Bók sem breytir viðhorfum og skilningi

downloadLíkaminn geymir allt, er stórmerkileg bók um hvernig áföll breyta lífeðlisfræði líkamans og þótt flestir jafni sig eftir að hafa upplifað eitthvað slæmt, geta síendurtekin og alvarleg áföll orðið til þess að fólk þróar með sér áfallastreituröskun en það ástand er ekki síður líkamlegt en andlegt og heftir fólk á margvíslegan máta. Segja má að í byrjun bókar fari Bessel van der Kolk á handahlaupum gegnum sögu geðlæknisfræðinnar allt frá Freud til vísindarannsókna vorra daga. Hann tengir allar uppgötvanir vísindamanna á starfsemi heilans og hlutverki taugaboðefna við sögur fólks sem glímir við andlegar áskoranir og útskýrir hvers vegna sumum gengur verr en öðrum að lifa lífinu, höndla hamingju, mynda tengsl og skapa sér tilgang. Vanlíðan rekur marga út í vímuefnavanda, ofneyslu matar, áhættusækni eða skapar hvatvísi og dómgreindarleysi. Hingað til höfum við álasað mörgu þessu fólki fyrir skort á sjálfsstjórn, sjálfsbjargarviðleitni, góðmennsku og dugnaði en allt bendir til að flókið samspil heilastöðva og hormóna geri það einfaldlega að verkum að fólk með áfallastreitu hafi ekki aðgang að þeim úrræðum skynseminnar sem þarf til að breyta lífi sínu á uppbyggilegan máta vegna boðefnabrenglunar í líkamanum.

Það er hrein upplifun að lesa þessa bók. Erfitt en óskaplega fróðlegt og lesandanum opnast alveg ný sýn á svo ótal mörg vandamál mannlegrar tilveru og á viðbrögð sjálfs sín í ýmsum aðstæðum. Bessel útskýrir mjög vel og á mannamáli hvað gerist í líkamanum við áföll og þegar áfallastreituröskun hefur myndast. Hann segir einnig frá umdeildum rannsóknum og meðferðaraðferðum. Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir og Arnþór Jónsson eiga miklar þakkir skildar fyrir að ráðast í að þýða þetta áhugaverða verk. 


Rithöfundar færa fórnir

8901496d-5c45-976e-5330-4ece0f291560Mikla athygli vakti i nýlegum sjónvapsþætti Auðar Jónsdóttur um nöfnu sína Haraldsdóttur rithöfund lýsing hennar og Magneu J. Matthíasdóttur af þeim ofsóknum sem þær sættu vegna bóka sinna. Í báðum tilfellum hafði þetta mikil áhrif á að þær hættu að gefa út skrif sín sem er mikill skaði. Til allrar lukku hafa báðar stigið fram aftur og gefið út bækur á þessu ári en þetta leiddi hugann að því að rithöfundar færa fórnir.

Í fyrra bárust til að mynda fréttir af því að vopnaður maður hafi ruðst upp á svið í the Chautauqua Institution í New York og stungið rithöfundinn Salman Rushdie fóru eins og eldur í sinu um heimsbyggðina. Til allrar lukku virðist hann ætla að lifa þessa fólskulegu árás af en í ellefu ár neyddist Salman til að lifa í felum eftir útkoma bókarinnar Söngvar Satans.

Salman er er langt frá því að vera eini rithöfundurinn í gegnum söguna sem þurft hefur að óttast um líf sitt og þeir eru margir á flótta undan öfgaöflum í heimalöndum sínum eða hatursmönnum sem líkar ekki við skrif þeirra. Nefna má Lydiu Cacho Ribeiro frá Mexico en hún býr við ofsóknir og hótanir og hefur gert árum saman. Hið sama má segja Shakthiku Sathkumara frá Sri Lanka, Stellu Nyanzi frá Úganda, Nedim Turfent frá Tyrklandi og Galal El-Behairy, frá Egyptalandi. Sumt þetta fólk var fangelsað og sat inni árum saman án þess að mál þeirra fengju meðferð fyrir dómstólum. Allt vegna þess að þetta hugrakka fólk ákvað að verja tjáningarfrelsið og segja frá óréttlæti á skáldlegan hátt.

Ayaan Hirsi Ali var beinlínis í lífshættu í Hollandi eftir gerð var kvikmynd eftir bók hennar Frjáls og leikstjóri myndarinnar, Theo van Gogh, var myrtur. Það þekkist einnig að útskúfa rithöfundum sem ekki þykja nægilega sammála yfirvöldum í heimalandi sínu og oft eru þeir gerðir útlægir. Nasistar brenndu óæskilegar bækur á báli og stjórnvöld víða kjósa að banna tilteknar bækur og höfunda. Slík ritskoðun þekkist líka á vesturlöndum og víða í Bandaríkjunum neita bókasöfn að hafa ákveðnar bækur í hillum sínum, ein slíkra er The Catcher in the Rye eftir J.D. Salinger. Hér á landi hefur lítið farið fyrir því að banna bækur en ýmsar barnabækur hafa verið endurskoðaððar og látnar hverfa og taldar börn síns tíma. Það verður auðvitað alltaf umdeilt en hver veit nema útþynntar bækur Roalds Dahl verði einhvern tíma gefnar út hér. 

Tharsemmalbikidendar_72ptAuður og Magnea eru hins vegar jafnflottir höfundar nú og þær voru á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og vonandi koma fleiri bækur frá þeim nú þegar ísinn hefur verið brotinn og andinn í samfélaginu annar. 

 


Baráttan gegn ólæsi

download-1Ísland hafði lengi mikla sérstöðu hvað varðar almennt læsi. Fræðsluskyldu var komið á hér strax á átjándu öld og foreldrar kenndu börnum sínum að lesa. Það var metnaðarmál að þau væru læs og skrifandi þegar sóknarprestur kom í vitjun og prófaði þau. Bækur voru lykill að þekkingu og víða á fátækum heimilum voru til bækur þótt vart væri þar málungi matar. Öll börn þurftu svo að læra kverið svokallaða fyrir fermingu og máttu eiga von á að vera spurð út efni hennar. Kverið var bók Marteins Lúthers, Fræðin minni, hennar bókar var fremur tyrfið og ekki víst að öll börn hafi skilið innihaldið þótt þau kynnu orðin, enda lærðu þau textann utanað og gátu svarað vélrænt. Þetta virðist að sumu leyti vera staðan hjá mörgu ungu fólki í dag. Það les hægt og skilur lítið af textanum. Gamlir málshættir og orðtök eru orðin íslenskum börnum gersamlega óskiljanleg jafnvel þótt orðin séu einföld og ljós. Lesskilningur íslenskra barna minnkar.

downloadÞótt tæknin hafi opnað margar nýjar leiðir til að afla sér þekkingar og engin ástæða lengur til að læra utanað nokkra bók er lestur engu að síður lykllinn að ansi mörgu í þessu lífi. Tl að þekkja rétt sinn í samfélagi, geta varast svik, fundið rétta leið að næsta áfangastað og áttað sig á hvaða vöru er verið að kaupa í næstu matvöruverslun. Það sorgleg staðreynd að talið er að ein af hverjum fimm manneskjum hér á jörð séu ólæsar. Víða stafar þetta af fátækt og því að börn hafa ekki aðgang að menntun. Á Vesturlöndum fer ólæsi hins vegar vaxandi víða þrátt fyrir að þar standi skólar börnum opnir og allir hafi tækifæri til að afla sér menntunar ef þeir óska þess. Ein ástæða þessa kann að vera að ekki sé lögð næg rækt við að bregðast við sértækum námsörðugleikum eða sinna börnum sem þurfa af einhverjum ástæðum meiri stuðning en önnur. Áhugahvöt til að læra lestur og lesa virðist einnig á undanhaldi í ákveðnum hópum og ekki gengið nægilega vel að endurvekja hana. Víða eru starfandi samtök sem berjast gegn ólæsi og bjóða fullorðnu fólki aðstoð til að bæta lestrarkunnáttuna. Kannski er þörf á slíku hér á landi og ef svo er finnst mér það sorgleg staðreynd hjá bókaþjóðinni miklu. 


Molar um bækur

i-leit-ad-glotudum-tima-leidin-til-swannLengsta skáldsaga sem skrifuð hefur veirð er À la recherche du temps perdu eftir Marcel Proust eða Í leit að glötuðum tíma, eins titillinn varð á íslensku í þýðingu Péturs Gunnarssonar. Sagan var fyrst gefin út árið 1912 og er talið að hún sé um það bil 1,267,069 orð og 4.215 síður en þessar tölur rokka örlítið eftir útgáfum. Hún var fyrst gefin út í 13 bindum en nú var í tveimur þegar hún kom út á íslensku. Ef menn vilja ráðast í það þrekvirki að lesa hana má búa sig undir að verja í það 70 klukkustundum ef menn lesa að meðaltali 300 orð á mínútu. 

Duglegur lesandi

Mjög misjafnt er hversu hraðlæst fólk er og einnig hversu duglegt það er að lesa. Theadore Roosevelt var án efa einn vellesnasti maður sögunnar en hann las að meðaltali þrjár bækur á dag. Eina fyrir morgunmat og tvær til þrjár á kvöldin eftir því hvort forsetaskyldurnar kölluðu hann til verka eður ei.


Bókin dæmd eftir kápunni

 

hearthunter

hearthunter
Þótt allir viti að ekki eigi að dæma bók eftir kápunni hefur hún samt ansi margt að segja og er fyrsta skrefið að því að vekja áhuga fólks á að lesa innihaldið. Mikil er því ábyrgð kápuhönnuða en ég rakst á þessar einstöku kápur og velti fyrir mér hvort þessum klassísku skáldsögum sé þarna rétt lýst. Það er einnig spurning hvort þessar myndir laði að sér þann lesendahóp sem alla jafna kann að meta verk af þessu tagi.

22a3c695e59f8d92382a1c757fd085bd32360158-lf-660x1024

 


Það þarf þorp til að ala upp barn

9789979224129Endurminningabækur eða skáldævisögur er bókmenntagrein sem nýtur mikilla vinsælda. Þá stíga fram á ritvöllinn einstaklingar og lýsa áföllum, sorgum og sigrum lífs síns. Margir vilja setja fyrirvara við slíkar bækur og benda á verði að aðeins sé um að ræða sjónarhorn eins aðila og að minningar geti skolast til sérstaklega þegar hugsað er aftur til bernskunnar. Það þýðir ekki að sannleikurinn sé ekki sagður í slíkri bók og þær eigi ekki erindi. Einkum eru slíkar sögur gagnlegar til að samfélagið nái að líta sér nær og leita leiða til að gera betur.

Fyrrum varaforseti Bandaríkjanna Hubert Humphrey sagði eitt sinn í ræðu í bandaríska þinginu: „Siðferðilegur prófsteinn ríkisstjórnar er hvernig hún kemur fram við þá sem eru í dögun lífs síns, börnin; þá í ljósskiptum ævinnar, hina eldri; þá sem eru í skugga lífsins, hina veiku, hina þurfandi og hina fötluðu.“ Mjög oft hafa þessi orð hans skolast til og í stað ríkisstjórna talað um þjóðir. Í raun er ágætt að heimfæra þau upp á þjóðir því í öllum skilningi ætti þetta að vera sú mælistika sem notuð er á mannleg Manneskjusaga-scaledamfélög.

Alveg er óhætt að flokka bókina, Myndin af pabba, í hóp skáldævisagna en þar skráir Gerður Kristný sögu Thelmu Ásdísardóttur. Bókin vakti gríðarlega athygli þegar hún kom út og breytti algerlega umræðunni um kynferðisafbrot gegn börnum og opnaði augu manna fyrir því hvernig litið var framhjá því og látið hjá líða að koma börnum sem þjáðust til hjálpar. Fyrir skömmu kom svo út bókin, Barnið í garðinum eftir Sævar Þór Jónsson og það er áhrifamikil og eftirtektarverð bók. Sævar Þór, eins og Thelma, tilheyrir í æsku nokkrum þeirra hópa sem Hubert Humpfrey vísar til. Hann er barn, það er brotið gróflega á honum og það áfall veldur honum andlegum skaða, fjölskyldan glímir við fátækt og sjúkdóma og hann þarf á aðstoð við nám að halda. Hann mætir litlum skilningi í skóla eða frá sínu nánasta umhverfi. Foreldrar hans glíma við eigin vanda og hann er langyngstur af sínum systkinum. Kannski hefur það eitthvað með það að gera hversu afskiptur hann er og lítt sinnt um tilfinningalegar þarfir hans

BarnidIGardinum_72Sinnuleysi foreldra um líðan barna sinna og vanhæfni til að styðja þau út úr ýmsum vanda er viðvarandi vandamál. Elísabet Jökulsdóttir lýsir mjög vel sambandi sínu og móður sinnar í bæði Aprílsólarkulda og Saknaðarilmi. Engin vafi er á að þar er ástúð og velvilji til staðar en þær ná samt ekki að mætast fullkomlega. Ekki er langt síðan bækurnar Manneskjusaga og Auðna sem báðar segja áhrifamiklar sögur af fjölskylduleyndarmálum og þeirri tilhneigingu að takast á við ofbeldi þegar það kemur upp með þögn. Í fyrra komu svo út bækurnar Elspa og Álfadalur semm klárlega er hægt að fella undir þessa tegund bókmennta. Margar aðrar mætti nefna, m.a. bækur Þórbergs Þórðarsonar, Sigurðar A. Magnússonar, Jóns Gnarr og Mikaels Torfasonar. Þótt þessar bækur séu mjög ólíkar fela þær í sér áfellisdóm yfir afskiptalitlu samfélagi og eru oft átakanlegar. Í flestum tilfellum eru þetta þó sigursögur og vitna um hvernig menn geta yfirstigið áföll og fundið sér farveg í lífinu þrátt fyrir erfiðleika.


Bókasöfn heimsins

 

Stærsta bókasafn í heimi er breska þjóðarbókasafnið, British Library. Þar er að finna170-200 milljónir titla. Næststærst er bandaríska þingbókasafnið, Library of Congress en titlar þar eru 170 milljónir. Talsverður munur er milli safnsins í öðru sæti og þess í því þriðja en í Shanghai Library er að finna 56 milljónir titila. Talað er um titla í þessu sambandi vegna þess að stundum eru til fleiri en eitt eintak af hverri bók en þau eru ekki öll talin heldur gildir bókarheitið eða titillinn bara einu sinni. hl_library_roger-harris2022

Í Varsjá er að finna mesta fjölda bókasafna per mann í heiminum. Það eru 11, 5 bóksöfn á hverja 100.000 íbúa. Pólverjar eru greinilega bókaunnendur. En fast á eftir fylgja Seoul og Brussel en þar eru 11 bókasöfn á hverja 100.000 íbúa. Tokýó á hins vegar metið þegar kemur að útlánum en þar voru 111,9 milljónir bóka teknar að láni síðastliðið ár.

Hæsta sekt fyrir að skila ekki bók fékk Emily Cannellos-Simms þegar hún skilaði bókinni Days and Deeds árið 2002. Upphæðin nam 345,14 dollurum en Emily fann bókina heima hjá móður sinni 47 árum eftir að hún var tekin að láni eða í apríl 1955. Sektargreiðslur fyrir vanskil á bókum voru tvö sent á dag.


Eðlilegt að óttast óvissuna

TilHamingjuMedAdVeraTil_72-1Sigríður Soffía Níelsdóttir dansari og listamaður greindist með brjóstakrabbamein fyrir um það bil þremur árum. Hún nýtti veikindin sem innblástur í listaverk og gleðigjafa fyrir aðra. Meðal annars má nefna að hún hannaði ilmvatn og líkkjör úr blómum sem ræktuð eru á Íslandi og heitir það verkefni Eldblóm. Nýlega kom síðan út áhrifamikil ljóðbók, Til hamingju með að vera mannleg, og 19. apríl verður frumsýnt dansverk í Þjóðleikhúsinu með sama titli. Hann er tilvitnun í lækni sem Sigríður Soffía hitti á spítalanum á leið í meðferð. Ljóðin eru beinskeytt, lýsandi og stundum beinlínis upptalning á staðreyndum. Hún vísar einnig í orð annarra sem hafa veitt henni huggun og styrk og leikur sem með uppsetningu orðanna á síðunni. Allt þetta ber vott um svo skapandi og skemmtilegan huga að ekki er hægt annað en að hrífast með. Sigríður Soffía er þekkt fyrir eldverk sín, í formi flugeldasýninga á menningarnótt og hér er að finna sömu leikgleði, löngun til að hreyfa við og opna á nýjar túlkunarleiðir og form og skynja mátti í þeim. Ég naut þess að lesa þessa bók og harðákveðin í að skella mér í Þjóðleikhúsið. 


Matreiðslubók með fróðleiksmolum

downloadNýlega var mér bent á skemmtilega matreiðslubók. Uppskriftir Valerios frá Napólí. Ég hef alltaf verið hrifin af ítölskum mat og svo ég sló til og keypti eintak. Ég vissi hver Valerio Garigiulo var því bók hans Ótrúlegt ferðalag lunda frá Napólí hafði komið inn á borð hjá mér og það fallið í minn hlut að skrifa um hana. Sú saga var athyglisverð og hélt lesandanum allt til enda. Hið sama á við uppskriftirnar. Inn á milli eru áhugaverðir punktar um matarhefðir Napólíbúa, hráefnin sem þeir nota og þá hugmyndafræði sem býr að baki réttunum. Við kynnumst einnig sögu borgarinnar og persónu kokksins sem skrifar. Ég er þegar búin að prófa tvo rétti, rjómapasta með rækjum og hvítlauk og Caprese-salat sem ég hef reyndar gert áður. Bókin er ekki á fullkominni íslensku en það skipti mig litlu og ég átti auðvelt með að fylgja höfundi. Ef menn vilja prufa sig áfram í einfaldri, hollri og skemmtilegri matargerð gefur þessi bók fínt tækifæri til þess.


Hver var Roald Dahl

1397780-1Nýlega bárust fregnir af því að breskir bókaútgefendur hefðu farið í gegnum bækur Roald Dahl og hreinsað úr þeim ýmis orð og setningar sem ekki þykja passa við hugsunarhátt nútímans. Miklar umræður um réttmæti þess spunnust í kjölfarið en hver var þessi fyndni og skemmtilegi höfundur sem hafði lag á að þurrka út mörkin milli veruleika og ævintýra. 

Roald Dahl fæddist 13. september 1916 i Llandaff, Wales. Foreldrar hans Harald og Sofie fluttust frá Sarpsborg í Noregi til Bretlands árið 1880. Harald var ekkill og tveggja barna faðir þegar hann kynntist Sofie en eftir að þau gengu í hjónaband bættust þrjú börn í hópinn. Roald fékk gælunafnið „eplið“ af því að hann var augasteinn móður sinnar þ.e. the apple of her eye eins og Bretar segja enda eini strákurinn. Eigi að síður er undarlegt að segja þetta því móðir hans var fjarlæg og sýndi börnunum ekki mikla hlýju.

Alin upp við norskar þjóðsögur

Fyrsta mál Roalds og systkra hans var norska en faðir hans hafði mikla trú á bresku skólakerfi og vildi að börnin menntuðust í nýja landinu. Mikil áföll riðu yfir fjölskylduna árið 1920, en þá lést Astri systir Roalds aðeins sjö ára að aldri.  Banamein hennar var botnlangabólga og tveimur mánuðum seinna dó Harald úr lungnabólgu, en sagan segir að hann hafi dáið úr sorg yfir að missa Astri. Heimilið var efnhagslega vel statt og það hefur ábyggilega hjálpaði ekkjunni ungu en hún tók þá ákvörðun að snúa ekki aftur heim til Noregs.

Sumarfríum varði fjölskyldan hins vegar í gamla landinu og þar hlustuðu börnin á þjóðsögur um tröll og aðrar furðuverur. Glögg merki þessa má sjá í bókum Roalds þar sem ævinlega er stutt í hið óvænta, ótrúlega og yfirskilvitlega. Hann las mikið skáldsögur sem barn, en þótti ekki sérlega góður námsmaður, þrátt fyrir miklar væntingar móður hans til einkasonarins. Hann var sendur í heimavistarskóla, Repton í Derbyshire, til að undirbúa hann undir háskólanám. Skólum var stjórnað af hörku og jafnvel mætti tala um sadistískar hvatir hjá stjórnendum hans.

Roald hafði alltaf verið uppátækjasamur og honum var refsað harðlega fyrir skammarstrik sín. Hann fékk að finna fyrir staf skólameistarans og átti erfitt með að fyrirgefa hýðingarnar. Í sumum tilfellum virðast refsingarnar hafa verið með öllu tilhæfulausar og það átti drengurinn erfitt með að skilja, sérstaklega í ljósi þess að áhersla varð lögð í skólanum á kristna trú og bænir. Undanfarna áratugi hafa æ fleiri nemendur breska heimavistarskólakerfisins stigið fram og líst því ofbeldi sem þar var ríkjandi. Nemendurnir víða beittu hvern annan ofbeldi og oft voru ýmsar óskráðar reglur sem nýnemar fengu að finna fyrir. Roald slapp við ofbeldi af hálfu samnemenda, enda var hann rúmir 2 metrar á hæð og afar góður í íþróttum. Hann var kappsamur og keppti í nokkrum íþróttagreinum á vegum skólans, ásamt því að spila golf.

Vildi ekki fara í háskóla

RoaldDahl_Matthildur_Kapa-600x921Móðir Roalds vildi að hann héldi áfram námi og færi í háskóla en hann hafði ekki áhuga á því. Hann réð sig í vinnu til olíufyrirtækisins Shell í þeirri vona að vera sendur til Afríku en af því varð ekki fyrr en fjórum árum seinna en þá fór hann til Dar es Salaam í Tanzaníu. Seinni heimstyrjöldin braust út um um þetta leyti og Roald sótti um að komast í flugherinn. Hann varð einn af hinu þekktu bresku flugásum og styrjöldin varð vendipunktur í lífi hans. Eftir þjálfun var hann sendur til Egyptalands en þar var honum gert að fljúga flugvél af gerðinni Gloster Gladiator langa vegalengd og taka eldsneyti tvisvar. Þegar hann átti að lenda á áfangastað fann hann ekki flugvöllinn, varð eldsneytislaus og brotlenti í eyðimörkinni nálægt Alexandríu. Hann slasaðist illa í andliti, baki og mjöðm, en náði að skríða út úr vélinni áður en eldurinn læstist í bensíntankinn og sprengdi flugvélina.

Roald þurfti að gangast undir margvíslegar skurðaðgerðir og langan tíma tók að ná heilsu. Rannsókn leiddi síðar í ljós að honum hafði verið gefin upp röng staðsetning og í stað þess að senda hann á flugvöllinn var hann sendur út í eyðimörkina út í svokallað einskismannsland mitt á milli víglína bandamanna og ítölsku og þýsku hersveitanna. Ári síðar var hann útskrifaður og hann tók þátt í mörgum loftbardögum í Evrópu meðal annars þegar Aþena var frelsuð. Aftur var hann sendur til Afríku en þar fór hann að fá alvarlega höfuðverki og að lokum var hann leystur frá herþjónustu af heilsufarsástæðum. 

Hann var staðsettur í London árið 1942 þegar hann hitti utanríkisráðherra landsins á götu og sá sendi hann til Washington og sagt er að þar hafi hann starfað sem njósnari, ásamt félaga sínum Ian Fleming, höfundi James Bond. Lífið í Washington var ævintýralegt, en þar umgekkst hann fólk eins og Roosevelt forsetahjónin, Ernest Hemingway, Walt Disney og rithöfundinn C.S. Forrester, sem einmitt hvatti Roald til að skrifa. Roald fór að ráðum hans og fljótlega fóru sögur hans að birtast í virtum tímaritum. Hann þótti ekki góður penni í skóla en frá barnæsku hafði hann skrifað minningar sínar um ferðir fjölskyldunnar til Noregs og fleira. Roald skrifaði fyrstu barnabók sína The Gremlins árið 1942 fyrir Walt Disney. Bókin gekk ekki sérlega vel og Roald einbeitti sér að bókum fyrir fullorðna lesendur, hann skrifaði meðal annars metsölubækurnar Someone Like You árið 1953 og Kiss, Kiss árið 1959. Hann hafði einnig mikinn áhuga á ljósmyndun og var mjög góður ljósmyndari og afar sterkur bridds-spilari.

Hjónaband og barneignir

kalli-og-saelgaetisgerdinÁrið 1953 giftist Roald Hollywood-leikkonunni Patriciu Neal. Hún var virt leikkona og hafði meðal annars leikið aðalhlutverk í myndinni The Day the Earth Stood Still. Síðar sýndi hún tilþrif í aukahlutverki í Breakfast at Tiffany’s og árið 1964 vann hún Óskarsverðlaun fyrir hlutverk Ölmu Brown í Hud. Hún og Roald eignuðust fimm börn en þeim mættu miklir erfiðleikar og sorg. Árið 1960 lenti sonur þeirra Theo Matthew, þá fjögurra mánaða, í bílslysi í New York, þegar leigubíll keyrði á barnavagn sem hann var í. Theo varð fyrir áverka á heila sem olli þrýstingi, en tæknin sem læknavísindin höfðu þá yfir að ráða var afar áhættusöm. Í samráði við taugasérfræðing og vökvafræðisérfræðing, fann Roald upp ventil sem tekur þrýsting af heilanum. Þessi ventill heitir Wade-Dahl-Till (WDT) ventillinn. Theo litli hafði ekki þörf fyrir ventilinn þegar hann var tilbúinn en hann bjargaði ótalmörgum börnum allt þar til til önnur tegund kom fram. Þremenningarnir þáðu aldrei þóknun fyrir uppfinningu sína.

Annað alvarlegt áfall reið yfir fjölskylduna árið 1962 þegar elsta dóttir þeirra, Olivia Twenty fékk mislinga og lést. Roald varð talsmaður bólusetninga, enda hefði bólusetning bjargað lífi dóttur hans, ef hún hefði verið á boðstólum. Bóluefni gegn mislingum kom fyrst á markað í Bandaríkjunum ári seinna. Þetta var ekki allt því árið  1965 fékk Patricia alvarlegt heilablóðfall, þá ólétt af yngstu dóttur sinni, Lucy. Hún var í dái í þrjár vikur. Hún þurfti að læra að ganga og tala á nýjan leik. Roald studdi hana með ráðum og dáð og að lokum fór hún aftur að leika og lék allt fram til ársins 2009. Eftir þetta breytti Roald áherslum sínum og fór að sinna heimilinu meðfram ritstörfunum. Þau Patricia skildu árið 1983. Roald giftist Felicity Ann Crosland stuttu eftir skilnaðinn, en hún var góð vinkona Patriciu. Felicity stjórnar dánarbúi Roalds á myndarlegan hátt og hefur vakið athygli fyrir að vera fylgin sér gagnvart framkvæmdastjórum í Hollywood.

Fjölhæfur snillingur

9789935941961Þótt fyrsta barnabókin, Gremlins hafi ekki gengið vel gerði Roald aðra tilraun árið 1961 þegar Jói og risaferskjan kom út. Hún varð metsölubók og höfundurinn fylgdi henni eftir með Kalla og súkkulaðiverksmiðjunni. Hann var afkastamikill og á næstu árum bættust við ótal frábærar bækur meðal annars Georg og magnaða mixtúran, Matthildur, Refurinn frábæri og Nornirnar. Alls liggja eftir hann nítján barnabækur en hann skrifaði einnig handrit að kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, ljóð og bækur fyrir fullorðna. Hann þótti einkar snjall smásagnahöfundur og margar sögur hans hafa ratað á hvíta tjaldið. Þar ber meðal annars að telja Charlie and the Chocolate Factory, Matilda og The BFG. Skammstöfunin stendur fyrir The Big Friendly Giant útleggst á íslensku Bergrisinn frómi góði. Leikarinn áststæli Ólafur Darri Ólafsson fer einmitt með hlutverk eins risans í myndinni, en þeir eru alls níu, vondu risarnir og gaman verður að sjá hvaða risa Ólafur Darri mun leika. The BFG mun verða sýnd í Sambíóunum og íslensk þýðing bókarinnar er væntanleg í sumar, útgefandi er bókaútgáfan Kver.

Roald Dahl lést í Oxford, 23. nóvember 1990, 74 ára að aldri, eftir stutt veikindi. Hann var aðdáendum sínum harmdauði, en sífellt bætast fleiri í þann hóp, enda eru töfrar ævintýranna slíkir að þau ná ávallt ákveðinni prósentu af hverri kynslóð á sitt vald.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband