miðstéttarfólkið með meðallaunin er ekki ofgott til að taka á sig byrðar að ekki sé talað um hina sem minna hafa. Ríkið hefði aldrei átt að selja bankana og ef meiri félagshyggja og jafnaðarstefna hefði ríkt hér undanfarna áratugi væri ekki svona komið í efnahagslífinu. Það er staðreynd.


Heilsuvernd eða hvað?

Að undanförnu hef ég pirrað mig endalaust yfir íslenska heilbrigðiskerfinu. Meðal þess sem mér finnst með eindæmum ergilegt er að talað er um offitu sem faraldur og heilbrigðisstarfsfólk mætir í fjölmiðla og blæs sig út yfir því hversu miklu hættara þeim offeitu sé við ýmsum sjúkdómum. Heilbrigðiskerfið býður þessu fólki hins vegar engin úrræði til að takast á við vanda sinn önnur en þau að taka megrunarpillur sem eru rándýrar og með ótal aukaverkanir og svo skurðaðgerð. Biðlistar eftir að komast á íslenskum heilsuhælum eru mílulangir og þeir sem þangað fara eru aðframkomnir og fárveikir. Af hverju styður heilbrigðiskerfið ekki við fólk með því að koma því annað umhverfi í hálfan mánuð til þrjár vikur þar sem það getur komið sér upp heilbrigðari lífsvenjum og breytt um lífsstíl? Íslenskir læknar bölsótast yfir því sem Jónína Ben. er að gera í Póllandi en mæla sjálfir með skurðaðgerðum sem breyta varanlega allri starfsemi líkamans og þessar aðgerðir hafa verið gerðar tvítugum manneskjum. Óskiljanlegt eða hvað? Heilbrigðisyfirvöld eru líka tilbúin að dæla lyfjum í fólk í ofurskömmtum og endalaust. Fólk fer á einhver lyf og er sagt að það þurfi að taka þau til æviloka því það sé beinlínis hættulegt að taka þau ekki eftir það. Ég þekki konu sem taldi sig fá bót meina sinna með nálarstungum en Tryggingastofnun var ekki tilbúin að borga slíka meðferð. Konan gat hins vegar fengið lyf við sínum vanda sem hafði þær aukaverkanir að hún varð sljó, utan við sig og m.a. ófær um að keyra. Mér er líka minnistæð Anna Pálína Árnadóttir söngkona sem vildi fá TR til að taka þátt í kostnaði við að tattúera augnabrúnir á sig. Það var ekki við það komandi en hún mátti fá hárkollu sem henni fannst óþægilegt að ganga með. Hárkollan kostaði 70.000 kr. en tattúið 22.000 kr. Hvað er verið að hugsa? Af hverju er ekki fyrst og fremst hugsað um að koma fólki til heilsu sama hvaðan eða af hvaða toga sú meðferð er sem hjálpar? Er það nema von að öryrkjum fjölgi á Íslandi.

Hauströkkrið yfir mér

Ætli það sé ekki eitthvert hauströkkur að setjast að í sál minni. Ég hef verið svo andlaus að undanförnu að mér hefur bókstaflega ekki dottið neitt í hug að skrifa um. Í gær brugðum við hjónin okkur hins vegar í göngu um Heiðmörk til að njóta haustlitanna og þar gaf að líta þvílík ókjör af berjum að ég varla séð annað eins. Berin voru auk þess svo stór og safarík að ég gat ekki stillt mig um að tína og tína og háma í mig í gríð og erg. Gummi og tíkin biðu á meðan ég tók verstu græðgisköstin en undir það síðasta voru þau farin að reka á eftir mér og sýna óþolinmæði gagnvart þessu ótrúlega áti. Það hefði nefnilega mátt halda að ég hafi ekki séð mat í fjölda ára. Hugsanlega eru berin í Heiðmörkinni ónýt eftir nóttina í nótt en mér skilst að víða hafi verið frost og héluð jörð  í morgun.

Slóðin hennar Svövu

Reyni aftur að birta slóðina hennar Svövu. http://slartibartfast.blog.is/blog/slartibartfast/

Prófið þetta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband