Færsluflokkur: Bloggar

Leitað að fordómum

Inga Lind Karlsdóttir gerði viðtal mitt við Katrínu Friðriks. að umtalsefni í Íslandi í dag í gær.  Við hér á ritstjórninni ákváðum að svara henni og birtist svarið inn á mbl.is. Svar okkar var eftirfarandi.

Vegna umfjöllunar í Íslandi í dag vill h-tímarit taka fram eftirfarandi:

Ástæða þess að klæðaburður Katrínar Friðriksdóttur var gerður að umtalsefni í viðtali við hana var sú staðreynd að hann er óvenjulegur. Hingað til hefur hefðbundin dragt verið einkennisklæðnaður kvenna í viðskiptalífinu og þær ekki teknar alvarlega ef þær kjósa frjálslegri og kvenlegri fatnað. Katrín er ung, falleg kona sem kýs að klæða sig eftir eigin smekk og sú staðreynd að hún er ekki bara tekin alvarlega heldur mikils virt hlýtur að vera ákveðinn sigur fyrir allar konur. Kvennabarátta og jafnrétti snýst um að hver og einn einstaklingur fái að njóta sín á sínum forsendum en þurfi ekki að beygja sig undir einhverjar fyrirfram gefnar hefðir eða hugmyndir til að njóta lífssins.

Hefði Ingólfur Bender eða annar karl í viðskiptalífinu mætt í viðtal í golfbuxum og strigaskóm og sagst vera þannig klæddur í vinnunni dagsdaglega því þannig liði honum best hefði það svo sannarlega verið gert að umtalsefni í blaðinu til marks um persónu sem fer sínar eigin leiðir. h-tímarit telur að með því að klæða sig eftir eigin smekk og jafnvel svolítið stelpulega sýni Katrín Friðriksdóttir að hún er sterkur karakter og líkleg til frekari afreka.

Allir viðmælendur okkar eru spurðir að því hvernig þeim gangi að sameina fjölskyldulíf og krefjandi starf eða áhugamál. Hilmir Snær fær þessa spurningu í janúarblaðinu og Gísli Örn Garðarson er í febrúar spurður hvort hann haldi að nýfædd dóttir hans muni á einhvern hátt verða til að draga úr útrás Vesturports um allan heim. Í sama blaði og Katrín er í fá Bjössi og Dísa í World Class nákvæmlega sömu spurningu. h-tímarit er jafnréttissinnað blað sem gerir sér grein fyrir að bæði karlar og konur eiga fjölskyldur.

h-tímarit kappkostar að sýna jafnréttishugsjónina í verki og bendir á að karlar og konur fá jafnt vægi í blaðinu og leitað er að sterkum jákvæðum konum til að segja frá vinnu sinni og áhugamálum.


Vorið sem kom og fór

Ég fór í göngu með Freyju í morgun í vorlegu og fallegu veðri. Loftið var svalt og á stilltum Arnarnesvognum syntu margæsir og húsendur. Sólin var farin að skína og bjart yfir öllu og ég sá fyrir mér vorhlýindi framundan. Á ljósastaur sat hins vegar bísperrtur sílamávur og hló illkvittnislega. Í fyrstu vissi ég ekki að hverju hann var að hlæja en þegar ég leit út um gluggann rétt fyrir hádegið og sá snjókomuna skildi ég að hann hafði verið að segja mér að fagna ekki of snemma. Í fyrra var ég að leiðsegja hóp Soroptimista um Snæfellsnes þann 20. júní og rútan var stöðvuð efst í toppi brekkunnar á Vatnaleið til að fólk gæti fengið sér kaffi. Þá snjóaði á okkur og fólkið stóð skjálfandi með kaffibollana íklætt lopapeysum, vettlingum og húfum. Nei, það borgar sig ekki að fagna vorkomunni of snemma hér á Íslandi.

Launaleyndin og samstaðan

Loksins er komin af stað umræða um að banna atvinnurekendum að gera þá kröfu til starfsmanna að þeir þegi yfir því hvaða laun þeir þiggja. Á öllum þeim vinnustöðum sem ég hef unnið á hefur mér verið sagt að ég væri yfirborguð. Að laun mín væru yfir töxtum og ég með hærri laun en almennt gerðist á þessum tiltekna stað. Hins vegar hafði ég aldrei nein tök á að sanna eða afsanna þetta og komst fljótt að því að hugsanlega var ég með hærri laun en einhverjar samstarfskvenna minna en ávallt lægri en samstarfsmennirnir. Ég ákvað því snemma að þegja ekki yfir því hvað ég fengi í laun ef það gæti orðið til að hjálpa samstarfskonum mínum að sækja meira og hef aldrei gert það þótt ég hafi verið beðin um það. Þetta var ekki alltaf vinsælt en mér var ekki sagt upp fyrir tiltækið. Ein systra minna vann einu sinni á fjölmennum vinnustað og þar höfðu konurnar með sér samtök um að láta hvor aðra vita ef þær fengu launahækkun. Þessi samstaða varð til þess að þær hógværari í hópnum áttu auðveldara með að sækja sér uppbót á launum. Þær gátu farið með vel rökstudda beiðni um hækkun til yfirmanna sinna og bent á fordæmi í öðrum deildum. Mín skoðun er sú að launaleynd rjúfi alla samstöðu meðal launafólks og geri öllum erfiðara fyrir að sækja sér kjarabætur, bæði körlum og konum. Að mínu mati á atvinnurekandi auðvelt með að rökstyðja val sitt ef hann kýs að verðlauna einhvern starfsmanna sinna. Það er svo auðvelt að benda á meiri afköst, betri vinnuviðveru, meiri reynslu, betri menntun eða önnur verðmæti sem felast í þessum tiltekna starfskrafti umfram aðra. Hvers vegna atvinnurekendur eru svona hræddir við að þurfa að verja mál sitt finnst mér gersamlega óskiljanlegt. Og hvers vegna launafólk er tilbúið að láta draga sig inn í að eiga einhver leyndarmál með vinnuveitanda sínum finnst mér álíka heimskulegt. Ef við erum góð og njótum viðurkenningar fyrir það er þá ekki eðlilegra að viðurkenningin sé opinber?

Konur eru konum bestar

Á stundum er ég ofurviðkvæm. Það er kvenlegur eiginleiki og ég viðurkenni með nokkru stolti en jafnframt ákveðnum pirringi að ég tek gagnrýni nærri mér. Þannig fannst mér sárt að Sylvíu fannst forsíðurnar mínar bera vott um sexist attitude af minni hálfu. Til allrar lukku voru margir ekki sammála henni annars hefði ég áreiðanlega eytt helginni undir sæng nagandi mig í handarbökin fyrir að hafa misst sjónar á jafnréttishugsjóninni. Á hinn bóginn varð ég líka pínulítið reið því ég hef svo oft heyrt þennan frasa: Konur eru konum verstar. Ég get ekki tekið undir þetta. Alla mína ævi hef ég verið umkringd yndislegum konum sem hafa stutt mig á allan hátt og kennt mér svo margt. Þetta segi ég þótt ég eigi mann sem hefur staðið með mér gegnum þykkt og þunnt í 28 ár og sé traustur, góður og fallegur. Ég á líka son sem er engum líkur og hefur gefið mömmu sinni svo margt að marga daga tæki að telja það upp en ég á líka dóttur, yndislega dóttur sem hefur kennt mér að hreinskiptni og heiðarleiki í mannlegum samskiptum borgar sig. Ég á móður sem var gefin slík frásagnargáfa að fólk er tilbúið að koma langt að til að hlýða á hana segja frá. Ég hef tekið hana mér til fyrirmyndar í mínu starfi og veit að ég væri ekki sú sem ég er í dag hefði hún ekki komið til. Ég á systur sem er mín besta vinkona ásamt yndislegri konu sem ég kynntist þegar ég var fimmtán ára. Þessar tvær hafa aldrei brugðist trausti mínu. Ég átti einnig vinkonu á Fróða, gamla vinnustaðnum mínum, sem ávallt var tilbúin að byggja mig upp og hvetja mig. Ég sakna hennar enn þann dag í dag og veit að fullkominn vinnustaður er ekki til án Gurríar. Ég átti líka vinkonur í ömmu æskuvinkonu minnar sem ég kynntist fimmtán ára og konu sem við systur kölluðum ömmu en þessar konur eru báðar látnar. Þær voru gáfaðar, heilsteyptar og frábærar en jafnframt börn síns tíma og opnuðu mér innsýn inn í veröld sem ég held að allar konur þurfi að kynna sér áður en þær lýsa sig jafnrétttissinna. Nefnilega veröld kvenna sem voru aldar upp við fátækt og færri valkosti en er að hafa í dag. Sylvía virðist telja að fötin sem valin voru handa Katrinu Friðriksdóttur á forsíðiðunni hjá mér endurspegli á einhvern hátt vantrú mína á konur. Hún segir að ég sé sexist. Hugsanlega er það rétt en mig langar að benda á eitt. Ég er alin upp í fimm systra hópi. Við fengum allar að njóta góðs af kvenfrelsishugmyndum móður okkar en hún trúði að konur ættu að mennta sig og síst af öllu ættu þær að treysta á útlit sitt til að sjá sér farborða eða einhvern karlmann. Mamma notaði nánast aldrei snyrtiivörur. Hún bar á sig púður og notaði varalit ef hún fór á ball sem var að meðaltali einu sinni á ári. Föðursystir mín sem ég umgekkkst minna notaði hins vegar snyrtivörur mun meira. Það var eins og ég hefði fengið hugljómun í fyrsta sinn sem ég sá snyrtiborðið hennar og ég elskaði hana umfram aðrar konur í nokkrar vikur eftir að hún gaf mér kinnalit, varalit og augnskugga sem ég smurði ótæpilega í andlitið á mér um tíma. Ég elska krem, krukkur, varaliti og gloss. Ég er líka tilbúin til að ganga ansi langt fyrir glæsilegan pels eða flottan kjól. Þrátt fyrir þessar hégómasyndir mínar er ég sannfærð um að ég er ekki síðri jafnréttissinni en systur mínar sem ekki eru hégómagjarnar. Fjórar systur og af þeim er aðeins ein sem málar sig að staðaldri. Hinar eru glæsilegar án þess en þær bera virðingu fyrir mér og telja mig hugsjónamanneskju sem trúir á sömu gildi og þær. Hvers vegna er ég þá að vesenast?

www.htimarit.is

Það er gersamlega óþolandi að geta ekki birt athugasemdir í gegnum þessa tölvu. Ég vona sannarlega að vefstjóra moggabloggsins kveiki á þessu og lagi það. En Katrín mín Snæhólm og aðrir sem vilja kíkja á blaðið á Netinu það er hægt að skoða það á www.htimarit.is.

Konur og klæðaburður

Ég fékk það komment við nýju forsíðuna mína að hún bæri vott um karlæga afstöðu mína til kynhlutverka. Ég varð undrandi á þessu vegna þess að ekkert var fjær mér en karlremba þegar ég ræddi við stílistann um forsíðurnar. Við ákváðum að reyna að láta myndirnar endurspegla fólkið sem var í viðtali. Reynir Harðarson skóp tölvuleikinn Eve online sem gerist meðal annars úti í geimnum þannig að okkur fannst við hæfi að gera hann svolítið geimfaralegan, ekki síst vegna þess að þegar hann byrjaði var hugmynd hans svolítið far out eða speisuð eins og krakkarnir segja. Katrín Harðardóttir er hins vegar ung kona sem náð hefur ótrúlega langt í viðskiptaheiminum og það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég hitti hana var að hún var ekki hrædd við að klæða sig kvenlega jafnvel svolítið stelpulega. Samt nýtur hún gífurlegrar virðingar meðal samstarfsmanna sinna og þeirra sem eiga við hana viðskipti. Klæðaburður er vissulega hluti af táknkerfi samfélagsins og ekki langt síðan að boðskapurinn dress for success var hluti af öllum þeim ótal námskeiðum sem ætlað var að kenna fólki hvernig það ætti að öðlast sjálfstraust og klífa metorðastigann. Í þessu fólst auðvitað að konur áttu að reyna að karlgera sig eins og þær gátu. Dragtirnar svörtu, dökkbláu og brúnu voru einmitt viðleitni í þá átt. Konur reyndu eftir bestu getu að klæða af sér kvenleikann. Mér fannst þess vegna svo ánægjulegt að sjá að Katrín var alls ekki hrædd við að undirstrika glæsilegan og mjög svo kvenlegan vöxt sinn. Hún er sannarlega ekki mjaðma- og brjóstalaus horrengla og hefur ánægju af því að velja föt sem fara vel á líkama hennar og undirstrika hann. Þetta fannst mér sjálfsagt að reyna að endurspegla því að mínu mati er frami kvenna ekki eftirsóknarverður nema að hann sé á þeirra forsendum. Ef konur þurfa að fórna hluta af persónuleika sínum til þess að komast áfram í starfi höfum við til lítils barist í hálfa aðra öld. Boðskapur kvennalistans um að konur væru góðar eins og þær eru og þær ættu erindi út á vinnumarkaðinn, í stjórnmálin og hinn opinbera vettvang einmitt vegna þess hefur alltaf hljómað eins og tónlist í mínum eyrum. Minnumst þess að hjá kvennalistanum mættu konur á fundi með smábörn og gáfu þeim brjóst meðan rætt var um landsins gagn og nauðsynjar. Kvennalistakonur áttu líka til að taka með sér vær ungabörn í tíma í Háskólanum og hika ekki við að gefa þeim brjóst ef á þurfti að halda. Þær prjónuðu líka á borgarstjórnarfundum og í þingsölum. Ég elska konur sem þora að vera konur og vilja vera konur.

Gengisfelling mannslífa

Fyrrum skólafélagi minn Guðni Einarsson skrifar áhugaverðan pistil í Morgunblaðið í dag um blogg og hvernig í skjóli nafnleyndar eða kannski vegna eðlis miðilsins mönnum finnst þeir geta verið stóryrtari og sagt meira en þeir myndu nokkru sinni gera í öðrum fjölmiðlum. Hann nefnir dæmi um líflátshótanir sem erlendum bloggurum hafa borist. Mér finnst hins vegar ekki þurfa komment á bloggsíðum til. Ég hef þá tilfinningu að mannslífið hafi verið gengisfellt á ákveðinn hátt á undanförnum árum. Kannski vegna ofbeldismynda og sjónvarpsþátta þar sem ótal einstaklingar eru strádrepnir fyrir augun á okkur þykir ekki lengur eins alvarlegt að segja við fólk eitthvað á borð við: Það ætti bara að skjóta þig. Þegar ég var barn var það lokaúrræðið þegar fokið var í öll skjól og maður gersamlega búinn að missa stjórn á sér vegna stríðni eða áreitni að maður hreytti í einhvern annan: Ég skal drepa þig. Eftir á var eins og köld hönd gripi um hjartað og manni fannst maður hafa verið óskaplega áræðinn og gengið fjarskalega langt. Núorðið heyri ég oft fólk hafa gróft ofbeldi í flimtingum og jafnvel tala um að það sé ásættanlegt að samfélagið beiti því í refsingarskyni. Til að mynda er algengt að eftir að sagðar eru fréttir af að komist hafi upp um barnaníðinga að heyra yfirlýsingar eins og: Það ætti bara að skera undan þessum perrum. Það ætti að hengja þá alla í hæsta gálga þessa barnaníðinga, þeir eru óforbetranlegir. Eru þeir sem hafa orðið fyrir barðinu á þessum mönnum eitthvað bættari ef þeir eru teknir af lífi? Verður samfélagið betra við það? Sennilega ekki en víst er að karlmönnum myndi fækka umtalsvert á Íslandi ef tekið er tillit til þess að samkvæmt könnunum verður þriðja hvert stúlkubarn og fjórði hver drengur fyrir kynferðislegri misnotkun af einhverju tagi. Ég hef líka heyrt menn lýsa því yfir að eiturlyfjasala eigi að taka af lífi og það helst án dóms og laga. Hvers vegna ætli þetta sé? Ég finn ennþá kaldan hroll hríslast um mig þegar ég heyri fólk tala svona því mér finnst eitthvað kaldlynt við að geta talað á þennan veg um líf annars manns sama hversu brotlegur hann hefur gerst.

Smásjálfsauglýsing

Ég er með makka heima og af einhverjum ástæðum fæst hann ekki til að birta athugasemdir hér á Moggablogginu. Mig langaði að benda Heiðu á að h-tímarit er frítt og því er dreift í Hagkaupsverslunum, á Essó-stöðvum og í Bónusvídeó. Kíkið endilega eftir blaðinu og takið ykkur eintak.

Nýtt h-tímarit

Nýjasta tölublað h er komið út. Forsidur

Þjóðkirkjan og snældusnúðurinn

Um daginn las ég bloggfærslu Bjarna Harðar. þar sem hann dáist að hófstilltu trúboði og ráðvendni þjóðkirkjunnar íslensku. Ég nenni svo sem ekki að elta ólar við hitt og þetta sem hefur misfarist hjá þeirri blessuðu kirkju en minni á að þegar prestar geta ekki setið á sátts höfði við sóknarbörn sín eða verða uppvísir af ýmsum brestum hafa þeir verið óþreytandi að minna á að mennirnir séu breiskir en stofnunin standi eftir sem áður óbrotin. Ýmislegt kann að vera til í því en við verðum að horfast í augu við að sífellt vaxandi hluti landsmanna vill ekki tilheyra þessari stofnun og kærir sig lítt um að halda henni gangandi með fjárframlögum. Í lýðræðisþjóðfélagi sem kennir sig við trúfrelsi er einnig beinlínis rangt að trúarstofnun skuli vera ríkisstofnun meðan önnur trúfélög njóta ekki sambærilegra kjara. Hins vegar reka forsvarsmenn kirkjunnar ævinlega upp mikið ramakvein þegar talað er um aðskilnað ríkis og kirkju og segja að verði skilið á milli þurfi menn að gera upp kirkjujarðirnar sem látnar voru ganga til ríkisins gegn því að það borgaði laun presta. Þetta hljómar einhvern veginn alltaf eins og hótun úr munni þeirra en ég skil ekki hvers vegna það þarf að vera vandamál. Jarðir eru metnar til ákveðins verðs og einhvern tíma hlýtur það að vera fullgreitt nema það gildi það sama um kirkjujarðir og snældusnúð kerlingar forðum sem reyndist Kiðhús dýr og þótti honum seint fullborgaður snúðurinn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband