Færsluflokkur: Bloggar
26.6.2023 | 14:23
Góðar og illar vættir
Urðarhvarf eftir Hildi Knútsdóttur er ekki löng saga en eftirminnileg. Þessi nóvella segir frá nokkrum dögum í lífi Eikar. Hún er einfari, býr ein og á fáa að. Ketti elskar hún hins vegar og leggur mikið á sig til að bjarga villiköttum. Kvöld eitt fer hún ásamt öðrum til að reyna að ná læðu með fimm kettlinga í Urðarhvarfi. Þar sér hún bregða fyrir veru, vætti eða skrímsli sem hún þekkir, hefur hitt áður. Endurfundirnir verða hins vegar sögulegir því umsnúningur verður á hvernig Eik skynjar þennan vætt í lífi sínu. Þetta er falleg saga og mjög myndræn. Táknin eru mörg og hægt að kafa djúpt í hvernig þau birtast í söguþræðinum en sterkust er hún fyrir það að í lesandanum situr einhver ljúfsár tilfinning og ákveðin gleði að lestri loknum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2023 | 22:55
Sterkasta ástin
Sagt er að móðurástin sé sterkust allra tilfinninga. Í Himinópið eftir Mons Kallentoft er hún einmitt í lykilhlutverki. Lítill drengur finnst látinn í bíl á bílastæði á sjóðheitum degi. Móðirin hefur glímt við kulnun og minnisleysi í kjölfarið og allt bendir til þess að hún hafi gleymt að fara með drenginn á leikskólann og skilið hann eftir í bílnum. Þetta er hræðilegur dauðdagi en þegar móðirin finnst myrt fer rannsókn Malinar Fors og félaga hennar á fullt. Var hún drepin af einu þeirra nettrölla sem fordæmdu hana eða liggur sannleikurinn í nærumhverfi ungu konunnar? Mons Kallentoft er sænskur blaðamaður og rithöfundur og þetta er hans tólfta bók um Malin Fors lögregluforingja. Þetta eru lipurlega skrifaðar bækur, spennandi og vel unnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2023 | 09:05
"Í draumi sérhvers manns er fall hans falið
Draumurinn um Babýlon eftir Richard Brautigan er engu lík, í senn skopstæling af sakamálasögum höfunda á borð við Dashiell Hammett og Raymond Chandler og vísindaskáldsögu. C. Card er hins vegar hvergi nærri eins skarpur og Sam Spade eða eins kaldur og klár og Philip Marlowe. Hann svarar ekki síðustu tuttugu spurningunum á lokaprófi í lögregluskólanum því hann gleymir sér í draumum um Babýlon. Í fyrstu er ekki alveg ljóst hvað Babýlon er en svo fær lesandinn að ferðast þangað með Card en þar er hann hetja og hin undurfagra Nana-dirat er ástfanginn af honum. Kannski ekki undarlegt að skítblankur draumóramaður flýji þangað reglulega. Draumurinn um Babýlon er áhugaverð, einkum vegna þess hvernig hún er skrifuð. Stuttir hnitmiðaðir kaflar og hvergi orði ofaukið. Hann fangar ágætlega andrúmsloft sakamálasagnanna sem hann gerir um leið grín að en skyldi hinn harði, kaldi og skarpi spæjari aðeins vera mömmustrákur þegar allt kemur til alls?
Richard Brautigan fæddist 30. Janúar árið 1935. Hann ólst upp hjá móður sem glímdi við fíkn og faðir hans vissi ekki að hann væri til fyrr tæpri hálfri öld síðar. Mary Lou, móðir hans, yfirgaf barnsföður sinn Ben, átta mánuðum áður en Richard fæddist. Hún flæktist um eftir það, tók saman við marga misjafnlega ofbeldisfulla menn og eignaðist þrjú önnur börn. Þau voru fátæk og Richard sagði dóttur sinni eitt sinn þá sögu að hann hefði horft á móður sína tína rottuskít úr hveitinu áður en hún steikti handa þeim pönnukökur eingöngu gerðar úr vatni og hveiti. Drengurinn var hins vegar afburðagreindur og efnilegur íþróttamaður. Hann var hávaxinn og stundaði körfubolta og var ritstjóri skólablaðsins í menntaskóla. Fyrstu ljóðin birti hann á þeim árum. Hann skrifaði og flutti ljóð alla ævi en einnig smásögur, skáldsögur og greinar. Hann glímdi við fíkn og andleg veikindi og svipti sig lífi árið 1984. Bækur hans eru hins vegar áhugaverðar og áhrifamiklar og Trout Fishing in America er sjálfsævisöguleg að einhverju leyti. Sú bók hlaut metsölu um allan heim þykir enn í dag tímamótaverk. Richard Brautigan er meðal höfunda sem Haruki Murakami telur meðal áhrifvalda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2023 | 08:00
Gamlar syndir hafa langan hala
Gamlar syndir hafa langan hala segir máltækið og nú í dag vitum við að ofbeldi hefur margvíslegar langvarandi afleiðingar. Strákar sem meiða eftir Evu Björg Ægisdóttur er sakamálasaga byggð á því þema. Elma er nýkomin úr fæðingarorlofi og Sævar tekin við umönnun Öddu dóttur þeirra í sínu feðraorlofi þegar lík finnst í sumarbústað í Skorradal. Um er að ræða mann um fertugt og hann hefur verið stunginn til bana. Verknaðurinn hefur verið framinn af umtalsverðum ofsa en svo undarlega bregður við að stór gamall blóðblettur finnst einnig undir teppi í bústaðnum. Hörður er enn í sorg eftir lát Gígju, konu sinnar, en stjórnar eigi að síður rannsókninni. Fyrir tilviljun rekst Sævar á gamla dagbók í kassa á nýja heimilinu þeirra og það verður til þess að hann og Elma gera sér ljóst að þetta nýja mál kann að eiga sér rætur aldarfjórðung aftur í tímann. Eva Björg er flottur sakamálahöfundur og kann að flétta flókin vef. Þessi bók er virkilega fín og frábær til að taka með sér í frí.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2023 | 17:23
Ísland, vettvangur glæps
Það er alltaf gaman að rekast á umfjöllun um Ísland í erlendum bókum og sjá landið með augum gestsins. Nokkrir erlendir höfundar hafa hins vegar gert Ísland að sögusviði og tveir vinsælir glæpasagnahöfundar eru þar á meðal. Annar er Heine Bakkeid. Aðalsöguhetja hans Thorkild Aske er hálfíslenskur og í fyrstu sögunni um hann, Við skulum ekki vaka, kemur hann til Íslands ásamt systur sinni til að vera við dánarbeð föður þeirra. Hér á landi flækist hann í sakamál og leysir það. Í næstu bók, Hittumst í paradís, ræður hann sig í vinnu hjá vinsælum glæpasagnahöfundi til að skoða gamalt sakamál sem hún ætlar að byggja næstu bók sína á. Auðvitað leynist þar fiskur undir steini og Thorkild fyrr en varir farinn að takast á við hættulegan morðingja. Þriðja bókin er svo Refsiengill. Í henni heldur Thorkild aftur til Stafangurs. Fimm árum fyrr hafði hann verið yfirmaður í innra eftirliti norsku lögreglunnar og verið sendur þangað til að rannsaka spilltan lögreglumann Simon Bergeland. Rannsóknin þá fór gersamlega úr böndunum og endaði með að Thorkild lendir í bílslysi undir áhrifum ofskynjunarlyfja og farþeginn í bílnum lést. Í kjölfarið missir Thorkild starfið og æru sína sem lögreglumaður.
Allir töldu að Simon Bergeland hefði flúið til að forðast réttvísina en þegar lík hans finnst verður ljóst að ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu gamla máli og í raun mikið í húfi fyrir Thorkild að það leysist. Kannski nær hann að sýna fram á að hann hafi verið fórnarlamb samsæris og hugsanlega fær hann þá starf sitt aftur. Fléttan í bókinni er góð en hún er dálítið langdregin á köflum. Heine nær hins vegar að skapa ákveðið andrúmsloft og lesandinn hefur samúð með Thorkild og óskar honum velfarnaðar í leit sinni að svörum.
Helköld illska
Quentin Bates hefur sterkt tengsl við Ísland og bjó hér í áratug. Hann vann ýmis störf og þegar hann hóf að skrifa ákvað hann að staðsetja sögur sínar á Íslandi. Gunnhildur Gísladóttir rannsóknarlögreglufulltrúi er aðalsöguhetja hans og hún hreinskiptin, jarðbundin og ákveðin. Í Helköld illska, rannsakar Gunna sjálfsvíg en kemst fljótt að því að ekki er allt sem sýnist varðandi andlát eiginkonu hins látna fimm árum fyrr. Á meðan kannar Helgi, samstarfsmaður hennar, hvernig stendur á því að hann mætir á flugvellinum í Amsterdam Íslending sem á að vera löngu látinn. Nú og svo dúkka innbrot, íkveikjur og margvísleg önnur svikamál upp á borðum lögreglunnar.
Hér njóta sín einkar vel þrjóska og þrautseigja þeirra Helga og Gunnu því hvorugt þeirra gefst upp fyrr en þau hafa leitt sannleikann í ljós. En þrátt fyrir það tekst þeim ekki alltaf að ná sínum manni. Quentin hefur sagt að hann hafi ætlað að hætta að skrifa um rannsóknarteymið íslenska en þessi saga hafi sótt á hann og hann verið farinn að hamra lyklaborðið áður en hann vissi af. Lesendur gleðjast yfir því þótt ýmsir endar séu hér lauslega hnýttir og án efa ekki allir sáttir við endalokin. Engu að síður fín sakamálasaga og tengingin við Ísland skemmtileg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2023 | 18:28
"Sumir skrifa í öskuna, öll sín bestu ljóð
Íslenskar alþýðukonur hafa jafnan unnið verk sín hljóðar og skrifað í öskuna, öll sín bestu ljóð. Sumarblóm og heimsins grjót er saga einnar slíkrar. Sóley er yfirgefin af karlmönnunum í fjölskyldu sinni eftir að móðir hennar þegar hún er barn að aldri. Eftir það er hún upp á náð og gæsku annarra komin og sumir reynast henni vel en aðrir skelfilega. Sóley nær hins vegar með glaðlyndi sínu, lífsvilja og hæfileikum að vinna úr verstu aðstæðum og koma börnum sínum til manns.
Sigrún Alba Sigurðardóttir byggir þessa fyrstu skáldsögu sína á ævi ömmu sinnar. Hún skrifar af skilningi og næmni þótt ég hefði viljað sjá hana sviðsetja atburði meira er þetta engu að síður eftirminnileg bók. Hér fléttast saman ill örlög og útsjónarsemi og þrautseigja ungrar konu fæddrar í byrjun síðustu aldar. Það eldar af nýjum degi og glampar af auknu frelsi kvenna til að stjórna sér og hlutskipti sínu eru jafnvel farnir að ná til Íslands. Sóley hefur hæfileika til að hverdagsleg hráefni að veislumat. Það verður vinkonum hennar innblástur að því að stofna matsölu á Seyðisfirði og um tíma nýtur Sóley hamingjunnar. En stórt áfall ríður yfir og þá er ekki um annað að velja en bjarga sér eftir þeim leiðum sem vænlegastar eru hverju sinni.
Hér eru allar mannlegar tilfinningar undir og oft ekki hægt annað en finna til með Sóleyju, vitandi að valkostirnir sem bjóðast eru ekki margir. Hún á aldrei möguleika á að vera fyllilega sjálfstæði eða skapa sér eigið líf. Sigrún Alba hefur verið opin með að aðalpersónu sögunnar, Sóleyju, byggir hún á ömmu sinni og jafnframt að vekja athygli á hlutskipti kvenna sem hingað til hafa ekki verið áberandi á spjöldum sögunnar eða í íslenskum skáldsögu. Það hefur aldrei verið auðvelt að vera einstæð móðir á Íslandi og það alltaf krafist gríðarlegra fórna. Segja má að Sóley hafi verið heppin að því leyti að hún gat með aðstoð annarra haldið börnum sínum hjá sér en hún þurfti til þess að gera margar og sársaukafullar málamiðlanir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2023 | 12:35
Ekkert jafnast á við glæpasögu í rigningu
Eitt af því sem er ómissandi á sumrin eru góðar spennubækur. Ekkert jafnast á við það á rigningardögum að liggja inni með spennandi sakamálasögu og hlusta öðru hvoru á regnið dynja á þakinu. Sólskinsdagana finnst flestum þeir verða að nýta í útivist, enda yfirleitt færri en hinir. Tíðarfarið undanfarið hefur svo sannarlega gefið tilefni til að sanka að sér góðum glæpasögum og það hef ég gert af eldmóði og ákafa. Sú fyrsta sem ég lauk við var Aðskotadýr eftir Unni Lindell. Fléttan er góð, mátulega flókin og vel uppbyggð. Undir lokin eru spennandi kaflar og allt fer á besta veg fyrir aðalpersónunum og þá er hægt að loka bókinni með feginsandvarpi. Unni Lindell er norsk og hefur auk sakamálasagna skrifað barnabækur og ljóð. Hún var blaðamaður áður en hún byrjaði rithöfundaferilinn en eftir að bækur hennar um Cato Isaksen slógu í gegn hefur hún eingöngu helgað sig bókarskrifum. Gerðar hafa verið sjónvarpsmyndir eftir sumum bóka hennar og nokkrar þeirra verið sýndar á RÚV. Unni hefur líka fengið Riverton-verðlaunin fyrir bækur sínar.
Næst greip ég Voðaskot eftir Katrine Engberg. Hún er ótrúlega hæfileikarík, konan sú, og á að baki farsælan feril sem leikkona, dansari og danshöfundur. Bækur hennar um Jeppe Kørner og Annette Werner í Kaupmannahafnarlögreglunni eru vel skrifaðar og fínustu sakamálasögur. Þar er líka alltaf að finna ákveðinn fróðleik sem er alltaf bónus. Í Voðskot er atriðið þar sem ein persónan, leiðsögumaður á Thorvaldsen-safninu, veltir fyrir sér nokkrum að verkunum þar slíkur fróðleiksmoli. Rigning og umtalsvert rok verður fullkomlega ásættanlegt þegar svona bækur eru við höndina.
Beinaslóð eftir Johan Theorin er frumleg og skemmtilega uppsett. Johan er sænskur, fyrrum blaðamaður eins og Unni og hefur hlotið mörg verðlaun og viðurkenningar fyrir bækur sínar. Meðal annars Glerlykilinn og CWA International Dagger. Bókin hefst á því að við fylgjum manni að nafni Gerlof inn á skrifstofu annars manns sem lesandanum er sagt að hingað til hefur verið óstöðvandi. Við fáum að vita að fjórar manneskjur hafa reynt og goldið fyrir með lífi sínu. Mun Gerlof takast það sem þeim misheppnaðist og hver er þessi samviskulausi maður? Johan kann að byggja upp spennu og tekst einkar vel upp í þessari bók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2023 | 09:13
Óhamingjusamar fjölskyldur
Fjölskyldan og ættartengsl eru helstu umfjöllunarefni Pedros Gunnlaugs Garcia í bókinni Lungu. Stefán reynir að byggja brú og sættast við Jóhönnu dóttur sína en sagan gerist einhvern tíma í framtíðinni. Jóhanna hefur notfært sér nýjustu tækni til að klæðskerasníða dóttur sína, ef svo má segja, þ.e. breyta genamengi hennar til að hún verði sem fullkomnastur. Stefán hafði látið orð falla um þá fyrirætlun sem Jóhanna getur ekki fyrirgefið. Hún fer að lesa handrit að fjölskyldusögunni eftir föður sinn og hugsanlega getur það fært þau nær hvort öðru.
Þetta er fjörlega skrifuð og að mörgu leyti vel unnin saga. Þarna eru áhugaverðar persónur en einnig nokkrar ógeðfelldar. Jóhanna er einstæð móðir, fráskilin, með eitt barn sem skiptist á að dvelja já henni og barnsföðurnum, hún er forritari að leikjum sem nýta sér sýndarveruleika. Fjölskylda hennar er fámenn en því fjölbreyttari. Jóhanna á ættar að rekja til Ítalíu og Víetnam. Fólkið hennar hefur lagt á flótta undan erfiðum lífskjörum, stríði og kúgun og stjórnsemi og leiðindum. Margt er forfeðrum hennar til lista lagt en þau eru gölluð líka.
Helst stendur þeim fyrir þrifum erfiðleikar við að tengjast öðrum og gefa sig alla í samskiptum. Hér eru einbirni kynslóð fram af kynslóð og ekkert þeirra á í góðu sambandi við foreldra sína. Það er eins og enginn geti rofið einangrun hinna fullorðnu. Hér er ýjað að því að erfðir ráði miklu og alls konar genabreytingar koma við sögu en einnig dýr sem eru algeng fórnarlömb vísindamanna í leit að svörum m.a. hamstur, hundur og froskur. En þarna er líka stökkbreyttur hani, fyrsti náni vinur einnar sögupersónunnar, vinur sem viðkomandi svíkur. Hér eru stórar spurningar undir. Fyrir utan þessar klassísku um erfðir og umhverfi, spurningar um hvort rétt sé að létta foreldrum og börnum lífið með hjálp vísindanna og hvaða máli fjölskyldur skipti? Er barni nauðsyn að lifa fjölskyldulífi og veldur vangeta foreldranna til að mynda sambönd barninu óhjákvæmilega skaða? Þegar stórt er spurt verður jafnan fátt um svör en þessi bók vekur mann sannarlega til umhugsunar.
Bloggar | Breytt 27.5.2023 kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2023 | 12:17
Undiröldur í mannlegum samskiptum
Sjötta bók Ármanns Jakobssonar um lögregluteymið, Kristínu, Bjarna, Njál, Margréti g Martein er komin út. Prestsetrið er bráðskemmtileg og vel uppbyggð sakamálasaga, eins og þær fyrri drifin áfram af flókinni gátu fremur spennu. Ármann hefur frábært vald á íslenskri tungu og flott orðtök og litríkt myndmál er áberandi í öllum hans bókum. Honum er líka lagið að skapa áhugaverðar persónur og sá hæfileiki nýtur sín vel í þessari sögu. Hann er líka óvenjulega hispurslaus og ekki hræddur við að koma inn á skuggahliðar mannlegra samskipta.
Að þessu sinni hverfist sagan um arf sem Kristín fær óvænt eftir afasystur sína. Um er að ræða gamalt prestsetur á jörðinni Stóru-Hlíð. Þar eru þrjú önnur íbúðarhús og gistiheimili. Kristín kemur þangað í frí en fljótlega verður henni ljóst að mikil spenna ríkir undir niðri í samskiptum íbúa á svæðinu og þegar einn þeirra finnst látinn reynir á ályktunarhæfni og innsýn Kristínar í mannlegt eðli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2023 | 17:55
Skyldulesning fyrir kverúlanta
Hafi þér einhvern tíma orðið það á að kvarta undan heilbrigðiskerfinu er bókin Læknir verður til eftir Henrik Geir Garcia skyldulesning. Hér er sagan sögð frá sjónarhóli þeirra sem starfa innan þessa kerfis og þurfa að takast á við misgáfulega og miskröfuharða sjúklinga. Sagan frá hinum endanum. Vinnuaðstaðan er léleg, alltaf mikið meira en nóg að gera og tólin til að sinna viðfangsefninu iðulega ekki til staðar. Það er nefnilega ekki einfalt mál að sjúkdómsgreina. Einkennin eru oft óljós eða geta átt við um ansi margt og blóðprufur, skimanir, sneiðmyndir og röntgenmyndir bæta stundum engu við. En fyrir framan þig er manneskja sem kvelst. Manneskja sem í einhverjum tilfellum er búin að sjúkdómsgreina sig sjálf eða þykist vita að tiltekið lyf muni virka, einmitt í hennar tilfelli. Og þau eru mörg tilfellin og sum einfaldlega utan og ofan við það sem vísindin ráða við. Læknar eru settir á stall í okkar samfélagi. Þeir eiga vita allt og hafa svör við öllu. Þeir eiga að ávísa pillum svo okkur líði betur og skera upp dugi þær ekki til. En læknar eru bara menn og það verður svo augljóst og satt í þessari frábæru bók. Þótt Henrik Geir segist skálda í eyðurnar eru persónur og tilvik að hans eigin sögn innblásin af raunverulegum manneskjum og atburðum. Hann hlífir engu, hvorki kerfinu sem hann vinnur fyrir né sjálfum sér. Við þetta bætist svo að hann skrifar einstaklega lipran og skemmtilegan texta. Lifandi og blæbrigðaríkt mál sem gerir sögurnar frábærar og svo skemmir ekki hvað hann er fyndinn. Já, ég mun hér eftir fara varlega í að gagnrýna heilbrigðiskerfið og æfa mig vandlega í hnitmiðuðu og skilmerkilegu orðalagi fyrir næstu læknisheimsókn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)