Stystu dagarnir, lengstir allra

downloadUndanfarin tíu ár hefur það verið hluti af starfi mínu að lesa og fjalla um nýútkomnar bækur fyrir jólin. Ég viðurkenni fúslega að mörg verkefni mín voru mun meira íþyngjandi að mínu mati. En það er erfitt að hætta svona á hnefanum að lesa og spjalla um bækur svo ég hef haft alla anga úti undanfarið við að útvega mér bækur. Um daginn keypti ég Urtu eftir Gerði Kristnýju og hún liggur núna á náttborðinu mínu. Það er hrein nautn að grípa hana og lesa. Engu orði ofaukið og hvert orð svo sterkt og akkúrat þar sem það á að vera. Er nokkuð fullkomnara en:

Legg ég hönd
á belg
er sem hnöttur iði
í lófa mér.

Ég er hrædd um að þessi hverfi ekki upp í hillu á næstunni eða hafið þið velt fyrir ykkur hvað það er stórkostlega ánægjulegt að vita að svona listaverk eru til? Mér finnst það að minnsta kosti segja mér að enn sé von fyrir mannkynið. Í þessari bók leggur Gerður út frá sögu formóður sinnar, Sigríðar Jónsdóttur, magnaðrar konu. Hún bjó norður á Ströndum var ljósmóðir og átti sjálf nítján börn. Líklega geta flestir ímyndað sér hversu harðsótt glíman við náttúruöflin hefur verið þar og lífsbaráttan almennt. Hungurvofan hékk alltaf úti fyrir dyrum torfbæjanna ekki hvað síst þar sem marga munna þurfti að metta. Líklega væru þetta nægar hindranir fyrir manneskju að takast á við en Sigríður var einfætt og mátti ferðast um stórgrýttar fjörur, snarbrattar brekkur, þýfð tún og engi. Engin meðalkona þarna á ferð.

Kveikjan að ljóðabálknum var hins vegar sú staðreynd að Sigríður var einhverju sinni sögð hafa hjálpað urtu að kæpa. Meðlíðan ljósmóðurinnar kviknar þegar hún gengur fram á dýrið og sér að það er í nauð og bjargar bæði urtu og kópi. Auðvitað vekur þetta upp hugrenningatengsl við þjóðsögur tengda selum, konuna sem átti sjö börn á landi og sjö í sjó, að selurinn hafi mannsaugu því þeir séu hermenn Faraós sem drukknuðu í Rauðahafinu eða endurbornar þær sálir sem hafa fyrirfarið sér í sjó.

Í þessum einstaka ljóðabálki er hins vegar svo mikill kraftur að í hvert sinn sem ég tek bókina upp verður mér hugsað til ákvæðaskálda fortíðar. Ég sé Látra Björgu fyrir mér skálmandi milli bæja, háa til hnésins og kraftalega. Hún og Sigríður eiga það sameiginlegt að láta ekki óblíða náttúru buga sig. Báðar hafa þó áreiðanlega átt sínar viðkvæmu stundir þegar stutt var í örvæntinguna

Vef mig inní
þéttofna eymdina
dökkvoðungur
í dyngju sinni
 
Draugaverkur
í fæti
 
Enginn mig svæfir
 
Stystu dagarnir
lengstir allra.


Þessa heims og annars

download

Á fyrstu árum tuttugustu aldar gekk mikið á í Reykjavík, húsgögn lyftust og skullu niður eða flugu veggja á milli, hlutir voru hrifnir úr höndum manna og kastað til og ungur maður lyftist úr rúmi sínu og sveif um. Velvildarmaður hans kastaði sér á hann til að reyna að koma honum til bjargar en þá lyftust þeir báðir. Margar frásagnir eru varðveittar af Indriða Indriðasyni miðli en utan um hann var stofnað Tilraunafélagið þar sem íslenskir mektarmenn komu saman til að rannsaka þessa ótrúlegu hæfileika. Indriði náði ekki þrítugsaldri en hefur engu að síður orðið þjóðinni ógleymanlegur og nú hefur Hermann Stefánsson skrifað skáldsögu sem hverfist um hann og rannsóknirnar sem gerðar voru á miðilshæfileikum hans. Inni í þetta fléttast svo pólitísk átök þessa tíma, sjálfstæðisbaráttan, stjórnarskrármálið og kvenréttindahreyfingin en hún er þarna að mótast hugmyndafræðilega og byrja að hafa áhrif.

Þetta er stórskemmtileg saga, skrifuð á frumlegan hátt og af mikilli orðgnótt. Hermann er fyndinn og byggir kímnina á úrdrætti eða því sem á ensku kallast understatement. Það er sérstaklega skemmtilegur húmor. Hann gerir sér líka að leik að rifja upp flámælið, stafsetningu gamals tíma og orðfæri. Mikið var gaman að sjá zetuna dansa aftur um síðurnar.

Sagan sjálf kann að virðast létt á yfirborðinu en þarna mætast raunhyggja vísindamannsins og sannfæring trúaðra á handanheima og takast á. Spíristismi á Íslandi var angi af stórri hreyfingu í Evrópu og Norður-Ameríku. Ekki ómerkari menn en Harry Houdini og Sir Arthur Conan Doyle voru áberandi í leitinni að tengingu milli þessa heims og annars. Einar H. Kvaran, Haraldur Níelsson, Björn Þorláksson og fleiri voru hins vegar í fararbroddi hér og eru þeir allir sögupersónur í bók Hermanns. Það eru langafi hans og langamma líka, læknishjónin Jannes og Mekkín, en fyrirmynd þeirra eru Guðmundur Hannesson og Karólína Margrét Sigríður Ísleifsdóttir Breiðfjörð. Þau sem persónur eru einstaklega áhugaverð og skemmtileg. Mekkín er sjálfstæð kona, engin framlenging af manni sínum og hefur gaman af að ganga ofurlítið fram af broddborgurum Reykjavíkur.

Jannes læknir er vísindamaður og lítur á tilraunirnar með að brúa bilið milli lifenda og dauðra sem hindurvitni og Mekkín er sammála honum. Eftir ýmsar uppákomur  fellst læknirinn samt á að rannsaka unga millibilsmanninn Tindra Jónsson. Fetar þar í fótspor Houdinis sem kom upp um marga svikamiðla og ekki rétt að spilla ánægju lesanda af því að komast að hvernig það fer. 

Enn í dag á spíritisminn fylgjendur hér á landi og margir eru sannfærðir um að hægt sé að ná sambandi við framliðna með hjálp miðla eða millibilsmanna. Mér fannst óskaplega gaman að lesa Millibilsmanninn því afi minn var spíritisti og tók þátt í miðilsfundum í Reykjavík á þessum árum. Þegar ég var að alast upp risu oft hárin á handleggjunum á manni við að heyra sögur hans af draugum og svipum framliðins fólks sem birtust hinum og þessum við ólíklegustu aðstæður. Það var oft ekki laust við að maður teldi sig sjá baksvipinn á einhverjum löngu látnum á leið út úr stofunni hans afa þegar sögustund af þessu tagi stóð sem hæst. En það er erfitt að sannfæra efasemdarmenn og álíka örðugt að uppræta trúna úr hugskoti hinna. Viðleitni til að ná sambandi við framliðna er talin af hinu illa í biblíunni og prestar voru lengi mjög á móti spíritismanum. Hann, líkt og álfatrúin, virðist þó kominn til að vera hjá íslensku þjóðinni. Hermann fann í honum auðugan og athyglisverðan efnivið og vann úr því einstaklega flotta skáldsögu.


Einn í miðju úthafi

downloadSíðustu þrjú ár hefur Einar Kárason sótt innblástur í kunna voðaatburði sem setið hafa í þjóðinni. Opið haf byggir á sögu Guðlaugs Friðþórssonar, sjómanns sem synti í land 6 km leið í köldum sjó. Þetta einstaka afrek verður líklega seint endurtekið og hefur vakið aðdáun alla tíð síðan. Það sem ekki hvað síst hefur orðið mönnum undrunarefni er hvernig Guðlaugi tókst að halda ró sinni og skýrri hugsun þær níu klukkustundir sem þrekraun hans stóð yfir í. Ekki nóg með að hann synti í land, hann þurfti að kasta sér út aftur í öldurnar því hann kom ekki að landi á heppilegum stað fyrst og síðan tók við 3 km ganga yfir úfið hraun í frosti og kulda. Og það er einmitt þessi hugarró sem verður Einari að yrkisefni í sögu sinni. Hann lýsir vel hvernig maðurinn, einn í miðju úthafi, lætur hugann reika. Rifjar upp minningar, ímyndar sér viðbrögð fólksins síns, talar við múkkann og fær aukið þor á örvæntingarstundum. Takturinn er hægur meðan á sundinu stendur í samræmi við hvernig tíminn hefur silast áfram á sundinu en í lokin verður bókin spennandi og dramatísk. Einar er frábær höfundur og þessi bók sýnir vel hve flinkur hann er. Hún er falleg og að lestri loknum finnst manni að einmitt svona hljóti þetta að hafa verið. 

 


Brennandi ást

downloadÞetta rauða það er ástin, eftir Rögnu Sigurðardóttur er áhrifamikil  kvennasaga. Ég segi kvennasaga, ekki vegna þess að ég telji að hún eigi ekki erindi við karlmenn eða öll önnur kyn, það á hún sannarlega, en ég held að eingöngu konur geti beinlínis upplifað andlega og líkamlega þann sársauka sem lýst er í bókinni. Þessi togstreita milli þess að eiga möguleika á að láta drauma sína rætast, læra það sem hugur manns stendur til og að gangast undir það hlutverk sem samfélagið ætlar manni. Þungunarrof er aldrei létt ákvörðun, ekki bara þung og erfið hugræn togstreita heldur einnig líkamleg átök því konur finna snemma fyrir breytingum. Þær skynja barnsvonina í vöðvum og taugum.

Elsa, söguhetjan í Þetta rauða, það er ástin, er nýkomin út til Frakklands, komin í læri til virts málara og sér raunverulega möguleika á að geta náð árangri í list sinni. Þá uppgötvar hún að hún er ófrísk og þarf að taka ákvörðun. Í stöðunni er enginn góður kostur og einhverju verður að fórna það er ljóst. Sagan gerist á sjötta eða sjöunda áratug síðustu aldar, þungunarrof er ólöglegt. Þótt viðhorf hafi mikið breyst á þeim áratugum sem liðnir eru síðan þá eru enn dæmi þess að konur séu kallaðar morðingjar kjósi þær að binda enda á þungun. Á þessum árum var viðhorfið mun útbreiddara og lítillar samúðar eða skilnings að vænta.

Ragna skrifar þessa sögu af fádæma næmni og bókin er svo spennandi að ég mæli með að byrja ekki á henni nema menn hafi nægan tíma til að klára. Samt veit lesandinn frá upphafi að þetta mun ekki enda með brúðkaupi og hamingju upp frá því. En ung kona með köllun og hæfileika á ekki að þurfa að standa frammi fyrir vali eins og þarna er lýst.

Það eru svo margvísleg hugrenningatengsl sem þessi bók kallar fram. Mér varð fyrst hugsað til þess að ekki er langt síðan, aðeins rétt öld, að konum var meinað að læra listir. Þær máttu leika sér með vatnsliti en olíulitir og höggmyndalist var ekki á þeirra færi. Elsa er meðal frumkvöðla, örfáar konur stunduðu listnám af alvöru á þessum árum. Hún fann köllun sína ung, fann líkamlega að ástundun listar væri henni lífsnauðsynleg. Þegar hún svo stendur frammi fyrir því að velja milli framtíðardraumanna og barnsins sem hún gekk með vaknaði aftur sorgin yfir stöðu kvenna víða um heim. Þegar ég las Sögu þernunnar eftir Margaret Atwood árið 1986 lokaði ég bókinni að lestri loknum með feginsandvarpi. Þetta gæti aldrei gerst hér á Vesturlöndum. Distópía höfundar væri bara áhugaverður vísindaskáldskapur svona rétt eins og 1984 eftir George Orwell. 

En svo minntist ég valdatökunnar í Íran, á bókstaflega nokkrum klukkustundum, eftir endurkomu Khomeini árið 1979, hurfu konur af götunum. Kvenlæknar af sjúkrahúsum, kvenlögfræðingar af stofum sínum, hárgreiðslukonur lokuðu eða ráku fyrirtæki sín í skjóli eigmanna hið sama átti við um búðareigendur. Allar klæddust þær búrkum og hurfu inn á heimilin. Hið sama gerðist undir stjórn talíbana í Afganistan á tíunda áratug síðustu aldar og er að gerast þar aftur í dag. Nú og svo eru öllum sýnilegar afleiðingar þess að hæstaréttardómnum Roe gegn Wade var snúið í hæstarétti Bandaríkjanna í sumar. Nú þegar hafa nokkur ríki bannað þungunarrof og búist við að fleiri fylgi í kjölfarið. Þess má einnig geta að þrátt fyrir gífurlegar vinsældir sjónvarpsþátta sem eru spunnir upp úr The Handmaids Tale eykst stöðugt staðgöngumæðrun og einhvers konar barnaverksmiðjur starfa í ríkjum eins og Indlandi þar sem konur ganga með börn Vesturlandabúa sem greiða stórfé fyrir en mér er til efs að nema brot af því endi í vasa kvennanna. Það er nefnilega svo auðvelt að gleyma hvernig hlutirnir voru, hvað konur bjuggu við margháttaða og hættulega kúgun. Þess vegna verðum við að halda vöku okkar. Saga Rögnu er frábær skáldsaga en samt svo sönn. Þetta rauða er ástin, svo hlý og notaleg að verma sig við en svo svíðandi heit þegar frelsi einstaklingsins er skert. 


Íslenskar jarðýtur í sókn

downloadVarnarlaus eftir Jónínu Leósdóttir er bráðskemmtileg sakamálasaga þar sem þrjú dularfull mál eru rannsökuð á sama tíma. Adam fer að fá áhyggjur af heilsu föður síns eftir að mamma hans hringir ítrekað og kvartar undan skrýtinni hegðun hans og á sama tíma lætur hann fyrrverandi konu sína draga sig inn í rannsókn á óvenjulega tíðum dauðsföllum á hjúkrunarheimili. Það er þvert á vilja hans og gæti komið honum í erfiða stöðu ef upp kæmist því það sem Soffía fer fram á er á mörkum þess að teljast siðlegt í hans fagi. En lögreglukonan Soffía er ekki vön að sætta sig við neitun og allra síst frá fyrrverandi eiginmanni sínum. En Pandóra, samstarfskona Adams á Sáló, hefur miklar áhyggjur af nágrannakonu sinni. Þar er eitthvað meira en lítið dularfullt í gangi og þegar ungur sonur stúlkunnar á efri hæðinni hverfur getur Pandóra ekki látið þetta kyrrt liggja. Bæði Adam og Soffía koma síðan að þeirri rannsókn líka. Jónína skrifar karakterdrifnar glæpasögur og byggir á áhuga lesandans á persónunum og örlögum þeirra fremur en gríðarlegri spennu.

Hér eru ekki blóðug lík á annarri hverri síðu eða illskeyttir morðingjar í felum bak við hurðir. Kurteis og yfirvegaður millistéttar Breti, íslensk valkyrja og forvitinn sálfræðingur sjá að ekki er allt með felldu og ákveða að gera eitthvað í því. Borgarar með samvisku. Jónína er snillingur í að gera ýtnar íslenskar konur að persónum í bókum og gera þær áhugaverðar. Þær eru nokkrar í þessari bók, djarfar, ákveðnar og fylgnar sér og breskur sálfræðingur hefur ekki roð við þeim, verður einfaldlega að fylgja straumnum en mikið er þetta skemmtilegt og svo auðvitað gaman að brjóta heilann um gáturnar og fá á þeim lausn í lokin.


Afburða vel skrifuð og fræðandi bók

downloadÚtþráin grípur án efa alla eyjabúa einhvern tíma á ævinni. Kannski veldur þau óhjákvæmilegu takmörk sem það setur að vera afmarkaður af hafi á alla vegu fremur en nágrannaríkjum sem auðveldlega má líta til. Hvernig sem því er varið ferðast menn þó á mismunandi máta og uppskera hver á sinn hátt. Sigríður Víðis Jónsdóttir er besta tegund ferðalanga sem hugsast getur. Hún er greind, forvitin, greinandi, umburðarlynd og kærleiksrík Bókin hennar Vegabréf íslenskt ber öllu þessu vitni.

Ég er kominn upp á það

– allra þakka verðast –

að sitja kyrr í sama stað,

og samt að vera' að ferðast.

Þannig orti Jónas Hallgrímsson á sínum tíma og ef fólk kærir sig ekki um að standa upp úr hægindastólnum er bók Sigríðar ekki það næst besta heldur það allra besta. Bókin er afburða vel skrifuð og opnar mönnum sýn á fjarlæg lönd og heimsálfur ekki bara þannig að náttúrufegurðin og byggingar standi þeim ljóslifandi fyrir hugskotsjónum heldur finna þeir lyktina, heyra óminn af röddum fólksins, draga að sér andrúmsloftið og óska þess að þeir geti rétt út hönd og snert manneskjurnar í þeim aðstæðum sem Sigríður lýsir. Rétt fram hjálparhönd og breytt einhverju um þau afdrifaríku mistök sem þarna hafa verið gerð.

Sigríður var sjálfstætt starfandi blaðamaður og skrifaði greinar og sendi heim viðtöl við fólk, einkum frá svæðum í sárum eftir langvarandi átök. Hún er skarpur greinandi og leggur sig ævinlega fram við að heyra frá heimamönnum þeirra viðhorf og lýsingar á eigin aðstæðum. Þetta gefur henni einstæða innsýn inn í þau málefni sem hún fjallar um. Henni er lagið að sjá hlutina frá mannlegum sjónarhóli fremur en að einblína á yfirborðsmyndina. Að mínu mati verður allt skýrara þegar það er gert. Alþjóðastjórnmál og karpið um yfirráð, hvað má og hvað ekki og hvernig gera eigi hlutina verður svo lítilfjörlegt og merkingarlaust í samanburði við stórslösuð börn og varnarlausar konur að berjast við að halda matseldinni gangandi frá degi til dags, þvottinum hreinum og börnunum heilbrigðum.

Það er alltaf ánægjulegt að lesa bækur sem eru jafn vel skrifaðar og Vegabréf íslenskt.  Sigríður hefur afburðgóð tök á íslensku máli og er einstaklega lagið að draga upp skýrar myndir. Fyrri bók hennar, Ríkisfang: Ekkert, Flóttinn frá Írak til Akraness, bar þessi sömu höfundareinkenni en hún var annars eðlis, þar fjallar hún um upplifanir annarra en nú fáum við að kynnast hennar eigin. Hún hefur kosið að heimsækja lönd og staði utan alfaraleiða. Það þarf sérstaka manngerð til að gera slíkt og þá ekki bara að koma þar við heldur einnig að skrásetja og miðla því sem fyrir augu ber. Sigríður er ekki á ferð meðan átökin geysa en lýsir afleiðingum þeirra en einnig fylgifiskum fátæktar og úrræðaleysis sem spillt stjórnvöld skapa þegnum sínum víða um heim. Ef menn þrá að kynnast heiminum og setja sig inn í aðstæður fólks í framandi löndum án þess að standa upp úr sófanum heima er bókin, Vegabréf íslenskt, einstök leið til þess.

 


Hulunni svipt af leyndarmáli hraunsins

downloadDrepsvart hraun Reykjanesskagans geymir enn leyndarmálið um hvar Ísabellu, systur Áróru, hefur verið fyrirkomið. En eftir óvænt símtal frá ókunnugri konu fást nýjar vísbendingar um hvað kom fyrir álfasysturina. Hins vegar koma þær til Áróru á svo undarlegan hátt að erfitt að er trúa fullkomlega á réttmæti þeirra. Þá er gott að muna orð hjartadrottningarinnar í Lísu í Undralandi en hún tók sér ævinlega hálftíma á dag til að trúa á fullkomlega ómögulega hluti og náði stundum að trúa sex slíkum áður en kom að því að snæddur væri morgunverður. Á sama tíma hverfur leigjandi Daníels, Haraldur eða Lafði Gúgúlú, og hennar leita vafasamir menn, ekki glæpamenn, en óprúttnir engu að síður. Daníel reynir að vernda vin sinn og leigjanda en þá kemur í ljós að hann á valdamikla óvini. Hæfileikar Áróru koma svo góðum notum eins og áður. Lilja hefur gott lag á að skapa skemmtilegar og litríkar persónur og flétta spennandi söguþráð. Henni tekst mjög vel upp hér og þetta er fín glæpasaga og afbragðsafþreying. Það er ofboðslega gaman hvað við eigum orðið marga góða glæpasagnahöfunda og Lilja er sannarlega þar meðal þeirra sem fremst standa.

 


Með saknaðarilm í nösunum

downloadSaknaðarilmur er fullkomin titill á bók sem byggir á minningum. Í tilfelli Elísabetar Jökulsdóttur eru það minningar um móður. Mér hefur oft fundist við vanmeta lyktarskynið. Í bókum er brugðið upp myndum og þær lifna fyrir hugskotssjónum lesandans, hann heyrir oft tónlist, finnur mjúkt efni undir höndum eða fótum þegar söguhetjan gengur um en mun sjaldnar finnum við lyktina í híbýlum eða af öðrum persónum. Elísabet leggur hins vegar upp með í sitt minningarferðalag með saknaðarilminn í nösunum. Og við erum örugglega fleiri sem könnumst við það að finna einhverja lykt og þá hellast yfir minningar og tilfinningar af miklum krafti. 

Það er svo mikill sársauki í þessari bók, skerandi ótti barnsins og svíðandi reiði fullorðinnar dóttur sem upplifði að móðirin hefði svikið hana. En einnig skilningur og sátt. Kannski er það rómantísku stefnunni að þakka eða kenna að í hugum okkar hefur móðirin fengið upphafið hlutverk. Hún á að vera fórnfús, umhyggjusemin holdi klædd og sú sem aldrei bregst. „Þú varst líknin, móðir mín og mildin þín studdi mig fyrsta fetið.“ Kvað Örn Arnarson en í kvæði Jónasar um hina grátnu er gengur um hjarn, fórnar móðir lífinu fyrir barn sitt. Fáar konur, ef nokkrar, ná að uppfylla þessa ímynd. Þær eru einfaldlega oft þreyttar, einmana eða illa fyrir kallaðar. Þær geta líka orðið reiðar, brugðist og hastarlega við og gert afdrifarík mistök. Það er öllum áfall að uppgötva að mæður þeirra eru ekki fullkomnar og ekki síður að gera sér grein fyrir að maður getur ekki verið sínum eigin börnum sú móðir sem maður vildi vera. Mæður þurfa líka að taka erfiðar ákvarðanir, vera grimmar, þegar og ef það er barninu fyrir bestu. Sjaldan er hins vegar talað um þessa hlið eða börnum opnuð sýn á tilfinningalíf foreldra sinna. Vissulega óþarfi að leggja allt á börnin en kannski ágætt að þau fái að heyra stundum hvers vegna þau mæta akkúrat þessum viðbrögðum.

Elísabet lýsir einkar hversu miklu það munar að skilja. Þegar sjónarhorn annarra á atburði opnast okkur og við vitum hvað lá að baki er oft auðveldara að fyrirgefa og lækna sárin. Sambönd mæðra og dætra hafa verið ótal mörgum rithöfundum umfjöllunarefni og ýmsir sérfræðingar í sálarlífi mannsins lagt sig fram um að skilja það og skilgreina en á blaðsíðum Saknaðarilms birtist allt sem skiptir máli, ást, togstreita, skilningur, gleði, tenging og sundrung. Móðir og barn eru órjúfanlega tengd en þurfa ekki alltaf að ganga í fullkomnum takti.


Breyskur en ekki alvondur

jpv227168Arnaldur Indriðason er snillingur í að skapa stemningu í sögum. Þótt flestar hans bækur hafi hverfst um glæpi nær hann alltaf að fanga tíðaranda og andrúmsloft sem annað hvort sendir mann aftur til fyrri tíma eða veitir innsýn í einhver blæbrigði nútímans sem maður þekkti ekki áður. Í nýjustu bókin hans Kyrrþey kemst Konráð loks að því hver stakk föður hans í portinu við Sláturfélag Suðurlands en um leið rannsakar hann gamalt morðmál og spillingu innan lögreglunnar. Og hann er ekki alveg saklaus sjálfur. 

Í Þagnarmúr fóru að koma skýrar fram skapgerðarbrestir Konráðs og ákveðin óbilgirni og samviskuleysi. Ég fann þá að mér líkaði alls ekki við þennan mann. Nú fær lesandinn enn skýrari mynd af þessum eðliskostum og áttar sig á að uppeldið hefur sett sitt mark á Konráð og kannski er hann líkari föður sínum en hann vill vera. En sagan er spennandi og frábærlega fléttuð og eins og venjulega eru sýnir Eyglóar og hennar upplifanir einstakt krydd í söguþráðinn.

Í fyrra brá Arnaldur út af vananum og sagði okkur söguna af klukkunni í höll Danakonungs og hvernig íslenskur úrsmiður og andlega kvalinn kóngur ná að tala saman og tengjast. Sú saga var ótrúlega áhugaverð og vel unnin. Sú staðreynd að þarna var sögð sönn saga var svo aðeins til að auka á ánægjuna. 


Meyja, kona, móðir

Mikið lifandis skelfing, ósköp og býsn er hún Benný Sif skemmtilegur höfundur. Gratíana er yndisleg bók. Þarna er ástin í öllum sínum myndum, konur sem hika ekki við að láta drauma sína rætast og líta aldrei um öxl. Konur sem elska af öllu hjarta og geta ekki annað en veitt umhyggju og ástúð. Kraftmiklar, dreymnar, hvatvísar, greindar og fullar baráttuanda eru kvenpersónur þessarar bókar.

Hún er eilíf barátta kvenna. Togstreitan milli skyldunnar og löngunar til að vera sjálfstæð. Umönnunarhlutverkið hefur lengst af dæmst á okkur og við þótt betur til þess fallnar en karlar og eflaust eru einhverjar konur þannig innréttaðar frá náttúrunnar hendi en flestar renna smátt og smátt inn í móðurhlutverkið og læra fórnfýsina og ástúðina sem til þarf. Gratíana getur ekki yfirgefið barn systur sinnar, eins og kemur fram í Hansdætrum. Hún fer með það heim og gefur upp á bátinn menntun sína og þar með framtíðarmöguleika.

Evlalía tekur ástfóstri við dótturdóttur sína en hennar eigin son getur hún ekki elskað. Gratíana hefur líka alltaf staðið í skugga Sellu. En það má Evlalía eiga að hún hrindir Gratíönu út úr hreiðrinu. Neyðir hana upp úr deyfðinni í saltfisknum og skipar henni af stað í leit að nýju lífi og draumum. Lesendur fá svo að fylgja henni eftir við kennslustörf og í vist hjá kaupmannshjónum. 

Allar persónur eru dregnar svo sterkum litum í bókum Bennýjar. Hennar karakterar eru margbrotnir, breytilegir og breyskir og svo ofboðslega áhugaverðir. download

Nú ef það er ekki nóg þá hefur Benný Sif ótrúlegt vald á tungumálinu. Hér gefst færi á að rifja upp gömul og góð orðtök og málshætti og bæta við nýjum og stórskemmtilegum. Hún fléttar líka orð saman á svo frumlegan og fallegan hátt að ég þarf eiginlega að fara í gegnum þessa bók aftur og skrifa þetta allt hjá mér svo ég geti slegið um mig með þessari snilld. Mikið öfunda ég þá sem eiga þá ánægju eftir að lesa Hansdætur og Gratíönu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband