Mikilvægi undirfata

Um daginn var ég að taka til í nærfataskúffunni minni. Nauðsynjaverk svona í byrjun nýs árs. Þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar ég var barn fékk ég eitt sinn ráðleggingu sem hefur vafist mjög fyrir mér síðan, enda af heimspekilegum toga. Ég var að leika við nokkuð eldri stelpu sem bjó í sömu blokk og varð fyrir því að hella niður á peysuna mína kakómalti úr flösku. Við skutumst því heim til mín svo ég gæti skipt um föt og þegar ég fór úr sá hún að nærbolurinn minn var rifinn við handholið. Þá kvað hún: „Bolurinn þinn er rifinn. Maður á aldrei að vera í rifnum eða skítugum nærfötum maður veit aldrei hvað getur skeð.“ Ég sagði ekkert en velti þessu alvarlega fyrir mér. Ég bar nefnilega ómælda virðingu fyrir þessari stelpu fyrst og fremst vegna þess að hún hafði gífurlegt sjálfstraust og taldi sig alla jafna hafa rétt fyrir sér. Á þessum árum trúði ég nefnilega að menn hefðu ekki svona bólgið sjálfstraust nema innistæða væri fyrir því en síðan þá hefur reynslan kennt mér að yfirleitt er  hlutfallið milli sjálfsálits og hæfileika öfugt. Þegar ég hafði hugsað um orð hennar litla stund sagði ég: „Af hverju á maður að passa upp á nærfötin?“ „Nú ef þú lendir í slysi eða deyrð eða eitthvað þá viltu ekki vera í ógeðslegum nærfötum.“ „Varla er maður á nærfötunum þegar maður kemur á fund skaparans,“ stundi ég alveg græn og gáttuð. „Nei, en hugsaðu um læknana asninn þinn. Ef þú lendir í slysi eða svoleiðis heldur það sé ekki nóg fyrir þá að koma að slíkum hörmungaratburði þótt þeir þurfi svo ekki að horfa upp á fólk í viðbjóðslegum nærfötum.“ Við þessum rökum átti ég auðvitað ekkert andsvar því að sjálfsögðu er ekki á áfall læknanna bætandi þegar þeir þurfa að sinna dauðsföllum. Ég er svo ekki frá því að fleira af nærfötunum í skúffunni hafi ratað í ruslapokann eftir þessa upprifjun en endilega var ætlunin þegar skúffan var opnuð.

Heilarandi og annað gott

Ég hef ekki bloggað ansi lengi og spyr bara eins og kerlingin forðum: Ætli ég hafi nú loksins lært að þegja? Nei, ég held varla. Hins vegar hrundi tölvan mín og enn er ekki útséð um hvort borgar sig að gera við hana eður ei. Ég hef því lítið getað farið á Netið nema hér í vinnunni og ekki gengur alltaf vel að stela stundum til að skrifa blogg meðan blaðið krefst þess að einhver skrifi það. Ég vil byrja á að óska öllum bloggvinum mínum gleðilegs árs og þakka þeim fyrir allar kveðjurnar sem sannarlega voru kærkomnar. Um daginn var ég svo að rifja upp þann forna sið að skilja eftir heilaranda í rólunni eða sætinu þegar maður stóð upp sem maður tíðkaði mjög hér á árum áður. Ég stóð sem sagt í þeirri meiningu að heilarandi væri einhver hluti heilans sem hefði þá náttúru að  hann gæti stokkið úr höfði manns og litið eftir svo lítilvægum hlutum sem sætinu ef maður þyrfti að skreppa frá. Magga systir hélt að þetta væri heilarönd en það var ekki fyrr en við systur vorum orðnar ansi stórar og fullorðnar að við uppgötvuðum að það var heilagur andi sem beðinn var fyrir sætið en ekki hinn árvökuli heilarandi eða hin síkvika heilarönd. Ég vona hins vegar að heilarandar og heilarendur landsmanna megi virka vel á komandi ári ekki veitir af.


Leiðrétting

Hafa skal það sem sannara reynist. Ég verð að leiðrétta þann misskilning minn að það var ekki jafnréttisþing sem haldið var í Iðnó heldur var þetta málstofa gegn kynbundnu ofbeldi á vegum The European Women's Lobby. Ég hafði heyrt að kvenréttindakonur hyggðust halda eigið þing og ákvað þess vegna þetta væri það. En það breytir ekki því Magga mín fékk viðurkenningu.


Systrakærleikur

Margrét, systir mín, fékk í dag jafnréttisviðkenningu Stígamóta. Samtökin ákváðu að halda sitt eigið jafnréttisþing fyrst stjórnvöld höfðu blásið af það opinbera sem átti að vera og verðlauna þá sem þeim þóttu eiga verðlaun skilið. Stjórnvöld höfðu nefnilega veitt Alcoa á Reyðarfirði jafnréttisviðurkenningu fyrir að ráða svo margar konur en þeim láðist að taka fram í viðurkenningunni að þessar konur eru á lægri launum en karlar í sambærilegum stöðum. Systir mín var vel að viðurkenningunni komin en yfirvöld þessa lands hefðu hins vegar aldrei látið sér detta í hug einu sinni að nikka til hennar. Ástæðan er sú að sitt starf hefur hún unnið að mestu í hljóði innan grasrótarsamtaka kvenna. Vakin og sofin hefur hún varið mannréttindi allra kvenna, íslenskra og erlendra og þær eru ótaldar konurnar sem sótt hafa til hennar ókeypis lögfræðiaðstoð, stuðning og hlýju á erfiðum tímum. Þetta þykir yfirvöldum þessa lands ekki starf sem vert er að viðurkenna. Miklu nær að verðlauna einhverja andlitslausa álrisa. Ég sat því niðri í Iðnó í dag og horfði á hana koma upp og sækja viðurkenningarskjalið og steininn góða sem þær Stígamótakonur afhentu henni og skyndilega tóku tárin að renna. Það er svo alltof sjaldgæft í þessum heimi að sanngirni og réttlæti nái fram að ganga. Með Möggu stóðu fimm aðrar konur sem allar voru jafnmaklegar og hún en því miður man ég ekki nöfn þeirra allra svo ég ætla bara að nefna hana. Í skjali Möggu stóð að hún fengi þetta fyrir óþreytandi starf fyrir samtökin hvort sem væri á sviði lögfræðilegrar ráðgjafar, fjármála eða annars sem þyrfti með. Einnig fyrir að vera ávallt boðin og búin þegar á þyrfti að halda og að lokum fyrir greind og fyndni. Eftir á stóðum við systur á tali við eina Stígamótakonuna og ég vék mér að henni og sagði: Ég skil ekki af hverju þið voruð að verðlauna hana fyrir fyndni. Eruð þið vissar um að það hafi farið á blað hjá réttri konu? Nýverðlaunuð systir mín leit á konuna og sagði með uppgjafartóni í röddinni: Þetta er húmorslaust kvikindi.

Óbjörgulegar björgunaraðgerðir

Ég lofaði sjálfri mér fyrir nokkru að tala ekki um og hugsa ekki um ástandið í samfélaginu en nú er mér nóg boðið. Ríkisstjórnin kynnir björgunarpakka sem miðar að því að létta greiðslubyrði heimilanna en það eina sem hann felur í sér er gálgafrestur þannig að við verðum að gera svo vel að vinna fram í andlátið ef við ætlum að ljúka við húsnæðislánin okkar. Við verðum ellilífeyrisþegar sligaðir af skuldum og vanlíðan. Okkur er einnig boðið að gefast upp, missa húsnæðið í hendur ríkisins og gerast leigjendur hjá hinu opinbera án þess að nokkrar bætur komi fyrir eignamissinn. Fólk sem átti í fasteign sinni nokkrar milljónir sér að baki þeim en fær að leigja sitt eigið húsnæði. Hverslags rökleysa er þetta? Allt vegna þess að tíu litlir bankastrákar fengu að leika sér óáreittir af þeim yfirvöldum sem áttu að hafa auga með þeim. Og það allra besta er svo að Davíð einkavæðingarforkólfur sem seldi þeim bankana segist ekkert hafa gert á hluta neins heldur þvert á móti hafi hann staðið sem klettur í hafinu og reynt að stemma stigu við vitleysunni. Manni verður óglatt.

Glæpamenn og glæpirnir sem þeir fremja

Ég var að lesa bók Erlu Bolladóttur, Erla góða, Erla, og verð að segja að ég er hálfsjokkeruð eftir lesturinn. Hingað til hafði ég haldið að rannsóknarmenn í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hefðu í einlægni talið sig vera að vinna að því að upplýsa málið og rétt eins og íslenskur almenningur trúað því að þessir einstaklingar væru sekir um morð. Ef marka má tilfinningu Erlu gagnvart yfirheyrslunum, og í raun er engin ástæða til að efast um hana, vissu þessir menn fullvel að ekki stóð steinn yfir steini í frásögnum hennar og þversagnir voru svo margar og margvíslegar að allt rakst á hvers annars horn. Henni fannst hún vera að leika í leikriti og að hún og rannsóknarmenn vissu fullvel að um spuna og tilbúning væri að ræða. Þessir menn voru hins vegar ákveðnir í því að leiða málið til lykta á einn veg til þess að tryggja starfsframa sinn og vegferð í kerfinu og það tókst. Þeir hafa allir hafist til æðstu metorða hver á sínu sviði og þótt almenningur viti í dag að rannsókn þessi var meingölluð og aðilar málsins saklausir af þeim sökum sem á þá voru bornar hafa þeir aldrei þurft að svara fyrir verk sín. Líf fjögurra ungra manna og einnar konu var lagt í rúst og fjórir menn sátu saklausir í gæsluvarðhaldi með öllum þeim sársauka sem því fylgir. Nú verðum við að spyrja okkur hverjir séu glæpamennirnir í þessu máli og hvers konar glæpur var framinn fyrir rúmum þrjátíu árum.


Að spila með eða sitja hjá

Að undanförnu hafa þau Sigurður G. Guðjónsson og Agnes Bragadóttir verið reglulegir gestir í Íslandi í dag þar sem þau hafa fengið að kryfja fréttir vikunnar. Sigurður hefur aftur og aftur sagt upp í opið geðið á okkur, íslenskum almenningi, að við höfum spilað með í bruðli og rugli síðustu ára. Að við séum flatskjárfólkið sem gapti upp í útrásarvíkingana og eigi nú timburmennina eftir raftækjafylleríið skilda. Ég verð að mótmæla. Nú veit ég ekki hverja Sigurður G. umgengst dagsdaglega en ég veit að enginn af mínum vinum eða nánustu fjölskyldu horfði aðdáunaraugum á útrásarkóngana. Þvert á móti vorum við reið og hneyksluð yfir ofurlaunu, sóun og rugli í skjóli bankanna. Okkur fannst auðnum sóað í einskisnýtt rugl í stað þess að styrkja stoðir og innviði samfélagsins. Við vorum hins vegar afllaus að stöðva ruglið eða sáum að minnsta kosti engar leiðir til þess eftir að íslenskir kjósendur gáfu atkvæði sitt þeim mönnum sem studdu við þetta og hófu það. Ég var aldrei hreykin af útrás Íslendinga eða útrásarvíkingum. Þvert á móti, ég skammaðist mín soldið fyrir gírugheit þeirra, hroka og stórlæti. Ég kom til Kaupmannahafnar í fyrsta skipti í sumar og naut leiðsagnar systur minnar um borgina. Mér fannst dásamlegt að sjá litlu hafmeyjuna en þegar ég steig inn í Hviids vinstue eftir að hafa heimsótt Magazine du Nord fann ég ekki til neinnar sigurgleði. Hugsunin loksins er þín fullhefnt ástmögur þjóðarinnar var víðsfjarri mér, enda sá ég ekki að íslenskt eignarhald á einhverri verslanamiðstöð væri eitthvað sérstaklega til að hreykja sér af. Ég er ekki meðal flatskjárfólksins. Sjónvarpið mitt er níu ára gamalt og öll önnur rafmagnstæki mun eldri. Kæliskápurinn er yngsta tækið á heimilinu keypt þegar ég flutti vegna þess að sá gamli passaði ekki inn í eldhúsið. Í fyrsta sinn á ég uppþvottavél af því að hún fylgdi í kaupunum á nýju íbúðinni en í þrjátíu ár hef ég vaskað upp handvirkt. Sigurður G. Guðjónsson kannski eiga þú og þínir líkar skilið að sitja með hausverk allar helgar hér eftir en ég og mínir líkar erum að taka út refsingu sem samræmist ekki á glæpnum því það eina sem við erum sek um er að hafa ekki mótmælt bruðlinu, flottræfilshættinum og yfirgangi útrásarvíkinganna nægilega hátt.

Ofurlítill pirringur

Í vor fluttum við hjónin símaþjónustu okkar frá Vodafone til Tals. Ég er mikið að hugsa um að nota búferlaflutningana og flytja símann aftur því ég hef barasta aldrei kynnst öðrum eins klúðrurum og Talsmönnum. Ég bað um að síminn og nettengingin yrðu flutt þann 20. október. Tveimur dögum síðar var heimasíminn kominn og allir glaðir. Netið er hins vegar ekki komið enn og bólar ekki á því. Við hringdum viku síðar og var þá sagt að netið myndi detta inn þá og þegar. Mikil hundakæti greip svo heimilisfólk þegar ég fékk SMS frá Tali fyrir tveimur dögum þar sem tilkynnt var að nú væri Netið komið og ég gæti tengt mig. Við hlupum að tölvunum en ekkert gerðist. Á skjáinn komu leiðinda tilkynningar um að netforritið gæti ekki tengst síðunni sem beðið var um. Enn og aftur var hringt og þá kom í ljós að tengingin var vitlaus. Ég spurði hvort jafnlangan tíma tæki að leiðrétta tenginguna og tekið hafði að tengja hana rangt og fékk þau svör að þetta væri alveg að koma og myndi detta inn þá og þegar. Síðan bætti starfsmaðurinn við: „Það getur alltaf komið fyrir að menn tengi vitlaust.“ Þakka þér fyrir að benda mér á hið augljósa. Mér hefði að sjálfsögðu aldrei dottið það í hug af sjálfsdáðun. En sem sé, tveir dagar liðnir og enn ekkert net. Bloggvinir góðir, ég laumast á bloggið í vinnunni ef dauð stund gefst en þar fyrir utan eru mér allar bjargir bannaðar.


Hamstrar og aðrir

Maðurinn minn er hamstur í eðli sínu. Það kom berlega í ljós í flutningunum þegar ég vildi henda og henda og gefa í Rauða Krossinn en hann hljóp á eftir hverju skriflinu á fætur öðru og dró það miskunnarlaust í búið aftur. Nú eru allar geymslur í nýja húsinu að verða fullar svo út af flóir af hlutum sem hann er viss um að ég muni einhvern tíma þarfnast eða börnin mín þrá heitar en nokkuð annað áður en yfir lýkur. Seint verður víst hægt að fá hamsturinn til að breyta kinnapokunum þannig að smátt og smátt munu sumir af þessum hlutum hverfa á meðan hann er úti á sjó.

Af hórum og mónum

Einn lausapenninn minn sendi mér grein í dag þar sem talað var um hórmóna. Það rann upp fyrir mér nýtt ljós þegar ég las þetta því nú vitum hvers vegna hlutirnir gerast, auðvitað er allt helv. hórmónunum að kenna.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband