Færsluflokkur: Bloggar

Heiður og sómi

Í dag leitaði til mín ungur maður og bað mig að lesa yfir bók eftir sig sem kemur út fyrir jólin. Hann langaði að biðja mig að segja einhver orð um bókina sem setja mætti á kápu. Engu var líkara þegar hann spurði en hann byggist við því að mér fyndist þetta eitthvert erfiði. Mér fannst mér aftur á móti mikill heiður sýndur og þetta gladdi mig mjög mikið. Nú bíð ég spennt eftir að fá bókina í hendur og geta lagst í lestur.

Upp komst um strákinn Tuma

Katrín Snæhólm klukkaði mig og nú verð ég að segja átta hluti um sjálfa mig. Það fyrsta sem mér dettur í hug er að ég elska rauðan lit og dregst alltaf að honum hvar sem ég sé hann. Rauðir kjólar hafa sérlega tiltrekkjandi áhrif þannig að líklega er ég eitthvað skyld nautgripum nema að þeir þola víst ekki þennan lit. Ég er ótrúlegur sælkeri og stenst sjaldan sætindi. Af þessum ástæðum hef ég aldrei þorað að koma mér fyrir á krossgötum á gamlárskvöld og bíða álfanna. Það yrði þeim alltof auðvelt að freista mín til að segja eitthvað. Ég hef afspyrnu gaman af að baka en Höllu vinkonu finnst það skrýtið því hún eldar en bakar ekki. Ég syng ekki að minnsta kosti ekki í eyru þeirra sem mér þykir vænt um. Ég heillast af öllum loðnum dýrum en helst vil ég að þau séu með trýni og oddhvöss eyru sem undanskilur suma karlmenn úr þessari jöfnu. Ég er sílesandi. Ef ekki er óopnuð bók á náttborðinu fæ ég fráhvarfseinkenni og er ekki mönnum sinnandi fyrr en eitthvert lesefni er fundið. Ég þoli ekki Hómer Simpson og aðra heimska heimilisfeður í bandarískum sjónvarpsþáttum. Mér finnst leikfimi viðbjóðslega leiðinleg en er tilbúin að leggja á mig ómælt erfiði í fjallgöngum ef ég hef von um að sjá ársprænu steypast fram af kletti í fögrum fossi. Ég klukka Svövu systur, Elínu Arnar, Gurrí, Auði Evu, Zunzillu, Svartfugl, Heiðu Magg og Heiðu Þórðar.

Eldri systkini gáfaðri

Ég rak augun í frétt inn á visir.is áðan þar sem stóð að rannsóknir hefðu leitt í ljós að greindarvísitala eldri systkina væri alla að jafna hærri en þeirra yngri. Þarna hef ég fengið staðfestingu á því sem mig hefur alltaf grunað. Jafnvel gæðaefni þynnist út eftir því sem það er notað oftar. Runeberg sá þetta og því segir hann í kvæðinu um Svein dúfu og þótt karl faðir hans hafi verið sæmilega greindur maður entist vit hans ekki í alla þá barnahausa sem hann framleiddi og því var ansi lítið eftir handa Sveini sem var yngstur. Ég og Magga berum augljóslega af systrum okkar eins og gull af eiri. Í minni fjölskyldu hefur reyndar lengi verið um það rætt að tónerinn í prentara foreldra minna hafi farið minnkandi eftir því sem eintökum fjölgaði því við Magga erum líka dekkstar yfirlitum en Svava sú yngsta alveg ljóshærð. Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Dómar úr fornöld

Ég er ekki sú eina sem fædd er á vitlausri öld. Nú hafa þrír dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur sýnt að þeir hafa ekki kynnt sér nýjustu rannsóknir, viðhorf eða lög. Ég læt mér þó nægja að leggja ekki lag mitt við nýjustu tækni og skaða því ekki einstaklinga. Dómarar þessi sýkna ungan mann af nauðgunarákæru vegna þess að fórnarlambið streittist ekki nægilega á móti og mótmælti ekki. Margar rannsóknir eru til sem sýna að margt fólk hreinlega lamast af skelfingu þegar ofbeldismenn ráðast á það og hvergi í heiminum er það talið til vansa nema þá hér á Íslandi. Dómararnir viðurkenna að samræðið var ekki með vilja konunnar í máli þessu en þar sem árásarmaðurinn beitti ekki nægu ofbeldi er hann sýknaður. Í hegningarlögum segir að hver sá sem með ofbeldi. þvingunum eða annarri nauðung neyði annan til samræðis sé sekur um nauðgun. Það að ýta konu inn í klósettklefa og læsa hana þar inni og fara þannig að henni að stórsér á henni er að mínu mati þvingun. Hvað þarf meira til? Ég er reið og hneyksluð.

Og að auki. Hvers konar lögmenn eru það sem ganga fram í fjölmiðlum og gera þar píslarvotta úr skjólstæðingum sínum á kostnað fórnarlamba þeirra? Lögmenn eiga að gæta hlutleysis og því eðlilegt að þeir láti ekki í sér heyra í fjölmiðlum á þann veg að þeir dragi svo augljóslega taum annars málsaðila. Takið eftir muninum á málflutningi Margrétar Gunnlaugsdóttur og Sveins Andra Sveinssonar. Sveinn Andri lýsir fjálglega píslum skjólstæðings síns og segir hann eiga rétt á skaðabótum. Margrét segist ekki vera sammála dómnum og rekur forsendur hans. Hún minnist hvergi á þjáningar skjólstæðings síns né er hún með upphrópanir um að við almenningur skuldum henni eitthvað. Réttlætiskennd flestra væri þó fremur tilbúin að samþykkja þá kröfu.


Fædd á vitlausri öld

Já, elskurnar mínar. Þið kannist greinilega öll við pennavandamálið sem ergir mig svo mjög. En vegna þess að Ásgeir vinur minn nefndi að ég gæti tekið tæknina í þjónustu mína verð ég að játa að stundum held ég að ég sé fædd á vitlausri öld. Ég er einstaklega tækjafötluð og hef megna andstyggð á öllum tækjum sem eru flóknari en það að tveir takkar on og off blasi við og þrýstingur á þá nægi til að tækið geri allt sem gera þarf. Tæki hafa líka sérstæða andúð á mér og iðulega hef ég lent í að þau hreinlega bila við það eitt að ég horfi á þau. Oftar reynar vegna þess að ég geri eitthvað við þau.

Hér í gamla daga meðan enn voru notaðar ritvélar reyndi ég að skipta um borða með þeim einum árangri að ritvélin murraði illkvittnislega þegar ég ætlaði að byrja að vinna aftur. Það þurfti manneskju með svarta beltið í ritvélaviðgerðum til að koma henni í samt lag. Í Búnaðarbankanum í gamla daga tíðkaðist almennt ekki að drekka í vinnnunni en einn föstudaginn skáluðum við í sérríi til að halda upp á einhvern áfanga sem ég er löngu búin að gleyma. Mér tókst að sjálfsögðu að hella mínu glasi yfir reiknivélina mína og óhætt er að segja að hún hafi ekki borið sitt barr upp frá því. Í hvert skipti sem kveikt var á henni spýttist úr henni pappírinn skreyttur merkjum sem einna mest líktust litlum kínverskum hrísgrjónabændum með sína barðastóru hatta. Ég þorði ekki að senda hana í viðgerð og stal því reiknivél af næstu skrifstofu. Sennilega hefði þó verið réttara að senda reiknimaskínuna í meðferð en í viðgerð.

 Þegar ég bráðung og efnileg hóf blaðamennskuferilinn á Þjóðviljanum voru þar tölvur sem ég hafði aldrei séð áður. Á ýmsu gekk í samskiptum okkar og skjöl hurfu, birtust aftur og týndust á dularfullan máta. Þó tók steininn úr þegar ég hellti kaffibolla yfir lyklaborðið og tölvan æpti svo og hljóðaði að ritstjórinn kom hlaupandi til að gá hvað gengi á. Ég stóð eins og illa gerður hlutur meðan hann hellti kaffinu úr lyklaborðinu og bað mig vinsamlegast afsökunar á látunum í tölvunni. Ég stundi vandræðaleg að ég hefði sennilega hljóðað líka hefði einhver hellt yfir kaffi. Ég var ekki rekin fyrir pyntingar á tækjum og varð satt að segja bráðhissa á því.

 Ég hef átt og notað nokkra diktafóna um ævina en byrjaði ekki að nota slíkt fyrr en árið 2003. Þá hafði ég starfað við blaðamennsku frá 1989. Ég er þó enn alltaf með penna og blað og tek nótur því ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég hef staðið í þeirri meiningu að ég væri að taka upp en ekkert komið inn á tækið. Ýmist vegna þess að það hafi verið batteríislaust, ekki kveikt á því eða það hreinlega bilað. Já, nóturnar mínar hafa bjargað orðspori mínu ansi oft og þess vegna nota ég enn penna sem í fúlskap sínum og illkvittni verða iðulega bleklausir.

 P.S. Ásgeir minn ég á svona diktafón eins og þú talar um en hef aldrei lagt í að reyna að finna út hvernig maður hleður hljóðskrá inn í tölvuna.


Svo bregðast krosstré sem önnur ...

Pennar eru bara ekki pennar í dag. Þeir endast svo miklu skemur en var í mínu ungdæmi og ég hef rekið mig á að alltaf skulu þeir gefast upp þegar verst gegnir. Ég geng ævinlega með penna í töskunni eins og góðum blaðamanni sæmir en upp á síðkasti bregst varla að þegar ég tek upp pennann minn til að skrifa nótur eftir viðmælanda eða einhverjar glimrandi hugmyndir sem skyndilega lýstur niður í höfuðið á mér þá eru þeir bleklausir. Fáeinir skýrir bókstafir birtast en svo dofna þeir og undir það síðasta sést ekki annað en far í blaðsíðuna. Já, hér áður fyrr gat maður skrifað og skrifað og blekið virtist eilíflega sprautast úr pennanum. Heimur versnandi fer.

Andleysi og undarlegir menn

Bloggleysi mitt að undanförnu hefur ekki stafað af tímskorti heldur miklu fremur andleysi og deyfð. Mér hefur sem sé ekki dottið í hug nokkur hlutur að skrifa um. Ólíkt bloggvinum mínum sem upptendrast af anda og innblæstri þegar þeir lesa fréttir sit ég eftir alveg tóm og hugsa bara með mér: Ja hérna það er margt skrýtið í kýrhausnum. Vissulega er það skoðun sem vert er að deila með öðrum en leiðigjörn þegar hún hefur verið endurtekin nokkrum sinnum yfir daginn. Jæja, þessi færsla er hins vegar til komin vegna manns sem ég mætti á morgungöngunni áðan. Við Freyja vorum að skondrast eftir Kópavogsdalnum (þ.e. tíkin skondraðist, ég dróst á eftir) þegar á móti okkur kemur maður dökkur yfirlitum, líklega frá Austur-Evrópu og brátt barst okkur til eyrna ómur af samtali sem maðurinn átti við sjálfan sig. „Grosní baroddí marsku fer,“ tuldraði maðurinn og svo stóð út úr honum bunum af setningum jafnóskiljanlegum og þessari fyrstu. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að segja nokkurn hlut sérstaklega í ljósi eigin tilhneigingar til að tala við sjálfa mig og þagði því og starði fast fram fyrir mig eins og maður gerir þegar maður þarf að láta sem maður sjái ekki undarlegt fólk. Maðurinn gekk hins vegar hiklaust framhjá mér símalandi og það var fyrst þá sem ég tók eftir að hann var með lítið tæki í eyranu og hefur sennilega verið að tala í það. Mér finnst að það ætti að banna ósýnileg tæki. Setja lög sem kveða á um tæki megi aldrei vera minni en svo að þau séu vel sýnileg úr fjarlægð og ekki til þess fallin að hræða líftóruna úr miðaldra húsfreyjum á morgungöngu í sumarsólinni.


Kristilegu kærleiksblómin spretta

Mikið var ég fegin að séra Hirti Magna var veitt aflausn af siðanefnd presta. Ég sá nefnilega ekkert ósiðlegt eða ljótt við orð hans. Ég er því reyndar hjartanlega sammála að sá sem telur sig hafa höndlað hinn eina rétta sannleika er hættulegur. Það er nefnilega stutt í að menn taki að sveifla sveipanda sverði og brenna óæskilegt fólk ef þeir eru of vissir í sinni sök. Kristur boðaði auðmýkt, umburðarlyndi og kærleika og stundum finnst mér trúlaust fólk eiga meira af slíku í sínum sálarkirnum en hinir kristnu. Þegar ég rekst á þannig tilvik tel ég sannast hið fornkveðna að kristilegu kærleiksblómin spretta kringum hitt og þetta. En víkjum að annarri siðanefnd og það er nefnd kollega minna sem dæmdu Kastljós og Helga Seljan sek um grófa móðgun í aðdraganda kosninga. Öðruvísi mér áður brá er það eina sem ég hef um þá niðurstöðu að segja.

Annir og meiri annir

Ég hef verið ákaflega önnum kafin að undanförnu og varla mátt líta upp úr verkefnum. Freyja er að verða búin að fá nóg af þessu og er tekin upp á því að rukka mig um göngutúra. Hún stillir sér upp fyrir framan mig og geltir þar til ég gefst upp, sæki ólina hennar og fer með hana út. Alveg er það merkilegt hvernig allt safnast ævinlega á örfáa daga. Stundum líða margar vikur án þess að nokkuð gerist en ef einhver slysast til að bjóða þér í afmæli hrúgast skyndilega inn tilboð um þetta og hitt sama dag eða dagana í kring. Á endanum er maður nánast kæfður í alls konar uppákomum.

Velst um með Gretti sterka

Ég veit að það er að æra óstöðugan nú á dögum að kvarta undan málfari. En mikið skelfing finnst mér alltaf hallærislegt þegar menn rugla saman tveimur orðatiltækjum. Mér finnst svo sem alveg hægt að virða unglingum það til vorkunnar nú til dags þótt þeir skilji ekki myndmál sem á rætur að rekja til atvinnuhátta fyrir alda en mér finnst erfitt að fyrirgefa kollegum mínum í blaðamannastétt, sérstaklega þeim sem eru jafnvel eldri en ég að kunna ekki með orðtök að fara. Ég rakst á grein eftir Pál Baldvin Baldvinsson á Netinu núna áðan sem hann hafði skrifað 19. júní. Þar sagði í fyrirsögn að íslenskar konur hefðu velt Grettistaki. Hingað til hafa menn nú lyft Grettistaki en velt þungu hlassi, enda var Grettir sterki ekki í vandræðum með að hefja steina á loft. Hann þurfti ekki að velta þeim til að færa þá úr stað.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband