Færsluflokkur: Bloggar

Meinleg uppákoma

Eftir hádegi í dag þurfti ég að sitja fund sem teygðist nokkuð lengur en ég átti von á. Þannig háttaði til á fundarstaðnum að ekki var hægt að komast þar á klósett. Ég hafði nýlega innbyrt hádegisverð og kaffi á eftir þannig að fljótlega fór ég að finna allóþyrmilega fyrir því að mig langaði að heimsækja hreinlegt postulínstæki af þeirri tegund sem enginn getur verið án. Fundurinn hélt svo áfram að dragast á langinn og erindi mitt á þennan friðsæla stað varð sífellt brýnna. Loksins lauk þessum ósköpum og ég bókstaflega flaug út í bíl. Ég keyrði í loftköstum upp í vinnu og skreið í keng út úr bílnum og inn á klósett, skíthrædd um að pissa hreinlega á mig. Mikið lifandis ósköp og skelfing var það góð tilfinning að setjast á salernið og losa mig við vökvann. Ég þarf sennilega ekki að fjölyrða um það því allir sem einhvern tíma hafa reynt eitthvað viðlíka skilja mig.

Hin hamingjusama hóra!

Ég verð alltaf jafnhissa á hversu lífsseig mýtan um hina hamingjusömu hóru er. Í 24 stundum í dag er viðtal sem Kolbrún Bergþórsdóttir tók við Guðmund Ólafsson. Þar segir: „Mér finnst hlægilegt þegar athyglissjúkir femínistar fara að berjast gegn klámi og vændi. Er eitthvað að því þótt fólk hafi gaman af að horfa á dónalegar myndir? Það er prívatmál. Vændi er fyrst og fremst kynlíf fátæklinga. Klám er kynlíf þeirra allra fátækustu sem hafa ekki einu sinni efni á því að kaupa sér vændi.“ Hér eru nokkrar staðreyndir til umhugsunar fyrir fátæklinga sem kaupa sér klám og vænd.

1 Í engum starfsgreinum eru sjálfsmorð jafntíð og í klám- og vændisiðnaði. Þar munar meira að segja gífurlega miklu á næstu starfstétt fyrir neðan.
2. Vímuefnanotkun er ekki eins almenn í neinum öðrum iðnaði.
3. Yfir 80% þeirra sem starfa í klám- og vændisiðnaði hafa orðið fyrir einhvers konar kynferðisofbeldi.
Þetta byggir á rannsóknum sem gerðar hafa verið í Bretlandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð.
Konur frá fyrrum austantjaldsríkjum sem bjargað hefur verið úr kynlífsánauð á Vesturlöndum hafa hræðilegar sögur að segja. Meðal annars að kúnnarnir fóru sínu fram þótt þær grétu allan tímann og kvörtuðu við dólgana yfir því hversu leiðinlegar þær væru. Það þýddi barsmíðar. Nokkrar höfðu beðið kúnnana að leyfa sér að nota farsíma sem þeir voru með en þeir neituðu á þeirri forsendu að dólgurinn hefði bannað þeim það. Og það þarf ekki konur í ánauð til. Ung íslensk stúlku sem leiddist úti í vændi vegna fíkniefnaneyslu drap sig vegna þeirrar hræðilegu reynslu sem henni tókst aldrei að komast yfir eða jafna sig á.

Sjaldan hef ég verið jafnhreykin af syni mínum og þegar hann sagði í umræðu um nektarstaði. „Ég gæti ekki hugsað mér að fara á svoleiðis staði því hvernig veit ég hvort stúlkan sem dansar á sviðinu er ein af þeim sem nýtur starfsins eða úr hópnum sem neyðst hefur út í það. Ég get ekki greint þar á milli og því kæri ég mig ekki um að koma á svona staði.“

Þetta er einmitt málið. Hvernig vita karlmenn að hóran sem þeir eru með er hamingjusöm og ánægð með starfið? Þegar grátur austantjaldskvenna sem ekki geta tjáð sig á sama máli og kúnnarnir nægir ekki til að þeir kveiki á neinu er þá líklegt að daufari merki séu nóg? Í hugum flestra en kynlíf eitthvað sem menn stunda með einhverjum sem þeim þykir vænt um og vilja nálgast með hlýju og trausti. Fátækir eða ríkir hafa sömu þörf fyrir slíka blíðu og atlot. Það að borga fyrir er merki um andlega fátækt og skammsýni fremur en efnahagslega veikleika.


Skondin orðatiltæki

Mamma er mikill orðasjóður og tjáir sig oft með miklum tilþrifum. Ég rak mig iðulega á það þegar ég var að vinna á Vikunni að orðatiltæki sem voru notuð á mínu æskuheimili voru ekki eins alþekkt og ég hélt. Prófarkarlesararnir höfðu aldrei heyrt sumt af því. Þar á meðal dettur mér í hug orðtakið að snapa gams. Mamma talaði oft um græðgi samferðamanna sem allt vildu gleypa en hugsuðu ekki um aðra og þá sagði hún jafnan: „Já, þeir vilja gína yfir öllu en aðrir mega snapa gams.“ Einhvern tíma notaði ég þetta í grein og einn prófarkarlesaranna kom til mín og sagðist hafa þurft að fletta þessu upp en ákveðið að láta það standa því henni þótti það svo skemmtilegt. Við vissum báðar að ekki myndu allir lesendur skilja hvað átt var við. Annað sem mamma hafði jafnan að orði einkum þegar hún var að fara úr húsum þar sem hún þekkti vel til var þetta: „Fylgið mér til dyra svo ég fari ekki með vitið úr bænum. Ég á nóg en þið megið ekkert missa.“ Eitt sinn færði hún syni mínum verkfærasett úr tré að gjöf og sagði um leið með ofurlítið meinfýsilegum glampa í augum: „Gefðu litlu barni hamar og öll veröldin verður einn stór nagli.“

Föðurleg

Ég tók strumpaprófið og niðurstaðan var að ég væri Papa Smurf. Því miður virðist aldrei birtast mynd og texti þótt ég kóperi kódið sem manni er sagt að kópera. Þið verið bara að klikka á linkinn til að sjá hver ég er eða skoða á blogginu hans Hrannars. Við virðumst andlega skyld að minnsta kosti í Strumpalandi.

<script type="text/javascript" language="javascript"src="http://bluebuddies.com/js/Papa_Smurf.js"></script

 

 


Hvað er að sumu fólki?

Ég hef verið hálfdöpur og leið alla helgina. Ástæðan er ekki sú að eitthvað sé að hjá mér sjálfri heldur kom lítil frétt í Morgunblaðinu á föstudaginn mér í slíkt uppnám að ég hef ekki getað vikið þessu úr huga mér. Einhverjir óþokkar skildu lítinn kettling eftir einan í íbúð upp á Akranesi og þar leið þessi vesalingur vítiskvalir þar til lögregla braust inn í og færði hann til dýralæknis sem varð að svæfa hann. Dýrið var svo langt leitt að ekki var hægt að bjarga því. Hvað er í hausnum á þessu fólki? Hvað er hreinlega að því? Og hvernig stendur á því að dýraníðingum af þessu tagi er aldrei refsað? Muniði hestaníðinginn sem barði hrossið sitt með svipuskafti og náðist á mynd. Hann var ekki einu sinni ákærður og heldur sennilega uppteknum hætti enn í dag. Mér líður eins og Heine forðum þegar hann orti til Lórelei: Ég veit ekki af hvers konar völdum svo viknandi dapur ég er. Ég skil ekki hvernig hægt er að gera svona. Í raun réttri ætti að dæma fólk til að gangast undir sömu píslir og það lagði á dýrin. Kannski það kveikti einhverja glóru skynsemi í hausnum á því.

Fjórir mánuðir fyrir ítrekuð brot

Jæja, þá er komið að því. Karlinn sem braust fjórum sinnum inn á heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar og barði hana sundur og saman fær fjögurra mánaða fangelsi. Reyndar var þetta átta mánaða dómur en fjórir voru skilorðsbundnir. Mér verður hreinlega óglatt þegar ég les um svona dóma. Hvað er að hér á landi? Ætla þeir að bíða eftir að hann drepi hana til að geta dæmt almennilega?

Er þögnin er gull?

Silence is Golden sungu Herman Hermits eða einhver önnur álíka hljómsveit í útvarpinu þegar ég var barn. Mér datt þessi laglína í hug um daginn þegar ég frétti af ofbeldismáli í fjölskyldu. Þolandinn sagði loks frá og fékk hjálp frá yfirvöldum en þótt allir trúi orðum hans og hafi samúð með honum eru sumir fjölskyldumeðlimir að reyna að halda þessu leyndu. Þeir segja aðeins hálfa söguna þegar þeir hitta fólk eins og mig. Vona sennilega að ég viti ekki sannleikann allan. Þetta fólk sem um ræðir er sjálft alsaklaust. Ég skil þetta ekki. Hvers vegna bregðumst við ávallt þannig við að reyna að þegja í hel einhver hneykslismál í fjölskyldum okkar? Við hvað erum við hrædd? Að okkar alkóhólisti sé eitthvað verri en aðrir? Að ofbeldismaðurinn sem leikur lausum hala í fjölskyldu okkar muni á einhvern hátt gjaldfella okkur í augum vina, samstarfsmanna og almennings? Staðreyndin er sú að í skjóli leyndarinnar þrífast ofbeldismennnirnir og alkóhólisminn heldur áfram að þróast. Treystum öðru fólki til að skilja að við berum ekki ábyrgð á öðrum jafnvel þótt þeir séu í ætt við okkur og berum höfuðið hátt þótt fjölskyldur okkar séu ekki fullkomnar. Það er leiðin til að uppræta ofbeldi.


Hvað felst í nafni?

Ég mætti hress í vinnuna í morgun eftir að hafa gengið með tíkina í ríflega hálftíma. Raggi umbrotssnillingurinn minn kom stuttu síðar og sagði glaðhlakkalega: „Það er bara komið vor.“ „Já,“ svaraði ég, „enda var Eva glöð í morgun.“ „Já, var það,“ sagði Raggi. „Og hvernig lýsti það sér.“ „Nú, bara hún þefaði af öllum blómbeðum og nuddaði sér utan í runna,“ sagði ég. „Ha! Þú veist að þú sagðir Eva!“ sagði Raggi.  Úps, maður getur nú ruglast á Eva og Freyja.


Kettir og klór

Á heimili minu stendur nú yfir stríð enn hatrammara en sterakremstríðið við tíkina forðum. Þannig er mál með vexti að læðan mín hefur bitið það í sig að nærfataskúffa húsbóndans, eiginmanns míns, (come on, að minnsta kosti að nafninu til) sé ákjósanlegt rúm og meira en það, allra besta svefnplássið í húsinu. Hún kemur sér notalega fyrir í miðri nærbuxnahrúgunni og þjappar niður holu sem passar akkúrat utan um hana. Gallinn á þessari hreiðurgerð er sá að hárin sem hún óhjákvæmilega lætur af sér í holu sína fara óskaplega í taugarnar á Gumma. Hann hefur því krafist þess að skápurinn sé hafður harðlokaður og ef ganga þarf um hann sé vandlega lokað á eftir sér. Þetta var gert og lengi gekk allt vel eða þar til læðan komst upp á lag með að krafsa upp skáphurðina. Hún stillir sér upp fyrir framan hana og klórar í kantinn þar til hurðin opnast. Þegar ég verð vör við hana í skápnum reyni ég að toga hana út úr skúffunni en hún festir klærnar í fötunum og gerir sig eins stóra og hægt er þannig að erfiðlega gengur að draga hana fram. Oftast endar þetta með því að skúffan er dregin nánast alveg út og kötturinn tekinn beint upp og þá heyrist hátt mótmælamjálm. Ég tjáði manninum mínum í tölvupósti í gær að stríðið væri tapað vegna þess að undanfarna daga hefur læðan laumast í skápinn þegar ég fer í vinnuna og liggur þar ævinlega þegar ég kem heim. Hann sendi svar þar sem hann kvað það óheppilegt því kattarhárin yllu kláða á viðkvæmu svæðinu sem nærbuxurnar hylja og þau fara ekki úr í þvotti. Hann yrði mér því sennilega til skammar þegar heim kæmi vegna klórs á ósiðlegum stöðum. Ég minnist þess að hafa iðulega séð karlmenn laumast til að klóra sér hraustlega á þessu svæði og hef hingað til flokkað það undir ruddaskap en kannski voru þetta bara óheppnir kattareigendur.

Snorkstelpan og ég

Ég tók persónuleikapróf á Netinu eftir að hafa rekist á niðurstöður Nönnu Rögnvaldar úr sama prófi. Ég komst að því að af íbúum Múmíndalsins líkist ég Snorkstelpunni mest. Ég sem hafði ávallt talið að við Mía litla værum andlega skyldar. Því miður get ég ekki seivað niður myndina og niðurstöðuna en af einhverjum ástæðum virkar það aldrei hér á Moggablogginu þegar ég reyni það. Hér er hins vegar slóðin fyrir þá sem vilja kynnast sjálfum sér betur.

http://www.start.no/img/quiz/share_


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband