Færsluflokkur: Bloggar

Af hattaáti og annarri áráttu

Jæja ég losna við að éta hattinn minn því Forest Whitaker fékk óskarinn. Ég hafði lofað því hér á þessari síðu að snæða þetta þarfaþing mitt ef Forest fengi ekki styttu með sér heim. Svava systir var búin að lofa að sitja yfir mér þar til hver einasta ullararða úr hattinum væri snædd en segja má að þarna hafi skollið hurð nærri hælum og ég get staðið upp og haldið óskarþakkarræðu líka og þakkað akademíunni fyrir að velja rétta manninn. Ég er nokkuð gjörn á að lofa svona upp í ermina á mér líkt og herra Wilkins Micawber í David Copperfield. Wilkins hafði sjaldnast rétt fyrir sér og hefði því, ef alls réttlætis hefði verið gætt, átt að éta þónokkuð marga hatta. Hann slapp vegna þess að hans nánustu kusu að sleppa honum við að standa við stóru orðin. Ég veit hins vegar að Svava hefði ekki sýnt mér nokkra miskunn.

Sterastríðið í Neðstutröðinni

Dóttir mín hefur í vetur þjáðst af þurrkexemi í andliti og frostið í janúar jók mjög á þjáningar hennar. Við fengum þær upplýsingar hjá lækni að auðvelt væri að eiga við þetta með tiltölulega mildu sterakremi sem fæst lyfseðilslaust í apótekum. Við keyptum auðvitað umsvifalaust túpu en urðum fremur undrandi þegar í ljós kom að tíkin Freyja sótti stíft í sterana og ef túpan lá einhvers staðar á glámbekk greip hún hana umsvifalaust og nagaði í sundur. Ótótlegar leifar af áltúpunni fundust svo einhvers staðar í íbúðinni og við forsjármenn tíkurinnar urðum að hlaupa í næsta apótek eftir nýrri túpu handa arfareiðri ungri stúlku. Þegar túpunum, sem fóru forgörðum á þennan hátt, fór fjölgandi hófst mikið stríð við að halda tík og túpu sem lengst frá hvor annarri. Túpunni var komið fyrir hátt uppi í hillu inni í herbergi og herberginu harðlokað væri þar enginn íbúi. En allt kom fyrir ekki. Stundum gleymdist að henda túpunni í hæstu hæðir og iðulega var herbergið skilið eftir opið meðan skotist var í sturtu og þá var gula hættan ekki sein á sér að skjótast inn og ná sér í eitthvað að narta í. Hún skreið síðan undir hjónarúm með ránsfenginn og næst þegar sópað var í svefnherberginu birtust tætingslegar túpur, tappar og önnur sönnunargögn. Ég hélt hins vegar að með hækkandi sól og ögn hlýrra veðri færi að draga úr þessari óværu hér á bæ en öðru er nær. Í morgun birtist dóttir mín á þröskuldinum hjá mér og sagði með hyldjúpri ásökun í augunum: Hefur þú fundið einhverjar ónýtar sterakremstúpur nýlega. Ég finn nefnilega ekki sterakremið mitt og ég þarf á því að halda. Nú þori ég ekki að sópa svefnherbergisgólfið. P.S. Fyrir Svövu systur og aðra dýraverndunarsinna. Það er enga breytingu að sjá á tíkinni þrátt fyrir að hafa innbyrt ómælt magn af sterakremi. Hún hefur ekki þykknað, skapstyggð er ekki til í henni og hvergi vottar fyrir aukahárvexti. Rödd hennar hefur heldur ekki breyst.

Að hefja sig upp fyrir meðalmennskuna

Umræðan um ofbeldi og áhrif þess á barnssálina hefur verið mikil í þjóðfélaginu í kjölfar Breiðavíkur og Byrgismála. Margir stíga fram og nefna til sögunnar að svo og svo margir hafi nú orðið fyrir öðru eins en staðið sig ágætlega í lífinu og orðið nýtir þjóðfélagsþegnar. Það er alveg rétt og það verða alltaf til einstaklingar sem tekst að hefja sig yfir alla erfiðleika og sigrast á þeim en rannsóknir sýna hins vegar að þar eru sjaldnast á ferð meðalmenn. Það einkennir alla jafna þetta fólk að það er annað hvort afburðagreint eða hæfileikaríkt á einhverju sviði. Sumum gefst einnig tækifæri til að vinna úr hinni vondu reynslu einhvern tíma á ævinni og þá venjulega með hjálp einhvers einstaklings eða einstaklinga. Oft finnast líka í fortíð þessara afburðamanna einhverjir sem hafa sýnt þeim umhyggju og ástúð og reynt að verja þá eftir bestu getu. Hvort þeirra naut við lengur eða skemur ræður svo úrslitum um hversu mikið áhrifa þeirra gætir. Það er nefnilega staðreynd að kennarar og kerfisstarfsmenn eru mannlegir og laðast fremur að þeim sem hafa óvenjulega margt til síns ágætis og leggja sig í líma við að hjálpa þeim meðan þeir ógeðfelldari sem hugsanlega eru í uppreisn gegn umhverfinu eru útskúfaðir. Í raun er mjög óréttlátt að taka síðan venjulega einstaklinga sem ekki hafa sömu úrræði eða þá hæfni sem hinir hafa til að bera og krefjast þess að þeir sýni samskonar árangur. Venjulegt fólk þarf stuðning og það eru innan við 10% mannkyns sem geta hafið sig upp yfir meðalmennskuna ef svo má segja algerlega upp á eigin spýtur. Við hin fáum einhvers staðar á leiðinni hjálp hvar sem við annars stöndum og hvort sem bernska okkar var sælutíð eða beiskur biti.

Sniðklipping að hætti Britney Spears

Á Mbl.is er nú að finna frétt um að Justin Timberlake sé bara reglulega hrifinn af sniðklippingu Britney Spears. Mér finnst sniðklipping hljóma vel þannig að ég ætla biðja hárgreiðslukonuna sem ég fer til í fyrramálið að sniðklippa mig að hætti Britney.

Forest Whitaker fær óskarinn

Ég sá myndina The Last King of Scotland í gær og var bókstaflega eins og kýld ofan í sætið á eftir. Myndin er mögnuð og Forest leikur þetta frábærlega. Ef hann fær ekki óskarinn fyrir þessa mynd skal ég éta hattinn minn. Ég var líka heilluð af James McAvoy sem lék Nick Garrigan. Persónan var það áhugaverð að ég fletti upp á Netinu í dag og komst að því að hún var ekki til í raunveruleikanum en var búin til af rithöfundinum Giles Foden sem hefur skrifað mikið um Afríku.

Stinningarlyf og sterar

Nýlega bárust af því fréttir að tollurinn náði að stöðva eitt mesta magn af sterum sem reynt hafði verið að smygla hingað og í gær var sagt frá því að stinningarlyf hafi verið stöðvuð á leið sinni bakdyramegin inn í landið. Það er alþekkt að steralyfjanotkun fylgja þær aukaverkanir að eistu karlmanna minnka og löngun þeirra til kynlífs sömuleiðis. Nú getur maður ekki annað en velt fyrir sér hvort stinningarlyfið hafi verið ætlað steratröllunum.

Byrgismaður

Eins og alþjóð veit (eða a.m.k. þeir sem þekkja mig) þá er ég sjúk í krossgátu Morgunblaðsins og bíð titrandi af spenningi alla laugardaga eftir að fá hana í hendurnar. Aumingja blaðburðarbarnið hefur iðulega þjáðst af óstöðvandi hiksta seinni part laugardags vegna þess að mér er farið að lengja eftir Mogganum og vanda því ekki kveðjurnar. Ég ber samt enga ábyrgð á ástandi stúlkubarnsins í Bandaríkjunum sem þjáðst hefur af hiksta í á þriðja mánuð. Jæja þá er þessum gersamlega tilgangslausa inngangi lokið og ég komin að kjarna málsins. Í krossgátunni var sem sagt spurt um orð yfir friðil og vísbendingin sagði að hann tengdist þekktu meðferðarheimili. Svarið var sem sé byrgismaður. Þetta vissi ég og gat svarað umsvifalaust því sonur minn, sá gáfumaður, hafði rekist á þetta og ekki bara það heldur að Al Qaeda þýðir byrgi á arabísku. Hann er alinn upp af móður sinni og var því viss um það þetta væri engin tilviljun heldur ein af þessum vísbendingum sem alls staðar leynast í heiminum og enginn er fær um að lesa fyrr en of seint. Hann skrifaði um þetta langa og lærða athugasemd en bloggerinn neitaði að birta hana þannig að ég er ekki sú eina sem verð að þola ritskoðun hér.

Neydd til dónaskapar

Ég gerði mitt besta til að svara athugasemd Guðnýjar Önnu við fyrri færslu en bloggerinn vildi ekki samþykkja þetta eða senda þannig að ég ákvað að reyna að fara þá leið að gera nýja færslu. Ef þetta tekst ekki þá hef ég orðið fyrir grófri ritskoðun eða að verið er að benda mér á að ég ætti að skammast mín fyrir sóðalegar ritsmíðar. En hér kemur þetta sem sé og ég hef verið neydd til að birta dónskapinn.

Já, svona geta nú meistaraverkin glatast. Eiginlega finnst mér að í tilfellum sem þessum eigi hringjandinn að vera skaðabótaskyldur. Mér datt hins vegar í hug vísa eftir að hafa endurraðað aðeins í fyrstu línunni. Hún er svona:
Allur vindur er úr mér
ekkert lengur gaman
Aðrir úti að skemmta sér
að aftan bæði og framan.
Síðasta línan er hins vegar svo tvíræð að maður birtir hana ekki á virðulegu bloggi.


Úr mér er allur vindur

Um leið og ég skrifaði þessa fyrirsögn þá datt mér í hug að þetta væri fyrirtaks byrjun á vísu en þar sem að úr mér er allur vindur og ég er búin að vera ákaflega andlaus í allan dag þá held ég að reyni ekki að berja saman einhverri vitleysu. Það bíður því betri tíma.


h-tímarit komið út

Nýja blaðið mitt er komið út. ForsidurÞetta er flottasta forsíðan mín til þessa. Æði. Kíkið inn á www.htimarit.is

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband