Íslensk kona tekst á við ítalskt sakamál

Gratvidir_72Grátvíðir eftir Fífu Larsen er létt og skemmtileg afþreying. Þetta er góð blanda sakamála- og ástarsögu. Þegar ung kona finnst látin á akri í nágrenni heimilis hinnar íslensku Jóhönnu dregst hún inn í rannsókn málsins því símanúmerið hennar finnst á hinni látnu Jóhanna er ekkja og býr með tengdaföður sínum og syni og gamli maðurinn opnar sig fyrir henni um fjölskylduleyndarmál sem hefur hvílt þungt á honum og gæti tengst konunni. Það er ekki síst fyrir hann sem hún samþykkir að halda í ferðalag með Roberto Farro lögreglumanni í leit að frekari svörum. Fífa er sjálf búsett í Friuli á Norður-Ítalíu og hún blandar inni í frásögnina bæði dökkum og ljósum þáttum í ítalskri menningu og samskiptum. Þetta er kjörin bók að grípa með í bústaðinn eða í flugið.

 


Bók er best vina

DanskvaediOft talar fólk um að góð bók sé eins vinur, hana sé hægt að heimsækja aftur og aftur og líða alltaf jafnvel að loknum lestri. Það er vissulega margt til í þessu en stundum veldur vinurinn reyndar vonbrigðum og er bragðdaufari í seinna skiptið en hann var í það fyrra. Auðvitað segir það meira um lesandann en bókina, hann hefur breyst og horfir öðrum augum á lífið. En margar snilldarbækur hafa verið skrifaðar um vináttu og hvernig hún breytir lífi fólks.

The_Fault_in_Our_StarsLíklega kannast flestir við The Fault in Our Stars. Mjög margir lásu bókina og enn fleiri sáu myndina. John Green tókst að skapa eftirminnilega og áhrifaríka sögu af vináttu tveggja unglinga á nöturlegasta stað sem hugsast getur, krabbameinsdeild á barnaspítala. Þetta er ein af þeim bókum sem taka má upp þegar menn þurfa að skæla svolítið en finna líka hlýjuna streyma um hjartað.

Hvað eru Harry Potter-bækurnar annað en óður til vináttu? Svarið er einfalt ekkert annað. J.K. Rowling færir börnum heim sanninn um að með því að læra að elska vini sína af heilum hug og vera tilbúinn að leggja ýmislegt á sig fyrir þá kemur hamingjan. Hún er ekki fólgin í vinsældum og aðdáun margra heldur miklu frekar tryggð og ást fárra. Harry Potter er töfrabarnið, móðurástin bjargaði honum ungum og vináttan þegar hann eldri og þroskaðri þarf að takast á við höfuðóvininn, Voldemort.

Flugdrekahlaupinn eftir Kahled Hosseini segir sögu af vináttu þvert á stéttir samfélagsins en einnig hvernig ill öfl ná að sundra vinum og eyðileggja það sem fagurt er.

Hungurleikaþríleikurinn eftir Suzanne Collins er ekki bara saga af vináttu og ást heldur einnig frásögn af því hvernig miskunnsemi, góðgirni og traust getur veikt stoðir valdastéttarinnar, já, beinlínis umbylt heilu þjóðfélagi. Fyrir svo utan hversu spennandi og skemmtilegar þessar bækur eru.

HisDarkMaterials1stEditionAnnar þríleikur sem vert er að lesa og njóta hafi menn áhuga á að eignast vini fyrir lífstíð er His Dark Materials, Gyllti áttavitinn og Lúmski hnífurinn og Skuggasjónaukinn hafa allar verið þýddar á íslensku. En þetta eru óviðjafnanlegar bækur um pólitískar flækjur, kúgun og hvernig frelsisþráin og sönn vinátta munu alltaf standa í vegi fyrir illu öflunum. Heimur Lýru í Jórdanarháskóla er öruggur og hlýr að því er hún heldur en undir niðri eru ill öfl að verki. Vinur hennar hverfur og hún leggur upp í hættuför til að bjarga honum.


Að finna taktinn

Sjaid_okkur_dansa_72ptSjáið okkur dansa eftir Leïlu Slimani er framhald bókarinnar, Í landi annarra, en þar kynntumst við Amin og Mathilde, marrakóskum hermanni og franskri konu sem verða ástfangin og giftast. Hún fylgir manni sínum, eins venjan var og er oft enn með konur, til heimalands hans. Þau setjast að á föðurleifð Amins og hefja búskap. Hann er metnaðarfullur og með skýra sýn á hvernig hann hyggst gera smábýli að stórum og velmegandi búgarði.

Sagan hefst árið 1968, Marrokkó er orðið sjálfstætt ríki með eigin kóng Hassan II. Hann virðist hliðhollur bændum, einkum þeim sem vel gengur og Amin hengir upp mynd af honum á skrifstofu sinni. Aisha, dóttir hans er í læknanámi og Selim, sonurinn, að klára stúdentspróf. Amin byggir sundlaug til þess að ganga í augun á dóttur sinni, sýna henni hversu vel honum hefur gengið. En ekkert fer eins og hann væntir og enginn reynist sú persóna sem hann ætlar að hún sé. Leïla byggir á eigin ættarsögu og í þessari miðjubók, sú þriðja og síðasta er væntanleg, má segja að allir taki út þroska, bæði fólk og landið sem er stundum eins og ein af persónunum.

Hér er tekið á stórum málum, viðleitni innflytjandans til að koma sér fyrir, finna hlutverk og passa inn í samfélagið. Tilraunum hins stjórnsama fjölskylduföður til að móta alla í þeirri mynd sem hann hefur skapað þeim í huganum og hans tilburðir í þá átt endurspeglast í valdabrölti kóngsins og báðum mistekst hraplega að koma áformum sínum í framkvæmd. Unga fólkið í fjölskyldunni, Selim og Aisha, reikul og í leit að sjálfi. Þau vita hvorugt hvað þau vilja, hafa látið leiðast fram að þessu en þurfa að taka afstöðu til stórra mála og á endanum ákveða hvað þau vilja. 

Mathilde er óskaplega áhugaverð persóna. Sterk kona, greind og hæfileikarík en þarf að beygja sig undir kúgun samfélagsins sem hún hefur flust til þótt hún geri einnig uppreisn á sinn hátt og nái að skapa sér vettvang. Hjónaband hennar er ekki gott. Eiginmaðurinn heldur stöðugt framhjá og ber litla virðingu fyrir konu sinni. Hún nær heldur ekki fyllilega sambandi við börn sín. Finnst dóttirin komin mun lengra en hún sjálf og sonurinn fjarlægur. Hún veltir fyrir sér hvort hún hafi sóað lífi sínu í umhyggju fyrir fólki sem ekki kann að meta hana.

Aisha og Selim dragast hins vegar hvort á sinn hátt inn í uppreisnaranda hippaáranna, enda Marrokkó um tíma fyrirheitna landið hjá ungu frelsiselskandi fólki frá Vesturlöndum. Selim endar í Essaouira innan um hassreykjandi hipp að neyta hugbreytandi efna. Þetta er frábærlega vel skrifuð bók og þótt hoppað sé frá einum fjölskyldumeðlim til annars og sagan sögð frá þeirra sjónarhóli nær Leïla að draga upp heildstæða og áhugaverða mynd af fjölskyldu og landi í ímyndarkreppu, fólki í leit að sjálfi og tilgangi og stjórnvöldum sem vita ekki hvernig á að ríkja, ráða og byggja upp þjóðfélag. Það verður spennandi að sjá hvernig sagan endar þegar þriðja bókin kemur.


Bók sem breytir viðhorfum og skilningi

downloadLíkaminn geymir allt, er stórmerkileg bók um hvernig áföll breyta lífeðlisfræði líkamans og þótt flestir jafni sig eftir að hafa upplifað eitthvað slæmt, geta síendurtekin og alvarleg áföll orðið til þess að fólk þróar með sér áfallastreituröskun en það ástand er ekki síður líkamlegt en andlegt og heftir fólk á margvíslegan máta. Segja má að í byrjun bókar fari Bessel van der Kolk á handahlaupum gegnum sögu geðlæknisfræðinnar allt frá Freud til vísindarannsókna vorra daga. Hann tengir allar uppgötvanir vísindamanna á starfsemi heilans og hlutverki taugaboðefna við sögur fólks sem glímir við andlegar áskoranir og útskýrir hvers vegna sumum gengur verr en öðrum að lifa lífinu, höndla hamingju, mynda tengsl og skapa sér tilgang. Vanlíðan rekur marga út í vímuefnavanda, ofneyslu matar, áhættusækni eða skapar hvatvísi og dómgreindarleysi. Hingað til höfum við álasað mörgu þessu fólki fyrir skort á sjálfsstjórn, sjálfsbjargarviðleitni, góðmennsku og dugnaði en allt bendir til að flókið samspil heilastöðva og hormóna geri það einfaldlega að verkum að fólk með áfallastreitu hafi ekki aðgang að þeim úrræðum skynseminnar sem þarf til að breyta lífi sínu á uppbyggilegan máta vegna boðefnabrenglunar í líkamanum.

Það er hrein upplifun að lesa þessa bók. Erfitt en óskaplega fróðlegt og lesandanum opnast alveg ný sýn á svo ótal mörg vandamál mannlegrar tilveru og á viðbrögð sjálfs sín í ýmsum aðstæðum. Bessel útskýrir mjög vel og á mannamáli hvað gerist í líkamanum við áföll og þegar áfallastreituröskun hefur myndast. Hann segir einnig frá umdeildum rannsóknum og meðferðaraðferðum. Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir og Arnþór Jónsson eiga miklar þakkir skildar fyrir að ráðast í að þýða þetta áhugaverða verk. 


Rithöfundar færa fórnir

8901496d-5c45-976e-5330-4ece0f291560Mikla athygli vakti i nýlegum sjónvapsþætti Auðar Jónsdóttur um nöfnu sína Haraldsdóttur rithöfund lýsing hennar og Magneu J. Matthíasdóttur af þeim ofsóknum sem þær sættu vegna bóka sinna. Í báðum tilfellum hafði þetta mikil áhrif á að þær hættu að gefa út skrif sín sem er mikill skaði. Til allrar lukku hafa báðar stigið fram aftur og gefið út bækur á þessu ári en þetta leiddi hugann að því að rithöfundar færa fórnir.

Í fyrra bárust til að mynda fréttir af því að vopnaður maður hafi ruðst upp á svið í the Chautauqua Institution í New York og stungið rithöfundinn Salman Rushdie fóru eins og eldur í sinu um heimsbyggðina. Til allrar lukku virðist hann ætla að lifa þessa fólskulegu árás af en í ellefu ár neyddist Salman til að lifa í felum eftir útkoma bókarinnar Söngvar Satans.

Salman er er langt frá því að vera eini rithöfundurinn í gegnum söguna sem þurft hefur að óttast um líf sitt og þeir eru margir á flótta undan öfgaöflum í heimalöndum sínum eða hatursmönnum sem líkar ekki við skrif þeirra. Nefna má Lydiu Cacho Ribeiro frá Mexico en hún býr við ofsóknir og hótanir og hefur gert árum saman. Hið sama má segja Shakthiku Sathkumara frá Sri Lanka, Stellu Nyanzi frá Úganda, Nedim Turfent frá Tyrklandi og Galal El-Behairy, frá Egyptalandi. Sumt þetta fólk var fangelsað og sat inni árum saman án þess að mál þeirra fengju meðferð fyrir dómstólum. Allt vegna þess að þetta hugrakka fólk ákvað að verja tjáningarfrelsið og segja frá óréttlæti á skáldlegan hátt.

Ayaan Hirsi Ali var beinlínis í lífshættu í Hollandi eftir gerð var kvikmynd eftir bók hennar Frjáls og leikstjóri myndarinnar, Theo van Gogh, var myrtur. Það þekkist einnig að útskúfa rithöfundum sem ekki þykja nægilega sammála yfirvöldum í heimalandi sínu og oft eru þeir gerðir útlægir. Nasistar brenndu óæskilegar bækur á báli og stjórnvöld víða kjósa að banna tilteknar bækur og höfunda. Slík ritskoðun þekkist líka á vesturlöndum og víða í Bandaríkjunum neita bókasöfn að hafa ákveðnar bækur í hillum sínum, ein slíkra er The Catcher in the Rye eftir J.D. Salinger. Hér á landi hefur lítið farið fyrir því að banna bækur en ýmsar barnabækur hafa verið endurskoðaððar og látnar hverfa og taldar börn síns tíma. Það verður auðvitað alltaf umdeilt en hver veit nema útþynntar bækur Roalds Dahl verði einhvern tíma gefnar út hér. 

Tharsemmalbikidendar_72ptAuður og Magnea eru hins vegar jafnflottir höfundar nú og þær voru á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og vonandi koma fleiri bækur frá þeim nú þegar ísinn hefur verið brotinn og andinn í samfélaginu annar. 

 


Baráttan gegn ólæsi

download-1Ísland hafði lengi mikla sérstöðu hvað varðar almennt læsi. Fræðsluskyldu var komið á hér strax á átjándu öld og foreldrar kenndu börnum sínum að lesa. Það var metnaðarmál að þau væru læs og skrifandi þegar sóknarprestur kom í vitjun og prófaði þau. Bækur voru lykill að þekkingu og víða á fátækum heimilum voru til bækur þótt vart væri þar málungi matar. Öll börn þurftu svo að læra kverið svokallaða fyrir fermingu og máttu eiga von á að vera spurð út efni hennar. Kverið var bók Marteins Lúthers, Fræðin minni, hennar bókar var fremur tyrfið og ekki víst að öll börn hafi skilið innihaldið þótt þau kynnu orðin, enda lærðu þau textann utanað og gátu svarað vélrænt. Þetta virðist að sumu leyti vera staðan hjá mörgu ungu fólki í dag. Það les hægt og skilur lítið af textanum. Gamlir málshættir og orðtök eru orðin íslenskum börnum gersamlega óskiljanleg jafnvel þótt orðin séu einföld og ljós. Lesskilningur íslenskra barna minnkar.

downloadÞótt tæknin hafi opnað margar nýjar leiðir til að afla sér þekkingar og engin ástæða lengur til að læra utanað nokkra bók er lestur engu að síður lykllinn að ansi mörgu í þessu lífi. Tl að þekkja rétt sinn í samfélagi, geta varast svik, fundið rétta leið að næsta áfangastað og áttað sig á hvaða vöru er verið að kaupa í næstu matvöruverslun. Það sorgleg staðreynd að talið er að ein af hverjum fimm manneskjum hér á jörð séu ólæsar. Víða stafar þetta af fátækt og því að börn hafa ekki aðgang að menntun. Á Vesturlöndum fer ólæsi hins vegar vaxandi víða þrátt fyrir að þar standi skólar börnum opnir og allir hafi tækifæri til að afla sér menntunar ef þeir óska þess. Ein ástæða þessa kann að vera að ekki sé lögð næg rækt við að bregðast við sértækum námsörðugleikum eða sinna börnum sem þurfa af einhverjum ástæðum meiri stuðning en önnur. Áhugahvöt til að læra lestur og lesa virðist einnig á undanhaldi í ákveðnum hópum og ekki gengið nægilega vel að endurvekja hana. Víða eru starfandi samtök sem berjast gegn ólæsi og bjóða fullorðnu fólki aðstoð til að bæta lestrarkunnáttuna. Kannski er þörf á slíku hér á landi og ef svo er finnst mér það sorgleg staðreynd hjá bókaþjóðinni miklu. 


Molar um bækur

i-leit-ad-glotudum-tima-leidin-til-swannLengsta skáldsaga sem skrifuð hefur veirð er À la recherche du temps perdu eftir Marcel Proust eða Í leit að glötuðum tíma, eins titillinn varð á íslensku í þýðingu Péturs Gunnarssonar. Sagan var fyrst gefin út árið 1912 og er talið að hún sé um það bil 1,267,069 orð og 4.215 síður en þessar tölur rokka örlítið eftir útgáfum. Hún var fyrst gefin út í 13 bindum en nú var í tveimur þegar hún kom út á íslensku. Ef menn vilja ráðast í það þrekvirki að lesa hana má búa sig undir að verja í það 70 klukkustundum ef menn lesa að meðaltali 300 orð á mínútu. 

Duglegur lesandi

Mjög misjafnt er hversu hraðlæst fólk er og einnig hversu duglegt það er að lesa. Theadore Roosevelt var án efa einn vellesnasti maður sögunnar en hann las að meðaltali þrjár bækur á dag. Eina fyrir morgunmat og tvær til þrjár á kvöldin eftir því hvort forsetaskyldurnar kölluðu hann til verka eður ei.


Bókin dæmd eftir kápunni

 

hearthunter

hearthunter
Þótt allir viti að ekki eigi að dæma bók eftir kápunni hefur hún samt ansi margt að segja og er fyrsta skrefið að því að vekja áhuga fólks á að lesa innihaldið. Mikil er því ábyrgð kápuhönnuða en ég rakst á þessar einstöku kápur og velti fyrir mér hvort þessum klassísku skáldsögum sé þarna rétt lýst. Það er einnig spurning hvort þessar myndir laði að sér þann lesendahóp sem alla jafna kann að meta verk af þessu tagi.

22a3c695e59f8d92382a1c757fd085bd32360158-lf-660x1024

 


Það þarf þorp til að ala upp barn

9789979224129Endurminningabækur eða skáldævisögur er bókmenntagrein sem nýtur mikilla vinsælda. Þá stíga fram á ritvöllinn einstaklingar og lýsa áföllum, sorgum og sigrum lífs síns. Margir vilja setja fyrirvara við slíkar bækur og benda á verði að aðeins sé um að ræða sjónarhorn eins aðila og að minningar geti skolast til sérstaklega þegar hugsað er aftur til bernskunnar. Það þýðir ekki að sannleikurinn sé ekki sagður í slíkri bók og þær eigi ekki erindi. Einkum eru slíkar sögur gagnlegar til að samfélagið nái að líta sér nær og leita leiða til að gera betur.

Fyrrum varaforseti Bandaríkjanna Hubert Humphrey sagði eitt sinn í ræðu í bandaríska þinginu: „Siðferðilegur prófsteinn ríkisstjórnar er hvernig hún kemur fram við þá sem eru í dögun lífs síns, börnin; þá í ljósskiptum ævinnar, hina eldri; þá sem eru í skugga lífsins, hina veiku, hina þurfandi og hina fötluðu.“ Mjög oft hafa þessi orð hans skolast til og í stað ríkisstjórna talað um þjóðir. Í raun er ágætt að heimfæra þau upp á þjóðir því í öllum skilningi ætti þetta að vera sú mælistika sem notuð er á mannleg Manneskjusaga-scaledamfélög.

Alveg er óhætt að flokka bókina, Myndin af pabba, í hóp skáldævisagna en þar skráir Gerður Kristný sögu Thelmu Ásdísardóttur. Bókin vakti gríðarlega athygli þegar hún kom út og breytti algerlega umræðunni um kynferðisafbrot gegn börnum og opnaði augu manna fyrir því hvernig litið var framhjá því og látið hjá líða að koma börnum sem þjáðust til hjálpar. Fyrir skömmu kom svo út bókin, Barnið í garðinum eftir Sævar Þór Jónsson og það er áhrifamikil og eftirtektarverð bók. Sævar Þór, eins og Thelma, tilheyrir í æsku nokkrum þeirra hópa sem Hubert Humpfrey vísar til. Hann er barn, það er brotið gróflega á honum og það áfall veldur honum andlegum skaða, fjölskyldan glímir við fátækt og sjúkdóma og hann þarf á aðstoð við nám að halda. Hann mætir litlum skilningi í skóla eða frá sínu nánasta umhverfi. Foreldrar hans glíma við eigin vanda og hann er langyngstur af sínum systkinum. Kannski hefur það eitthvað með það að gera hversu afskiptur hann er og lítt sinnt um tilfinningalegar þarfir hans

BarnidIGardinum_72Sinnuleysi foreldra um líðan barna sinna og vanhæfni til að styðja þau út úr ýmsum vanda er viðvarandi vandamál. Elísabet Jökulsdóttir lýsir mjög vel sambandi sínu og móður sinnar í bæði Aprílsólarkulda og Saknaðarilmi. Engin vafi er á að þar er ástúð og velvilji til staðar en þær ná samt ekki að mætast fullkomlega. Ekki er langt síðan bækurnar Manneskjusaga og Auðna sem báðar segja áhrifamiklar sögur af fjölskylduleyndarmálum og þeirri tilhneigingu að takast á við ofbeldi þegar það kemur upp með þögn. Í fyrra komu svo út bækurnar Elspa og Álfadalur semm klárlega er hægt að fella undir þessa tegund bókmennta. Margar aðrar mætti nefna, m.a. bækur Þórbergs Þórðarsonar, Sigurðar A. Magnússonar, Jóns Gnarr og Mikaels Torfasonar. Þótt þessar bækur séu mjög ólíkar fela þær í sér áfellisdóm yfir afskiptalitlu samfélagi og eru oft átakanlegar. Í flestum tilfellum eru þetta þó sigursögur og vitna um hvernig menn geta yfirstigið áföll og fundið sér farveg í lífinu þrátt fyrir erfiðleika.


Bókasöfn heimsins

 

Stærsta bókasafn í heimi er breska þjóðarbókasafnið, British Library. Þar er að finna170-200 milljónir titla. Næststærst er bandaríska þingbókasafnið, Library of Congress en titlar þar eru 170 milljónir. Talsverður munur er milli safnsins í öðru sæti og þess í því þriðja en í Shanghai Library er að finna 56 milljónir titila. Talað er um titla í þessu sambandi vegna þess að stundum eru til fleiri en eitt eintak af hverri bók en þau eru ekki öll talin heldur gildir bókarheitið eða titillinn bara einu sinni. hl_library_roger-harris2022

Í Varsjá er að finna mesta fjölda bókasafna per mann í heiminum. Það eru 11, 5 bóksöfn á hverja 100.000 íbúa. Pólverjar eru greinilega bókaunnendur. En fast á eftir fylgja Seoul og Brussel en þar eru 11 bókasöfn á hverja 100.000 íbúa. Tokýó á hins vegar metið þegar kemur að útlánum en þar voru 111,9 milljónir bóka teknar að láni síðastliðið ár.

Hæsta sekt fyrir að skila ekki bók fékk Emily Cannellos-Simms þegar hún skilaði bókinni Days and Deeds árið 2002. Upphæðin nam 345,14 dollurum en Emily fann bókina heima hjá móður sinni 47 árum eftir að hún var tekin að láni eða í apríl 1955. Sektargreiðslur fyrir vanskil á bókum voru tvö sent á dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband