Færsluflokkur: Bloggar

Gamalt vín á nýjum belgjum

Maðurinn minn lá inni á gamla blogginu mínu í dag og komst að því að konan hans er snillingur. Hann ákvað að ýmsar gamlar færslur væri nauðsynlegt að birta hér líka og við byrjum á færslum mínum um súluna á Goldfinger.

Ég hef nefnt áður hér á þessari síðu að ég er oft með seinheppnari manneskjum. Það sannaðist enn og aftur á föstudaginn var. Ég var að skrifa grein um súludans sem líkamsrækt og fékk þá stórkostlegu hugmynd að best myndi vera að myndskreyta greinina með myndum af sjálfri mér á súlunni. Vel gekk að fá leyfi til myndatökunnar og ég mætti klukkan átta á föstudagskvöldið á Goldfinger. Þar tóku á móti mér tvær þaulvanar og liprar dansmeyjar tilbúnar að kenna mér. Jónatan ljósmyndari var líka á staðnum og við vildum hefjast handa sem allra fyrst. Þá kom babb í bátinn. Ég mátti ekki fara á súluna í buxum því þá væri hætta á að ég rynni til og dytti í gólfið. Eftir japl, jaml og fuður varð úr að ég lagði til atlögu við súluna í hlemmistórum Bridget Jones nærbuxum og gegnsærri bleikri druslu sem önnur dansmeyjan kallaði pils. Þetta var ekki nóg því varla hafði ég lagt hönd á súluna þegar inn á staðinn stormuðu tólf karlmenn í steggjapartíi. Þegar þarna var komið sögu var eiginlega ekki um annað að ræða en að halda áfram og ljúka þessu og það gerði ég. Gummi var með mér því til stóð að við færum í heimsókn til vinafólks okkar að myndatökunni lokinni. Hann stóð við barinn og beið eftir konunni sinni þegar einn úr steggjapartíinu vatt sér að honum og spurði: Vinnur þú hérna. Nei, svaraði Gummi. Ég er að bíða eftir konunni minni. Hún er þarna á súlunni. Hann bandaði hendinni lauslega í átt að súlunni um leið og hann sleppti orðinu og maðurinn horfði opinmyntur á hann. Þetta kvöld var það pínlegasta sem ég hef lifað hingað til þó að nokkur önnur mætti nefna sem komast nærri þessu t.d. kvöldið sem Steingerður lék draug og hræddi líftóruna úr systur sinni og kvöldið sem ég, Magga og Halla fórum á Southern Comfort fyllerí. Fleira þarf ekki að segja um það kvöld. En eftir miklar vangaveltur og sálarstríð ákvað ég að birta söguna af sveiflum mínum á súlunni á Goldfinger í Vikunni og myndir af því líka. Það kemur í ljós fljótlega hvað broddborgurum þessa lands mun finnast um það.

Við Gummi fórum upp á spítala til pabba áðan og komum við hjá mömmu áður en við fórum heim. Þegar ég var að fara út frá gömlu konunni fannst mér ég endilega hafa verið með rauða sjalið mitt um hálsinn þegar ég fór að heiman. Við renndum því upp á spítala aftur og Gummi hljóp upp til að sækja sjalið. Hann greip í tómt og ég varð að játa að líklega hefði mér skjátlast. Þá stundi Mundi: Já, það er illt að vera kvæntur kalkaðri súlumey. Og með þessu hefur maður þolað súrt og sætt í 24 ár.

Oft er sagt um fólk og því lagt það út á versta veg að það eigi að baki skrautlegan feril. Ég var að hugsa um þetta orðatiltæki um daginn og það rann upp fyrir mér að ég á að baki mjög skrautlegan feril á fleiri en einu sviði. Á menntaskóla árunum vildi ég verða leikkona og lagði hart að mér til að svo mætti verða. Ég lék nefnilega í tveimur leiksýningum og í annarri lék ég asna en hinni hóru. Eiginlega má segja að ég hafi átt jafn skrautlegan leikferil og maðurinn sem hafði einu sinni stigið á svið og lék þá lík. Sjálfur sagði hann að haft hefði verið á orði í sveitinni að aldrei hefði sést dauðara lík í nokkru leikverki. Ég sneri mér eitt sumar að hótelstörfum og var treyst fyrir því verki að hræra skyr ofan í 4o ferðamenn. Ég ákvað að sykra skyrið vel til að hlífa viðkvæmum bragðlaukum óvanra Þjóðverja við sýrubragðinu en þegar skyrið batnði ekki heldur versnaði við sykurinn kallaði ég á kokkinn. Þá kom í ljós að ég hafði saltað skyrið en ekki sykrað. Þessu var bjargað fyrir horn en ég hætti við að gerast hótelstýra á stóru glæsihóteli í miðborginni. Næst sneri ég mér að bankastörfum og þar tókst mér að fylla reiknivél með því að hella yfir hana sérrístaupi. Mér er sagt að reiknivélin hafi ekki borið sitt barr síðan. Sennilega hefði verið vitlegra að senda hana á Vog fremur en á viðgerðarverkstæði. Blaðamennskan tók við af bankanum og hana er ég viðloðandi enn. Maður veit þó ekki hve lengi ef haft er í huga að ég sýndi þónokkur tilþrif á súlunni um daginn og í hádeginu í gær spurði ég yfirmann minn hvort hann væri afi ungrar dóttur sinnar.


Ágætt nýyrði

Var að lesa mbl.is og rakst á þessa skemmtilegu fyrirsögn Evrópusamningur gegn kynferðislegu ofbelgi gagnvart börnum. Nú velti ég fyrir mér hvort þetta sé nýyrði til komið vegna þess að offita barna eykst mjög hratt í heiminum.

 

 

Því miður er ég slíkur erkiklaufi að ég get ekki tengt fréttina hér inn á bloggið mitt en þið verðið bara að taka mín orð fyrir því að svona var fyrirsögnin.


Kirtlaveiki

Það hefur áður komið fram hér að ég elska meinlegar prentvillur og þýðingarvillur. Fyrir skömmu rakst ég á í kommenti á blogginu eina slíka sem mörgum hefur reynst hált á. Nefnilega að skrifa kirtill þegar átt er við kyrtil. Það er jafnan Kristur hinn krossfesti sem verður fyrir þessu því ég veit um tvö tilfelli þar sem hann og kyrtill hans eru til umræðu en í stað klæðnaðar frelsarans fer ritari óvart að tala um innyfli hans. Í flennistórri fyrirsögn í Tímanum hér í eina tíð var verið að fjalla um deilur innan kirkjunnar og sagt að aur og óhróður slettist á kirtil Krists vegna þess að prestar og prelátar gætu ekki setið á sátts höfði. Hvaða innkirtill varð fyrir slettunum fylgdi ekki sögunni. Kommentið snerist hins vegar um það að Kristur hefði verið svo örlátur að ef hann hefði átt tvo kirtla hefði hann gefið annan. Varla er þá um annað en nýrun að ræða því fæstir geta lifað án brisisins, heiladingulsins, lifrarinnar og svo framvegis. Sjálf hef ég ekki farið varhluta af svona villum því á tímabili var ég gjörn á að sleppa ð í maður þegar ég skrifaði. Gulla prófarkarlesari á Fróða var fljót að taka eftir þessu og við komumst að því að þetta væri eitthvað freudískt því ef þú sleppir ð verður orðið maður að maur.

Hundalíf

Stressið í umferðinni hér á landi er yfirgengilegt. Ég hef fundið fyrir þessu sem ökumaður en aldrei jafnáþreifanlega og eftir að ég eignaðist hundinn. Það er eins og fólki sé sama þótt það keyri á dýr. Ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem við Gummi höfum átt fótum fjör að launa á leið með tíkina yfir götu. Dýrið er lagt af stað út á gangbrautina en bílarnir hægja ekki á sér og stoppa ekki. Þeir keyra viðstöðulaust að dýrinu og það eina sem við getum gert er að kippa því hastarlega til baka eða hlaupa yfir götuna til að forða slysi. Eitt sinni lenti ég í því að ung hjón keyrðu á bandið á milli mín og tíkurinnar. Ég sleppti ólinni umsvifalaust og hljóp æpandi upp Neðstutröðina því ólin var föst í bílnum. Til allrar lukku var þetta band sem gengur út úr trissu þannig að ég náði að stöðva bílinn áður en bandið þraut og ökumaðurinn fór að draga tíkina á eftir sér. Núna um daginn lenti ég svo í því að sjálfur bæjarstjórinn í Kópavogi keyrði nánast á Freyju. Hún var lögð af stað út á götuna en hann beygði viðstöðulaust inn í Neðstutröð og tíkin hrökk til baka þegar bílinn þaut framhjá henni. Það var snjór og illa skafið af rúðum bæjarstjórans en mikið var ég reið. Þessi maður fær ekki atkvæði frá mér svo lengi sem ég lifi.

Hið magnaða Snæfellsnes

Áhöfnin á h-tímarit gisti á Hótel Búðum um helgina. Við keyrðum vestur á laugardaginn í vitlausu veðri og þegar við komum var leiðinlegt rok. Þegar líða tók á kvöldið og stórkostlegan fjögurra rétta kvöldverð fór að lægja. Ég hef aldrei fengið annan eins mat og fyrir okkur var borinn þarna. Fyrst voru svartfuglsbringur í malt og bláberjasósu hreint sælgæti og næst kom skötuselur og skelfiskur marínerað í kryddi og einstaklega ferskt og gott. Lambaskankar og lambarifjur sem höfðu fengið að liggja og meyrna í kryddjurtum voru í aðalrétt og við gátum hreinlega ekki talað meðan við nutum þess að borða því þetta var svo óskaplega gott. Að lokum var frönsk súkkulaðikaka með ávöxtum og rjóma. Hreinlega yndislegt. Eftir matinn settumst við niður í skála hótelsins og nutum útsýnis yfir sjóinn og öldurnar. Mikið skil ég Gurrí vel eftir þetta. Ég held ég yrði líka að gera mér ferð inn í stofu til að kveðja útsýnið áður en ég héldi til vinnu á morgnana eins og hún ef ég hefði aðra eins sýn á sjóinn. Við fengum líka að sjá sel leika listir sínar framan við bryggjuna á Búðum og um nóttina var stjörnubjart og vaxandi tungl. Ég hef aldrei séð jafnmargar stjörnur og svo skærar. Við Gummi hengum út um gluggann í herberginu okkar í hálftíma og tímdum ekki að fara að sofa. Um tíma vorum við jafnvel að hugsa um að klæða okkur upp og fara út í miðnæturgöngu en úr því varð ekki. Ég mun sennilega sjá eftir því til æviloka að hafa ekki farið út að skoða stjörnurnar á Búðum.


Fylgt hvert fótmál

Ég er hægt og hægt að jafna mig eftir fríið. „Margt er skrýtið í henni versu,“ sagði kerlingin og ég verð að taka undir það að víst er það furðulegt að skella sér út fyrir landsteinana í hvíldarferð í sólina og koma dauðþreyttur til baka. Ég get ekki einu sinni afsakað mig með þrásetum á börunum. En svona er þetta. Freyja fagnaði okkur ákaflega þegar við komum heim og ætlaði aldrei að hætta að sýna gleði sína. Fyrstu tvo dagana fylgdi hún okkur líka hvert fótmál og þegar Gummi keyrði mig í vinnuna vildi hún fara með. Það er ákaflega óvenjulegt því blessuð tíkin vill yfirleitt ekki fara í bílinn. Í þetta sinn ákvað hún að gera undantekningu fremur en að missa liðið úr augsýn og þar með kannski úr landi.

Perlur fyrir svín eða hvað?

Ef það hefur farið framhjá einhverjum þá var ég að koma frá Tenerife á fimmtudaginn var. Við Guðmundur lentum í dýraævintýri eins og venjulega þegar við ferðumst en við lentum líka í annars konar ævintýri. Við heimsóttum síðasta daginn perlumiðstöð þeirra Tenerife-búa og fengum þar að sjá ostruperlur, ferskvatnsperlur og gerviperlur og lærðum að greina þarna á milli. Slíkt er auðvitað alveg nauðsynlegt fyrir eðalslekti eins og okkur. Hvur veit nema einhver Kolaportsfrekjan reyni ljúga inn á mann glerperlum fyrir fúlgur fjár og maður gleypti við því saklaus og eins og frumbyggi. En þetta var nú útúrdúr því ég ætlaði að segja ykkur frá ostrubrunninum góða. Hann var sem sé inn á verkstæði perlumiðstöðvarinnar þar sem starfsfólk var önnum kafið við að þræða perlur og dýra steina upp á band. Við brunninn lá töng og fyrir 20 evrur eða rétt innan við 2000 kr. máttum við veiða okkur ostru og fá perluna inni í henni metna. Mögulegt var að veiða perlu að verðmæti um 60 evrur mest þannig að þessum krónum var ekki illa varið í þessa tómstundaiðju. Ég greip töngina og heimtaði að fá að veiða og Guðmundur borgaði þegjandi eins og hann er vanur. Konan opnaði ostruna mína og tók til við að káfa á skelfisknum og viti menn allt í einu birtist lítil og óskaplega falleg hvít perla. Ég fékk að koma við hana fyrst allra og óska mér um leið en meðan ég var að skola hana í þar til gerðri skál sagði ostrukonan: Hér er önnur. Þetta er mjög sjaldgæft. Og viti menn, önnur alveg eins perla gægðist út úr ostrukjötinu og ég fékk að óska mér aftur og skola aðra perlu. Alma og Jóel, skipstjórinn hans Gumma og konan hans, voru þarna með okkur og við ákváðum strax að þetta væri til marks um að fyrstu barnabörnin mín yrðu tvíburar. Tvíburaperlurnar mínar lét ég svo setja í silfureyrnalokka og get trúað ykkur fyrir því að það allt annað að bera skartgripi sem maður hefur sjálfur veitt efnið í en aðra gripi. Alma veiddi líka og fékk eina stóra og fallega perlu sem hún lét setja í hálsmen. Guðmundur varð líka að reyna veiðinef sitt og veiddi sæta 7 mm perlu sem hann tók með sér heim.

Alls staðar eru dýr

Við hjónin skreiddumst heim klukkan tíu mínútur fyrir fjögur í gærdag en höfðum þá verið á fótum frá hálffimm um morguninn. Við vorum því heldur framlág þegar heim kom en ferðin var frábær í alla staði. Það hefur löngum loðað við okkur hjónin að alls staðar þar sem við förum laðast að okkur dýr af öllum stærðum og gerðum og þessi ferð var engin undantekning. Við hittum kakadúa sem kolféll fyrir Guðmundi, dúfur sem átu hnetur af svölunum hjá okkur og furðfugl sem vildi endilega að ég klóraði sér í hausnum. Kakadúinn var í eigu hjóna sem við hittum í dýragarðinum Jungle Park. Þau stóðu við innganginn og tóku myndir af gestum með hann í fanginu. Mér gekk ekki vel að fá fuglinn til að kúra hjá mér en um leið og hann kom í fangið á Gumma byrjaði hann að kumra og nudda hausnum við hann. Hann greip líka með klónum og fingurna á Gumma sem eigandinn sagði að væri óbrigðult merki um að honum líkaði við viðkomandi. Auðvitað varð þetta til þess að við keyptum 800 kr. mynd af þeim félögum. Furðufuglinn sem klæjaði í hausnum var einnig í búri í garðinum og ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar hann teygði gogginn út um rimlana og beit mig í puttann. Þegar hann svo lagði hausinn að rimlunum þóttist ég vita hvað klukkan sló og hóf að klóra honum af miklum móð hvar sem ég náði til. Þessi nýi vinur minn sýndi svo ánægju sína með klórið með því að kvaka og þrýsta sér eins nálægt og hann gat. Dúfurnar heimsóttu okkur á þriðja degi ferðar og gerðust svo heimakomnar á svölunum að ég lá ekki einu sinni armslengd frá þeim. Þær kunnu vel að meta þá gestrisni mína að dreifa hnetum á svalagólfið og tíndu þær upp af miklum móð. Myndir af þessum vinum mínum má svo finna hér á síðunni undir Dýrin mín stór og smá en mér hefur enn ekki tekist að finna leið til að setja myndir inn í færslur hjá mér.

Luxusgella

Her sit eg a fjogurra stjornu hoteli uti a Kanarieyjum i 25 stiga hita og lifid brosir vid mer. Eg er at bida eftir rutu sem mun fara med mig i dyragard tar sem taekifaeri gefst til at sja hvitt ljon og ranfugla leika ymsar listir. Ernir, uglur, falkar og haukar saekja hluti og sendast med ta at beidni tjalfara sins en mer tykir mest um vert at sja tessi fallegu kvikindi up close and personal. Jamm lifid er ljuft.

Dýrafræði eldsnemma að morgni

„Elsku músin mín, komdu hér,“ sagði ég við Freyju um sjöleytið í morgun.

„Skelfing ertu illa að þér í dýrafræði, fóstra mín,“ svaraði Freyja. „Ég er hundur, ekki mús.“


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband