Færsluflokkur: Bloggar

Í leit að afþreyingu

Við Svava brugðum okkur út á Suðurnes að skoða Wilson Muuga á annan í páskum. Okkur systrum fannst við alveg dásamlega hallærislegar að láta okkur detta í hug að skoða brotajárn í fjörunni í hífandi roki og rigningu. En þegar við komum suður úr kom bílalest á móti okkur. Það hvarflaði ekki að okkur að þetta fólk væri að koma úr sömu erindagjörðum og við vorum í þannig að við leiddum getum að því að allir væru á leið milli bæjarfélaga í fermingarveislur. „Kannski eru þeir að skoða Wilson Muuga,“ sagði Svava og við hlógum dátt að þessari vitleysu. Við Hvalsnes varð okkur hins vegar ljóst að fyndni Svövu var dauðans alvara því um það bil fjörutíu bílum hafði verið lagt á mjóum veginum og í vegkantinn og heil prósessía af forvitnum gestum var á leið niður í fjöruna til að berja augum dýrindið. Þetta fyrirbæri sem situr fast þarna í fjörunni var greinilega áhugaverðara en halastjarnan sem hér skaust í gegn á vetrarmánuðum og fyrirhafnarinnar virði að arka í vondu veðri niður í fjöru til að berja það augm. Það var ekki laust við að við systur skömmuðumst okkar enn meira fyrir hallærisganginn þegar við áttuðum okkur á því hversu útbreiddur hann var.

Með réttarmeinafræðing á heimilinu

Tíkin Freyja á alltaf sinn eigin bangsa. Með hann druslast hún í kjaftinum fram og aftur um húsið og jafnvel í langa göngutúra. Á stundum er hún góð og blíð við þessi leikföng sín en þess á milli siðar hún þau óþyrmilega. Eins og að líkum lætur endast tuskudýrin mislengi en alltaf endar það með að saumar gefa eftir og innvolsið vellur út. Á laugardaginn var gaf sig svo óvenjulega harðger flóðhestur úr IKEA og síðan hef ég ekki gert annað en að tína upp hvíta hnoðra sem svífa hér um gólfin. Í gærkveldi var ég búin að fá alveg nóg af þessu og hvæsti á hundinn: Viltu gera svo vel að færa þessar krufningar þínar út úr húsinu. Þetta fannst börnunum mínum bráðskemmtilegt og sérstaklega í ljósi þess að móðir þeirra hefur legið í ótal sögum af réttarmeinafræðingum sem leysa flóknustu sakamál með innsæi, gáfum og nákvæmni. Ég tala af reynslu þegar ég fullyrði að það er allt annað að vera með einn slíkan inn á heimilinu en bara að lesa um þá.

Páskakveðjur

Ég og sonur minn sendum hvort öðru þessar páskakveðjur í gærkveldi eftir að hann hafði borðað hjá mér.

Eitt sinn var ungur maður
sem varð rosalega glaður
þegar fékk hann naut
og leysti þraut
sem snerist um bölvað þvaður.

Þetta síðasta vísar auðvitað til krossgátu Morgunblaðsins en við mæðginin erum bæði forfallnir krossgátufíklar.
Svarið sem ég fékk var svona:

Þessi maður var einkar góður
en átti snaróða móður.
Hún með vísum hann hrelldi
og vöngum velti
um fokdýrt svínafóður.

Ég veit ekki hvort svínafóðrið sem verið er að tala um er nautahryggurinn sem ég eldaði handa syninum og kærustu hans.


Stundum er gott að villast

Í dag ákváðum við systur að fara út á Reykjanes að labba. Við ætluðum niður að Kálfastrandarkirkju og ganga þaðan einhverja af nokkrum merktum gönguleiðum sem þar eru í grennd. Einhvern veginn tókst okkur að keyra framhjá afleggjaranum niður að Kálfaströnd og enduðu því á Vatnsleysuströnd nánar tiltekið í Flekkuvík. Þarna var ævintýralegt um að litast. Fjaran er grýtt og hrauntungurnar teygja sig í sjó fram en inn á milli er skeljasandur því ógrynni af skeljum og kuðungum skolar þarna á land. Stórir móbergshnullungar sem sjórinn hefur mótað og sorfið alls konar myndir í eru á víð og dreif um fjöruna. Enginn þeirra nægilega lítill til að hægt sé að flytja hann án hjálpar stórvirkra vinnuvéla. Því miður liggur mér við að segja því við systur vorum fljótar að sjá að listasmíð af þessu tagi væri gaman að eiga í garðinum sínum eða inni í stofu. Þarna eru ótal tóftir sem minna á forna útgerð á þessum slóðum en einnig eyðibýli sem er ákaflega sérstætt. Gamall kofi stendur við hlið yngra og reisulegra húss sem ráðist hefur verið í af miklum metnaði. Það virðist alls ekki gamalt og þakjárnið er mjög fallegt. Við hlið húsins er grunnur og undir því heilmikið pláss sem og á stétt fyrir framan. Allt ber hér vott um stórhug og brotna drauma því aldrei var lokið við þessa metnaðarfullu byggingu. Einhvern veginn finnst manni að þarna hafi átt sér stað mannlegur harmleikur og einhver orðið að lúta í duft og gefast upp. Örlög alltof margra. Á veggnum neðan við húsið eru áhugaverðar myndir sem steyptar hafa verið inn í vegginn, m.a. mannsmyndir og rúnaletur sem við Svava gátum ekki lesið. Veðrið var yndislega gott og við blasti snæviþakið Snæfellsnesið og jökullinn með skýjahettu í toppinn. Sjórinn var sléttur og fallegur og til að byrja með tók á móti okkur hressandi og svöl gola af hafi en síðan datt allt í dúnalogn í bókstaflegri merkingu þess orðs og við vorum hreinlega að kafna úr hita. Hilda og Freyja léku sér í feluleik um hraunið og það var frábært að sjá tíkina stökkva á eftir vinkonu sinni til að leita. Þvílíkur sprettur. Ótal smátjarnir í öllum bollum og klettaskorum voru henni líka ómæld uppspretta ánægju og gleði því hún óð út í og sportaði sig fram og aftur um vatnið. Ég var á hinn bóginn ekki jafnglöð því mér varð hugsað til þess að baðið sem Gummi gaf henni áður en hann fór út á sjó færi þarna fyrir lítið. Við hittum tvær konur sem þarna voru á gangi og þær sögðu okkur að staðurinn væri kenndur við Flekku. Landnámskonu og frænku Ingólfs Arnarsonar en hann hafði komið henni þarna fyrir til að losna við hana úr Brynjudalnum þar sem grösugra var og búsældarlegra. Leiði hennar er að finna einhvers staðar í túnfætinum en konunni hafði ekki tekist að finna það að þessu sinni. Við Svava reyndum ekki að leita því við bjuggumst ekki við að heppnin yrði með okkur fyrst kona sem kunnug er staðháttum fann ekkert. En þetta var mikið og skemmtilegt ævintýri og nú langar mig mest að vita hver stóð fyrir húsbyggingunni sem þarna er og hvers vegna hún var yfirgefin. Mér hefur ekki tekist að hafa upp á neinum upplýsingum þar að lútandi enn. Ef einhver veit eitthvað um Flekkuvík þá væri sannarlega gaman að fá að heyra það.


Tilfinningasemin og aldurinn

Að undanförnu hef ég velt því fyrir mér hvort maður verði tilfinningasamari með aldrinum. Ástæðan fyrir þessum vangaveltum er sú að ég las frétt um það á mbl.is nýlega að ógæfumanni nokkrum hefði verið stungið í steininn fyrir að stela tveimur sláturkeppum. Keppirnir fundust inn á honum. Um leið og ég las þetta duttu mér í hug vísuorð Bólu-Hjálmars um Sólon Íslandus, umkomuleysið féll að síðum. Þetta hefur ekki almennilega farið úr huga mér síðan. Ég velti líka fyrir mér hvort mér liði eins ef manngreyið hefði stolið svínslæri.

Að vefjast tunga um tönn

Ég er að mestu hætt að ergja mig á þeim málvillum og ambögum sem daglega dynja á manni á þessum síðustu og verstu tímum. Stundum velti ég því reyndar fyrir mér hvort stéttskipting sé að verða mörkuð málfari hér á landi líkt og í Bretlandi og víðar. Þegar ég var barn taldist það metnaðarmál að tala og rita sem skýrast og réttast. Í dag segja menn ef þeim er bent á verstu villurnar: „Gerir ekkert til þetta skilst.“ Hugsanlega í sumum hópum. Líklega er það til marks um hversu hrokafull ég er að ég get einhvern veginn ekki tekið fullt mark á þeim sem ekki gera neinn greinarmun á y og i skrifa t.d. fornafnið þeir með y (þeyr), skilja að samsett orð þannig að úr verði tvö orð, skrifa á í banki, hanki og skanki og ótalmargt fleira sem of langt mál væri að telja upp. Í hvert skipti sem ég sé svona texta fer um mig og ég nenni ekki að lesa skilaboð viðkomandi. Ég get hins vegar alveg fyrirgefið kauðalegt orðalag, hik og tafs. Þá er möguleiki að skilja kjarnann frá hisminu að mínu mati. Hitt er bara svo yfirmáta asnalegt að það er óskiljanlegt að nokkur láti það frá sér fara.

Alltaf einhver hængur á

Mikið er það undarlegt að í hvert sinn sem stjórnmálamenn gera eitthvað sem við getum verið ánægð með kemur í ljós að einhver hængur er á málum og því er umsnúið á þann veg að henti yfirvöldum. Þetta kom enn og aftur á daginn eftir kosningarnar í Hafnarfirði. Flestir fögnuðu því að íbúar fengju einhverju ráðið um það hvort álver og virkjanir héldu áfram að hellast yfir okkur eins og rigningin en hvað kom svo í ljós. Álverið getur og mun sennilega stækka hvað sem Hafnfirðingar og aðrir íbúar þessa lands segja. Alveg er þetta dæmigert. Meirihluti Austfirðinga sem er minnihluti landsmanna fékk að ráða því að Kárahnjúkavirkjun var byggð og álver byggt á Reyðarfirði. Mikið var reynt að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðlsu um það mál en fékkst ekki því allir vissu hvernig sú kosning myndi fara. Rök Austfirðinga gegn slíkri atkvæðagreiðslu voru þau að þetta kæmi þeim einum við og að ekki væru þeir skipta sér af því sem við gerðum fyrir sunnan. Þeir steingleymdu þar flugvellinum sem þeir börðuðst gegn að yrði fluttur. Kannski er jafngott að þjóðaratkvæðagreiðsla fékkst ekki. Við hefðum þá kannski komist að því fyrr að vilji meginþorra íbúa þessa lands skiptir engu í ákvarðanatöku stjórnvalda.

Gömul gen og fúafen

Í morgun las ég viðtal við Pétur Marteinsson og konu hans, Unni Valdimarsdóttur í Fréttablaðinu. Þau segja þar frá þeirri ánægju sem er því samfara að fá barn frá Kína. Þau hjón ákváðu að ættleiða frekar en að reyna til þrautar að eignast eigið barn. Sjálf er ég fylgjandi því að sem flest börn í heiminum njóti umhyggju og ástúðar og það gildir einu að mínu mati hvort menn ákveða að ættleiða, fóstra eða fæða eigin börn. Allar þjóðir hafa auk þess gott af því að blandast og fá nýtt blóð inn í hópinn sem fyrir er. Það sló mig engu að síður illa þegar læknirinn, eiginkona Péturs, segir að þeim finnist þau heppin að fá barn sem ekki sé með þeirra gömlu og þreyttu norrænu gen. Hvað er læknirinn að hugsa? Hefur hún einhver rök fyrir því að gen hennar og eiginmannsins séu eldri og þreyttari en gengur og gerist? Það eru hreinlega engin rök fyrir því að gen norrrænna manna séu þreyttari og eldri en annarra. Ég verð að benda á að Kína og Austurlönd almennt hafa mun lengri og sumir segja merkilegri sögu en við Norðurlandabúar þannig ef eitthvað er þá eru þeirra gen eldri. Hvort því fylgir aukin þreyta ætla ég ekki að tjá mig um. Ef blessaður læknirinn átti einfaldlega við að okkur hér á Norðurslóð væri hollt að fá nýtt blóð til blöndunar þá orðaði hún það ansi klaufalega.

Svaðilfarir og Bjarmalandsferðir

Ég er lærður leiðsögumaður og kannski eins gott að þeir útlendingar sem ég leiðsegi um landið fái aldrei veður af þessu.

Ég var að koma heim úr sumarbústaðnum og tel að þetta hljóti að flokkast með styttri slíkum ferðum því hún varði í nákvæmlega fimm og hálfa klukkustund. Ástæðan fyrir þessari fljótaskrift var sú að þegar komið var að afleggjaranum upp að bústað Blaðamannafélagsins reyndist hann ótrúlega sundurgrafinn og illfær. Ég bað Guðmund að leggja ekki í afleggjarann og kvaðst ætla að labba upp að bústaðnum og kanna aðstæður. Hann hélt nú Santa Fe hefði sig yfir smáræði eins og fáeina skipaskurði og gryfjur á stærð við Miklagljúfur. Ég hleypti tíkinni samt sem áður út og ákvað að ganga af stað. Ég var komin nær upp að bústaðnum þegar ég uppgötvaði að ekkert bólaði á Guðmundi á sínum fjallabíl. Ég sneri því við og kom að honum þar sem hann sat fastur tveimur og hálfum metra frá beygjunni inn á afleggjarann og minn var kolfastur. Eftir klukkutíma puð með skóflu, plönkum og handafli okkar hjóna gáfumst við upp og hringdum eftir hjálp. Hálftíma síðar kom vingjarnlegur bóndi á sönnum fjallatrukk og dró okkur hjónin upp á veg. Tíkin skemmti sér konunglega í snjónum á meðan og gerði meira að segja tilraun til að bera plankana að bílnum. Ég býst við að þar með hafi vinnuhundurinn komið upp í henni. Við lögðum sem sé af stað úr bænum klukkan tólf og klukkan hálf sex renndum við Santa Fe inn í heimkeyrsluna heima. Þetta er næstum alveg jafnskemmtileg ferð og bíltúrinn með Möggu gömlu frænku til sællar minningar. Þá stóð til að renna með gömlu konuna austur á Þingvelli en bíllinn hans pabba bilaði við bílskúrana í Bólstaðarhlíð. Fyrir þá sem ekki þekkja til er þessi vegalengd um 300 m. Ég gekk aftur heim í kotið þeirra pabba og mömmu við hlið Möggu frænku. Gamla konan sneri sér að mér á leiðinni og sagði brosmild: Þetta var reglulega skemmtileg ferð. Stutt en skemmtileg.

Í gær vildi þannig til að Gummi þurfti að keyra Evu á leikæfingu klukkan fimm. Því lá fyrir að hann yrði seinn til að sækja mig upp á Höfða. Veður var hið besta í höfuðborginni og ég afréð að ganga af stað heim og hitta manninn minn einhvers staðar á leiðinni. Ég arkaði sem leið lá upp að Árbæjarsafni. Þegar þangað kom minntist ég þess að hafa einhvern tíma tekið þátt í göngu gegnum safnið niður í Elliðaárdal að skoða draugaslóðir. Ég vatt mér því inn fyrir hliðið og gekk rösklega í átt að árniðnum. Neðst í brekkunni varð ljóst að safnið er vandlega afgirt með ríflega mannhæðarhárri girðingu sem hvergi virtist nokkurt gat á. Ég gaf mig þó ekki og gekk meðfram girðingunní, óð mýrarfláka upp að hnjám og sökk þess á milli í drullusvað blautra göngustíga. Eftir ríflega tveggja kílómetra göngu sá ég hlið og stökk þangað. Auðvitað reyndist það læst en þegar þarna var komið sögu var ég orðin rennandi blaut í fæturna og ergileg. Meðfædd glæpahneigð mín kom mér til hjálpar og ég klifraði upp á hliðið og stökk niður hinum megin. Ég var ekki lítið ánægð með sjálfa mig allt þar til ég uppgötvaði að um Elliðaárdalinn var gersamlega ófært sökum hálku. Ég rann niður síðustu brekkuna, fetaði mig á hraða snigilsins eftir glerhálum göngustígum út í hólmann og yfir á hinn bakkann þar sem Guðmundur beið í bílnum. Ljóst er eftir þetta ævintýri að skórnir mínir munu líklega aldrei fá hrós fyrir útlitsfegurð framar, fætur mínir munu þurfa dálaglegt skrúbb til að ná af þeim svarta litnum sem þeir tóku úr skónum og næstu vikur mun ég lifa í ótta um að fá heimsókn frá lögreglunni vegna þess að lipurlegt klifur mitt á girðingunni við Árbæjarsafn kann að hafa verið tekið upp af öryggismyndavél.

Ég veit ekki af hverju það hefur loðað við mig frá barnæsku að koma mér alltaf og ævinlega í einhverjar ógöngur þar sem aðrir sjá ekki annað en greiðfærar leiðir og beina braut. Ég brá mér líkt og vani minn er í gönguferð með tíkina eftir vinnu í gær. Við vorum á gangi í Heiðmörkinni fyrir neðan Vífilsstaðahlíð þegar mér datt í hug að kjörið væri að auka áreynsluna með því að klifra upp hlíðina. Ég fór út af göngustígnum þar sem lyngivaxnar brekkur lágu óslitið upp á topp og uppgangan reyndist greiðfær. Þegar upp var komið ákvað ég að ganga spölkorn eftir hlíðinni og fara niður nokkuð utar þar sem mig minnti að væri göngustígur. Ég gekk og gekk en hvergi bólaði á stígnum og fljótlega fór ég að örvænta. Ef ég færi ekki að koma mér niður yrði ég sennilega enn á gangi um miðnættið svo ég beygði snarlega niður í brekkuna og æddi beint af augum niður á við. Ég var ekki komin langt þegar ég var komin í verstu sjálfheldu í miðjum kjarrgróðri og komst eiginlega hvorki aftur á bak né áfram. Það var alveg sama í hvaða átt ég leit allt var jafntorfært svo ég hélt bara áfram sömu leið. Í dag er ég blóðrisa frá klyftum og niður á ökkla og buxurnar mínar og skórnir hafa lifað sitt fegursta. Tíkin var hins vegar ósködduð og fullkomlega hamingjusöm. En af hverju ég lendi endilega í svona aðstæðum veit ég ekki. Ég hef til dæmis grun um að Magga systir hefði aldrei endað á einni þúfu í miðri brekku þar sem eina færa leiðin var raunverulega upp.


Hagyrðingar og þeir sem vildu gera betur

Ég sendi syni mínum oft skilaboð í bundnu máli og Gummi taldi að eftirfarandi væri lýsandi fyrir þau samskipti.

Ég var að bjóða syni mínum í mat og sendi honum eftirfarandi skilaboð:

Ég vildi þér bjóða í bita
en eitt þarftu áður að vita
að í matinn ert þú
og þín eðla frú
sem aðeins þarf upp að hita.

Ég býst við að fá svar seinna í dag.

Sonur minn þáði matarboðið sem kom mér mjög á óvart. Sennilega hefur hann talið sig geta varið sig og kærustuna, enda ýmsu vanur úr uppeldinu. Ég er hins vegar á því að mæður viti alltaf hvernig börnunum þeirra líður og stundum betur en þau sjálf. Þess vegna sendi ég honum þessa vísu núna áðan:

Í dag ertu lítill og smár
og óendanlega gugginn og grár.
Með svarta bauga
undir sitt hvoru auga
en á morgun líður þér skár.

Eins og fram hefur komið á þessari síðu áður þá sendi ég syni mínum einstaka sinnum snilldarlega ortar limrur. Pilturinn tekur þessum ofsóknum með stóiskri ró, enda þekktur fyrir yfirvegun (sem hann auðvitað hefur erft úr móðurætt). Hér er nýjasta afurðin sem honum var send með tölvupósti í morgun. Drengurinn getur ýmsa lífsspeki numið af þessum kveðskap.

Þinn goggur er langur og mjór
en ekkert sérlega stór.
Þetta er myndarlegt nef
sem fær sjaldan kvef
en skynjar fljótt lyktina af bjór.

Þennan volduga kveðskap sendi ég syni mínum áðan og ákvað að deila snilldinni með ykkur:

Mig dreymdi mergjaða marfló
sem í fjörunni að mér hló.
Hún vatt upp sinn hrygg
og borðaði bygg
en lagðist svo niður og dó.

Þessar vísur hafa beðið sonar míns þegar hann opnar tölvupóstinn sinn.

Þú ert mögnuð mörgæs
og feldurinn þinn er svo næs.
Þín tunga frís
þegar étur þú ís
og með vængstúfunum gerir lok, lok og læs.

Þú máttugi mörgæsasmiður,
verðir þú uppiskroppa með fiður,
skaltu fara ber
að næsta hver
og stökkva svo norður og niður.

Með mörgæsablóð í æðum
er Andri með sínum skræðum.
Hann gengur um
með stelpunum
og tekur doktorspróf í ýmsum fræðum.

Alveg er þetta magnaður kveðskapur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband