Færsluflokkur: Bloggar

Að hengja bakara fyrir smið

Fréttir berast nú af því um heimsbyggðina að sala á megrunarlyfjum hafi dregist saman eftir dauða Önnu Nicole Smith. Enn hefur dánarorsök ljóskunnar lánlausu ekki fengist upp gefin svo varla geta menn kennt megrunarlyfjum um dauða hennar nema þá óbeint. Einhvern veginn er líklegra að önnur lyf sem hún notaði víst í umtalsverðu magni hafi þar ráðið úrslitum fremur en brennslutöflurnar. Kannski ber samt að líta þetta jákvæðum augum og telja alla umræðu gegn megrunarsýki samfélagsins af hinu góða. Vonandi fylgir þá í líka í kjölfarið mikil flóðbylgja feðra sem vilja vera jafnábyrgir og þessir sem bíða nú í röðum eftir að færa fyrir því sönnur að þeir eigi Dannielynn litlu.

Ljóminn er ljómandi góður

Ég er á hugleiðslunámskeiði og í gærkvöldi hélt Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur fyrirlestur um gjörhygli/íhugun og sálfræðileg áhrif hennar á manneskjuna. Fyrirlesturinn var óskaplega áhugaverður en af því að mannshugurinn hleypur sífellt út og suður týndi ég mér oft og iðulega í tungutaki Önnu og hlustaði þá ekki lengur á inntak orða hennar heldur orðin sjálf. Ég veit að þetta þarf ég að útskýra betur. Anna talar afskaplega fallega íslensku en stundum er tungutak hennar dálítið fornt. Einu hjó ég sérstaklega eftir og það var að hún notar oft lýsingarorðið ljómandi bæði til áherslu og eitt og sér. Þetta orð man ég ekki eftir að hafa heyrt nokkurn mann nota síðan í sveitinni hjá ömmu. Það var fyrir fjörutíu árum. En Anna talaði um að þetta væri ljómandi gott, ljómandi þægilegt eða bara ljómandi. Allt í einu rann upp fyrir mér þar sem ég sat á mínum púða í hugleiðslusalnum að þetta er bara alveg ljómandi orð og sjálfsagt að nota það. Alltaf leggst manni nú eitthvað til og nú er ég einu orði ríkari. Ljómandi!

Ójarðnesk birta

Hafið þið tekið eftir birtunni í ljósaskiptunum undanfarna daga? Ójarðnesk fegurð er lýsingin sem kemur upp í hugann þó ég skilji nú ekki alveg hvernig hægt er að tala um að jarðnesk fyrirbæri séu ójarðnesk. Kannski fannst fólki að sumir hlutir væru svo fallegir að þær ættu tæpast við hér í þessu guðsvolaða mannlífi og væru því meira skyldir sæluríkinu á himnum. En hvernig sem því er nú háttað þá er þessi birta svo heillandi að ég stend stokkfrosin uppi á Víghól á hverju kvöldi og stari á himininn. Neðst er eldrauður bekkur og þar fyrir ofan roðagyllt geislaflóð sem smátt og smátt deyr út í grábláma og stöku dimmblá ský sveima yfir öllu. Í fjarska stilla sér svo upp á aðra höndina Snæfellsjökull með hvítan topp en á hina grá og tignarleg Grindaskörðin. Já, svona lítur himininn áreiðanlega út allan sólarhringinn í ævintýralandinu.

Himnaríkisvist

Ég komst inn í Himnaríki í gær en hafði ef satt skal segja ekki gert mér neinar vonir um gullna hliðið lykist nokkru sinni upp fyrir mér. Ástæðan fyrir því hve leiðin var greið er sú að Gurrí mín, sem aldrei hefur mátt neitt aumt sjá án þess að vilja líkna, var við dyrnar en ekki hinn strangi Lykla-Pétur. Við Svava skelltum okkur sem sagt á Skagann og skemmtum okkur vel. Helen var með í för og varð sykurlaus á Kjalarnesi. Við keyrðum fullhratt það sem eftir var leiðarinnar við Svava til að komast í sjoppu og kaupa kók handa systur okkar sem datt út af og til í aftursætinu. En Gurrí var nú fljót að fá mann til að gleyma svoleiðis smáatriðum. Kaffið var frábært og félagsskapurinn fyrsta flokks en vinkona Gurrí kom einnig í heimsókn til að hleypa meira fjöri í umræðurnar. Við urðum líka meðal þeirra fyrstu sem heimsóttu nýtt kaffihús Skrúðgarðinn á Akranesi en þar er skemmtileg stemmning og innréttingarnar einmitt að mínum smekk. Það verður örugglega gaman að koma þarna í sumar því húsnæðið er svo bjart og skrúðgarður Akurnesinga fyrir aftan.

Armur laganna

Ég var að fletta Mogganum mínum í morgun þegar ég rakst á áhugaverðan uppslátt eða þá fullyrðingu að fólki sem þarf á gervilimum að halda er gert að skila vottorði frá geðlækni. Ah! Grundvallaratriði, hugsaði ég. Auðvitað verður að koma í veg fyrir að fólk sem haldið er óstöðvandi löngun til að hafa átta arma eins og kolkrabbi nái að svíkja út úr Tryggingastofnun hvern handlegginn á fætur öðrum. Svo eru örugglega til menn sem vilja svindla á ólympíuleikum fatlaðra og hlaupa ekki á tveimur jafnfljótum heldur tíu mismunandi löngum. Svo las ég greinina. Nei, geðlæknisvottorðið er ekki til að hindra svo augljóst svindl heldur til þess að fá fyrir því sönnur að félagsleg einangrun fylgi því að fólk fái ekki nýjustu og bestu gervilimi á markaðnum. Þannig að ef þú ert fótalaus en vinmörg er þér ekki ofgott að staulast um tréfótum rétt eins Long John Silver hér á árum áður. Hann var reyndar illmenni og átti fáa að svo TR hefði rétt honum tölvustýrðan fót án frekari málalenginga. Long John var hins vegar skáldsagnapersónu og því lítil hætta á að íslenska ríkið verði fátækara hans vegna. En hverslags eiginlega heimskuþvaður er þetta. Hverjir semja svona fíflareglur? Við erum ríkt samfélag og sjálfsagt að þeir sem búa við fötlun hér á landi njóti umsvifalaust góðs af tækninýungum. Það á ekki einu sinni að þurfa að ræða það hvað þá að afla einhverra vottorða umsókn þessara einstaklinga til stuðnings. Þetta er álíka heimskulegt og þegar Helen systir var gert það árum saman að mæta með vottorð um að hún væri með sykursýki I í hvert skipti sem hún sótti um endurgreiðslu á kostnaði vegna ýmislegs sem til féll vegna sjúkdómsins. Hún fékk lyfin sín frítt en það sem þurfti til að hún gæti mælt blóðsykur og sprautað sig var endurgreitt tvisvar á ári og þá þurfti læknisvottorð. Já, þeir ætluðu sko að sjá til þess að ef hún læknaðist fyrir tilstilli kraftaverks þá fengi hún ekki krónu umfram það sem henni bar frá íslenska ríkinu. Og ég sem hélt að læknar og sérfræðingar TR væru hámenntaðir og gáfaðir menn.

Að missa flösku eða missa ekki flösku

Ég var að horfa á breskan sakamálaþátt Draugasveitina í Ríkissjónvarpinu í gær. Þetta er ágætur þáttur en mikið skemmti ég mér konunglega þegar á skjánum birtist unaðsleg þýðing. Ein persónan var að ræða við aðra um ástæður þess að málið sem lögreglusveitin var að vinna að fór allt í hina verstu flækju og að hallinn niður á við hafi byrjað  „... after Billy lost his bottle.“  Þetta var þýtt „eftir að Billy missti flöskuna.“ Hins vegar er augljóst að hér er átt við að Billy hafi misst kjarkinn. Æ! mikið væri lífið fátækt ef ekki kæmu af og til svona stórkostlega þýðingar í sjónvarpi.

Allt vald spillir

Alveg er það merkilegt hvað valdið spillir manninum. Eiginlega má segja að því meira vald sem einstaklingi er gefið yfir öðrum því viðbjóðslegri verður misnotkun hans á valdinu. Þrjú dæmi um þetta eru einmitt mjög augljós okkur Íslendingum nú. Fyrst misnotkun Guðmundar í Byrginu á skjólstæðingum sínum sem er sérlega ógeðfelld í ljósi þess að um var að ræða stúlkur sem allar höfðu mátt þola kynferðislegt ofbeldi í mismiklum mæli. Það er því miður alveg öruggt að stúlkur sem hafa verið í mikilli eiturlyfjaneyslu hafa verið misnotaðar á margan hátt af bæði dópsölum og félögum sínum. Einhvern veginn finnst manni enn andstyggilegra að menn skuli geta hugsað sér að níðast á þeim sem þegar er búið að misþyrma á andstyggilegan hátt. Það er eins og sagan af kennaranum sem barði strákana í bekknum af því þeir voru hvort sem er barðir heima hjá sér. Annað dæmið er svo kynferðisbrot sem framinn voru á heyrnarlausum í trausti þess að þeir gætu ekki sagt frá og kynferðisbrotamennirnir sem Kompás veiddi í gildru en þessir menn notfæra sér sakleysi og reynsluleysi ungra stúlkna til að tæla þær til sín og misþyrma þeim. Og að lokum er það þetta hroðalega ofbeldi og viðbjóður sem viðgekkst á unglingaheimilinu á Breiðavík. Vissulega er Ísland ekki einsdæmi og alls staðar í heiminum eru dæmi um slíkt. En það gerir þetta ekki betra. Ég er farin að halda að við megum aldrei undir nokkrum kringumstæðum gefa neinum manni vald yfir öðrum því ekki er annað að sjá en það endi alltaf á einn veg.

Þyngdarleysið og ástin

Alveg dásamleg frétt var birt á mbl.is í dag. Þar sagði frá kvengeimfara sem reyndi að ræna konu sem hún taldi keppinaut sinn um ástir geimstráks nokkurs sem unnið hafði með báðum. Í viðleitni sinni til að fremja hinn fullkomna glæp ferðaðist konan langan veg með bleiu til að þurfa ekki að stoppa og sinna þörfum náttúrunnar og þar með búa til væntanleg vitni að ferðum sínum. Hún setti síðan upp hárkollu og fylgdi fórnarlambi sínu eftir í þeim dularbúningi allt þar til hún réðst á það á bílastæði fyrir utan flugvöll. Þegar lögregla handtók þennan ástsjúka geimfara var hann vel vopnaður piparúða, kylfu og gott ef ekki rafmagnsbyssu. Kona þessi fór í ferð með geimferjunni Discovery og nú veltir maður fyrir sér hvort síðasta glóran í kollinum á henni hafi svifið út um eyrun í þyngdarleysinu. Blessuð manneskjan er víst gift og þriggja barna móðir. Mikið skelfing hlýtur að vera gaman að vera dóttir eða sonur hennar þessa dagana.

Nauðsynleg viðbót við barnaverndarlög

 Mörgum finnst mannanafnanefnd óþörf og það kann vel að vera að svo sé en það ætti að varða við barnaverndarlög að skíra börnin sín öðrum eins ónefnum.

Eggrún Bogey
Oddfreyja Örbrún
Dúfa Snót
Ljótunn Hlökk
Himinbjörg Hind
Randalín Þrá
Baldey Blíða
Bóthildur Brák
Loftveig Vísa
Þúfa Þöll
Þjóðbjörg Þula
Stígheiður Stjarna

Skarpheiður Skuld

Kormlöð Þrá
Ægileif Hlökk
Venus Vígdögg
Hugljúf Ísmey
Ormheiður Pollý
Geirlöð Gytta
Niðbjörg Njóla

DRENGJANÖFN:


Beinteinn Búri
Dufþakur Dreki
Hildiglúmur Bambi
Fengur Fífill
Gottsveinn Galdur
Grankell Safír
Kaktus Ylur
Þorgautur Þyrnir

Melkólmur Grani
Ljótur Ljósálfur
Náttmörður Neisti
Hlöðmundur Hrappur
Hraunar Grani
Ráðvarður Otur
Reginbaldur Rómeó
Kópur Kristall
Þangbrandur Þjálfi
Sigurlás Skefill
Þjóðbjörn Skuggi


Endurminningin er svo glögg

Það telst tæpast til tíðinda í dag þótt fólk skilji en annað var uppi á teningnum fyrir rúmri öld, eða nánar tiltekið árið 1835, en það ár er fært í kirkjubók Grenjaðarstaðar við nafn Guðnýjar Jónsdóttur undir athugasemdum við brottflutta úr sókninni: „kastað úr hjónabandi saklausri af manni hennar." Þetta er undarleg færsla í kirkjubók og tæpast hlutlaus. Þótt kirkjubækur þegi oft um atburði sem sagnfræðingum þykja mikilsverðir segir þessi færsla okkur að skilnaðurinn er að frumkvæði eiginmannsins og konunni hann á móti skapi. Að baki liggur greinilega einhver merkileg saga.

Guðný var dóttir séra Jóns Jónssonar frá Stærra-Árskógi. Æskuheimili hennar var talið einstakt menningarheimili og þau systkinin gefin fyrir fagrar menntir. Guðný var sögð falleg, fíngerð og einstaklega vel gefin. Hún hafði yndi af tónlist og söng og var skáldmælt. Auk þess var hún örlát og blíðlynd og kom sér að jafnaði ákaflega vel hvar sem var vegna þeirra eðliskosta.

Sveinn Níelsson var talin gáfaður og glæsilegur. Hann leitaði til Jóns föður Guðnýjar vegna heilsubrests, en hann þótti slyngur læknir, og réði sig í vist að Stærra-Árskógi til að leita sér lækninga. Brátt tók að bera á því að hann og Guðný væru farin að draga sig saman og eftir að Sveinn var vígður djákni til tengdaföðurs síns og var síðasti maður sem hlaut djáknavígslu í lútherskum sið á Íslandi þar til á tuttugustu öld. Þegar Sveini var veittur Grenjaðarstaður giftust þau. Á Grenjaðarstað dvöldu ungu hjónin aðeins ár en þá fluttu þau að Klömbrum og var Guðný að jafnaði kennd við þann bæ.

Með ungu hjónunum þótti jafnræði og sennilega hafa flestir talið að björt framtíð biði þeirra. Séra Sveinn var atorkumaður og búmaður góður. Hann var góður smiður og hafði lært silfursmíði hjá Þorgrími gullsmið á Bessastöðum, föður Gríms Thomsen. Sveinn var góður kennari og  oft beðinn að búa nemendur undir skóla. Þau hjónin komust því vel af efnalega þrátt fyrir að það orð lægi á að séra Sveini að honum þætti rausn húsmóðurinnar og hjálpfýsi fullmikill á stundum.

Ekki var sambúðin þó með öllu áfallalaus því á fyrstu hjúskaparárunum misstu þau hjónin tvö börn sem þau treguðu mjög, eins og saknaðarljóð sem þau ortu bera vitni um. Stundum færir sorgin fólk nær hvort öðru en í sumum tilfellum sundrar hún. Ómögulegt er að segja hvort sú hafi orðið raunin með þau Guðnýju og Svein en síðar eignuðust þau tvö börn saman sem lifðu og náðu fullorðinsaldri.

Sjaldan lýgur almannarómur segir máltækið og það var haft á orði um séra Svein að hann liti sjálfan sig ósmáum augum og þyldi það illa þætti honum minna úr sér gert en efni stæðu til. Guðnýju var á annan veg farið. Hún gerði gjarnan grín að sjálfri sér og þótti alþýðleg og blátt áfram. Þrátt fyrir ólíka skapgerð varð þess þó aldrei vart að þeim kæmi illa saman eða að erfiðleikar og brestir væru í hjónabandinu. Sennilega hafa menn uppgötvað þennan mismun  eftir á og tínt til allar þær ástæður sem þeim gat hugkvæmst til að skýra skilnað sem þótti óskiljanlegur.

Guðný var svo vinsæl af almenningi og öllum sem kynntust henni að menn töldu gjarnan að stórlæti séra Sveins hafi mestu ráðið um skilnaðinn og að hann hafi átt bágt með að þola hve mjög kona hans bar af honum að mannkostum og gáfum. Þegar Guðný dó svo ári eftir skilnaðinn var það einróma álit allra að sorg hennar vegna hans hafi dregið hana til dauða. Þannig er skráð í kirkjubók Grenjaðarstaðar í dánarskránni að hún hafi látist „...af sjúkdómi orsökuðum af skilnaðargremjunni." Dómar almennings lögðust þungt á mann hennar. Bjarni amtmaður Thorarensen kallar hann þræl í bréfi til vina sinna og Tómas Sæmundsson segir í grein í 3. árgangi Fjölnis: „Einnar konu er skylt að minnast meðal þeirra, er önduðust þetta ár, því þó lítt hafi hennar gætt verið - eins og vandi er um konur - voru samt kjör hennar og gáfur íhugunarverðari en almennt er á Íslandi...." Síðar segir hann:  „Hún þótti álitlega gift, er djákninn á Grenjaðarstað, gáfumaður og atgervis, hafði fengið hennar, og aungvan hafði grunað, að hann mundi sjá sig það um hönd, eftir níu ára samvistir, að hann vildi breyta þessu, eins og hann gerði. Fór hann þá vestur í Húnavatnssýslu að brauði sem búið var að veita honum; tók vígslu; og er nú giftur aftur! en hún fór með mági sínum og systur norður á Raufarhöfn og má vera, að þetta hafi hana til bana dregið."

Þetta sýnir betur en flest annað hverjum augum séra Sveinn var almennt litinn en vitað er að Guðný tók skilnaðinn ákaflega nærri sér. Hún orti um sársauka sinn ákaflega fallegt kvæði sem hún sendi í bréfi til Kristrúnar systur sinnar á Grenjaðarstað. Kvæðið var birt í Fjölni og varð landfleygt á örskömmum tíma. Upphafserindi kvæðisins er svohljóðandi:

Endurminningin er svo glögg

um allt það, sem í Klömbrum skeði,

fyrir það augna fellur dögg

og felur stundum alla gleði.

Þú getur nærri, gæskan mín,

Guðný hugsar um óhöpp sín.

Síðar í sama kvæði segir hún:

Það er ekki svo þægilegt,

þegar vinanna bregzt ágæti,

hjartanu svíður, heldur frekt,

hamingjan sýnist rýma sætin

inndælar vonir fjúka frá,

fellur skemmtunin öll í dá.

Hún stynur yfir hve hugprýðin sé smá og hversu erfitt sér reynist að horfa fram á daginn á hverjum morgni. Hún segist þó hjara á daginn og hljóta hvíld í svefninum á kvöldin. Guðný orti einnig annað kvæði um skilnaðinn sem heitir Sit ég og syrgi. Hluti af upphafserindi þess hljóðar svo:

Sit ég og syrgi mér horfinn

sárt þreyða vininn,

er lifir í laufgræna dalnum

þótt látin sé ástin.

Séra Sveinn giftist í annað sinn Guðrúnu Jónsdóttur sama ár og Guðný dó eins og kemur fram í grein Tómasar. Það hjónaband var farsælt og áttu þau nokkur börn. Seint verður hægt að komast að niðurstöðu um hvað olli í raun og veru skilnaði þeirra Guðnýjar og Sveins og víst er að konan, sem sagði að það væri svo margt milli hjóna sem enginn sæi, vissi jafnlangt nefi sínu. En hitt er vitað að Sveinn talaði ævinlega vel og hlýlega um fyrri konu sína.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband