Færsluflokkur: Bloggar

Grjótpálar tveir

Við Svava vorum að koma úr hressandi göngutúr um steinafjöruna í Hvalfirði. Við systur tíndum baggalúta, jaspísbrot, bergkristalla og fleira og fleira. Eftir örskamma stund vorum við orðnar rúmlega 100 kg. þyngri en venjulega og undarlega siginaxla af steinaburði. Samt gátum við ekki stillt okkur um að bæta við ef við sáum einhverja freistandi hlunka liggjandi í fjörunni. Til allrar hamingju voru veiðilendur rýrari hinum megin á nesinu og við sluppum því við að verða strandglópar þarna í fjörunni þegar við værum hættar að komast úr sporunum vegna grjótþyngsla. Ætli við hefðum þá ekki orðið að steini þarna og mosavaxnar fyrr en varði. Það hefði nefnilega ekki verið hægt að treysta því að við hefðum vit á að losa okkur við eitthvað af gersemunum í vösunum til að orka það að ganga upp að bílnum.

Mörg eru lífsins vonbrigði

Við Freyja gengum um Kópavogsdalinn í morgun eins og venja er. Tvær feitar og pattarlegar stokkendur vögguðu eftir gangstéttinni fyrir framan og okkur. Freyja áleit að þær væru að bjóða henni til skrafs og ráðagerða og hljóp því eins byssubrennd á eftir þeim. Endurnar stukku umsvifalaust í sjóinn og syntu burtu. Á gangstéttinni stóð eftir vonsvikinn gulur hundur og horfði á eftir öndunum með svip sem sagði: „Hvurslags dónaskapur er þetta. Þið kallið á mig og stingið svo af.“ Þegar reigingsleg grágæs kom í ljós í fjöruborðinu jafnaði tíkin sig og ákvað að beina athygli sinni að henni í staðinn. Gæsin reyndist ekkert vinalegri og flaug burtu. Já, mörg eru lífsins vonbrigði.

Sérfræði sérfræðinganna

Ég varð að játa að hafa látið mér renna í brjóst yfir fyrirlestri um fókusingtækni og fyrst ég var spurð hvort fyrirlesturinn hafi verið áhugaverður er mér ljúft og skylt að upplýsa að svo var ekki. Sálfræðingurinn sem hélt hann byrjaði á að segja okkur í löngu máli og með miklu hiki og tafsi að eiginlega væri þessi tækni svo flókin að ekki væri hægt að útskýra hana með góðu móti og það tæki menn mörg ár að ná einhvers konar skilningi á þessu. Síðan leiddi hann okkur í þessa æfingu í því að fókusera og eftir á þegar fólk tók að spyrja hann spjörunum úr kom í ljós að málefnið var nú ekki flóknara en svo að um er að ræða nokkurs konar hugleiðslu þar sem fólk skannar líkama sinn og skoðar hvernig tilfinningar þess sitja í líkamanum. Skilur reiðin t.d. eftir bruna eða sviðatilfinningu í maganum? Er depurðin blá eða svört? Þannig skoðar viðkomandi einstaklingur líkamlega líðan sína, reynir að nefna og forma tilfinningarnar og getur meira að segja ákveðið að lýsa upp depurðina eða losa sig við kvíðann með því að hella honum út um eyrað, þ.e.a.s. ef hann er fljótandi. Mér fannst ekkert erfitt að skilja þetta og hef þó ekki hlotið margra ára þjálfun. Að mínu mati er þetta helsti galli sérfræðinga af öllu tagi. Þeir elska að gera einfalda hluti flókna og sérfræði þeirra er í raun fólgin í því. Í starfi mínu hef ég þurft að eiga margvísleg samskipti við sérfræðinga af öllu tagi og einkenni þeirra er að það má ekki einfalda neitt og segja það á máli sem almenningur skilur. Slá þarf varnagla við öllu með því að segja í sumum tilfellum, stundum, alloft, sjá má, að teknu tilliti til og þar fram eftir götunum. Þegar þeir fá að lesa yfir viðtöl er bætt við endalausum tilvísanasetningum og bætt inni tengingum við eitthvað sem engu skiptir í samhengi greinarinnar. Þetta gera þeir vegna þess að þeir eru alltaf að skrifa fyrir aðra sérfræðinga. Ef þeir segja frá í skiljanlegu máli eru þeir hræddir við að uppskera fyrirlitningu og aðhlátur frá kollegunum.

Annað sem fer sérlega í taugarnar á mér er þegar sérfræðingar þykjast sérfræðingar á fleiri sviðum en eigin fræðasviði. Éinkum er það stafsetning og málfræði sem slíkir vilja kenna mér og því miður verð ég að viðurkenna að konur eru oft sérlega erfiðar að þessu leyti. Ég man eftir einni sem setti út á viðtöl sem ég tók við nýbakaðar mæður vegna þess að konurnar notuðu orðið maður og töluðu um maður gerir, manni finnst og þar fram eftir götunum. Þessi vinalega sérfræðingskona sagði: „Kannski var ég bara með svona góðan íslenskukennara í menntaskóla. En mér var kennt að það væri léleg íslenska að nota orðið maður á þennan hátt.“ Ég svaraði: „Þú og kennarinn þinn hafið greinilega farið á mis við þá ánægju að lesa Hávamál.“ Orðið maður er fullkomlega ásættanleg íslenska og notað eins og Bretar nota orðið one. Dæmi um þetta má sjá víða.


Hrotið undir fyrirlestri

Ég brá mér á fyrirlestur í gær um aðferð í sálfræði sem kallast fókusing. Í lokin leiddi fyrirlesarinn okkur í gegnum slökunarferli þar sem við áttum að velta fyrir okkur hvernig tilfinningarnar sætu í líkamanum. Ég steinsofnaði og hrökk upp þegar ég var við það að byrja að hrjóta rétt um áður en fyrirlesarinn lauk slökuninni. Þegar hann síðan spurði hvort við hefðum fundið fyrir einhverju skammaðist ég mín ofan í skó og forðaðist að horfast í augu við hann. Það eina sem ég fann var blessað óminnið þegar hausinn byrjaði að dingla og ég að dotta.

Enn af Tryggingastofnun

Ég sá að Dúa var að skrifa um Tryggingastofnun og vil af því tilefni minna á þessa færslu mína. http://steingerdur.blog.is/blog/steingerdur/entry/119751

Nagandi óvissa

Ég sat hér í makindum við tölvuna þegar ég heyrði eitthvað bresta undir tönn hjá hundinum sem lá fram á palli. Það var líkt og köld hönd gripi um hjarta mitt, enda er ég minnug sterastríðsins sem geysaði hér í Neðstutröðinni ekki alls fyrir löngu. Ég stökk því á fætur en það gerði Freyja líka og smeygði sér undir rúm. Ég náði taki á því sem hún var með í kjaftinum og dró hana urrandi undan rúminu. Herfangið reyndist glossið hennar dóttur minnar sem nú er hauslaust en nothæft. Þetta jók ekki vinsældir Freyju hjá uppeldissystur sinni.

Þrjóskuhundur

Jæja, þá er ég búin að sjá bæði vetrarblóm og lóur þetta árið. Vorið er sem sé komið samkvæmt öllum mínum kokkabókum. Við Svava systir skelltum okkur upp að Kleifarvatni í dag og börðum augum ótal bleikar þúfur sem hengu þar um alla kletta. Óvenjulega margir voru með í för að þessu sinni eða Steingrímur, fósturbarnið hennar Svövu, Hilda Margrét og Guðlaug Hrefna systurdætur mínar. Aftursætið var því fullt og prinsessan Freyja gerð útlæg í skottið. Í svona ferðum fær hún venjulega að liggja í fanginu á Hildu Margréti, sem hún elskar afar heitt. Henni fannst svívirðilega óréttlátt að taka af henni leguplássið og sýndi móðgun sína með því að neita að koma inn í bílinn þegar leggja átti af stað heim. Ég gekk á eftir henni með harðfisk og alls konar fleðulátum en um leið og ég var komin nægilega nærri til að snerta hana tók mín á rás og forðaði sér lengst út í móa. Þar velti hún sér af fullkominni ósvífni og engu líkara en hún væri að senda mér langt nef. Á endanum settist ég upp í bílinn og keyrði af stað. Lét hana hlaupa dágóðan spöl á eftir bílnum og stoppaði svo. Þá gafst hún upp en þó ekki fyrr en ég kom og sótti hana þar sem hún stóð. Hún varð að halda andlitinu að einhverju leyti þannig að hún neitaði að koma til mín. Er þetta ekki makalaust? Bæði börnin mín og hundurinn eru alveg afburðaþrjósk. Ábyggilega er þetta vegna þess að börnin eiga sama föður og hundurinn er alinn upp hjá honum líka. Segir ekki í Njálu að fjórðungi bregði til fósturs.

Hundur úti á túni að bíta gras

Enn eitt óbrigðult merki um að vorið er komið er að Freyja er farin að bíta gras. Hundar og kettir gera þetta til að hreinsa meltingarveginn af hárvöndlum en það er alltaf jafnfyndið að sjá gulan hund standa úti á túni og bíta gras. Sérstaklega er þetta skondið vegna þess að klippibitið er í jöxlunum hjá hundum en ekki framtönnunum eins og hjá grasbítum þannig að tíkin verður að halla undir flatt og bíta stráin í sundur á hlið. Hún japlar sem sagt á grasinu og svipurinn er hreint óborganlegur. Í morgun stóð og ég og horfði á hana flissandi eins og kjáni þegar tveir Pólverjar gengu framhjá og störðu á mig með óttaglampa í augum. Þetta var næstum eins vandræðalegt og þegar maðurinn gekk fram á mig í Kópavogsdalnum þar sem ég stóð í hrókasamræðum við sjálfa mig. Þá var ég eldsnögg að hugsa sneri mér að umsvifalaust að tíkinni og sagði: Já, ertu ekki sammála þessu. Ég veit ekki hvort þessi redding virkaði en maðurinn leit um öxl hvað eftir annað til að vita hvort þessi veðurviti stæði þarna enn.

Lóan er komin

Gleðilegt sumar bloggvinir og aðrir landsmenn. Mikið var gott að koma út með hundinn í morgun og sjá hversu vorlegt var. Við gengum niður í Kópavogsdal og þar sá ég fyrstu lóurnar á þessu vori, heilan hóp af þeim reyndar. Mér finnst vorið aldrei vera almennilega komið fyrr en ég hef séð lóu og farið upp að Kleifarvatni í leit að blómstrandi vetrarblómum. Venjan var þegar börnin mín voru lítil að ég keyrði með þau þangað og við leituðum í klettunum að þessum fagurrauðu snemmsprottnu jurtum en nú er langt síðan að krakkarnir mínir hafa nennt í slíka leiðangra. Að því leyti er það sem sagt ekki gott að börnin manns vaxi upp nefnilega að það verður erfiðara að neyða þau til að gera eitthvað sem þau vilja ekki. Ég get hins vegar huggað mig við það að Svava systir er álíka biluð og ég þannig að ég dreg hana með mér um helgina í vetrarblómaleit.

Enn og aftur af klæðaburði

Ásgeir Rúnar spyr í athugasemd hvers vegna megi ekki fjalla um klæðaburð fólks í viðtölum og því miður get ég ekki svarað athugasemdum í tölvunni hérna heima. En það sem málið snýst um er að á forsíðu nýjasta tölublaðs h-tímarits eru myndir af fólki sem stendur framarlega í viðskiptalífinu og eru viðtöl við þau inni í blaðinu. Strax og forsíðan birtist fékk ég athugasemdir, bæði hér á blogginu mínu og í tölvupósti um að forsíðan væri sexist. Ástæðan er sú að Katrín Friðriksdóttir hagfræðingur er þar klædd og stílíseruð svolítið í anda fínnar frúar á sjötta áratug síðustu aldar. Okkur fannst þetta töff og flott. Í viðtali við hana geri segi ég frá því að hún er kvenlegar og stelpulegar klædd en viðskiptakonur almennt og lýsi fötunum hennar. Inga Lind Karlsdóttir gerir það að umtalsefni í Íslandi í dag og segir að klæðaburður karlmanna yrði aldrei ræddur á þennan hátt. Ég er sjálf mikil kvenréttindakona þannig að gagnrýnin kom illa við mig.

Hins vegar er það ekki alls kostar rétt að klæðnaður karla sé ekki hluti af umfjöllun um þá. Munið þið ekki eftir Halldóri Ásgrímssyni og selskinnsjakkanum hans. Halldór var þá sjávarútvegsráðherra og ég man ekki betur en að selskinnsjakkar hafi lengi á eftir verið kallaðir Halldórsjakkar svo mikla lukku vakti jakkinn í fjölmiðlum. Nýlegra dæmi er sennilega þegar Reynir Traustason fór með Ísmanninn frá Grænlandi í verslun Sævars Karls. og dressaði hann upp. Ekki einn einasti maður kvað upp úr með það að Reynir hefði gert lítið úr þessum þykkholda erfiðismanni með því að mynda hann í Armani. Hefði ekki allt eins verið hægt að túlka það sem svo að maðurinn væri ekki nógu góður í köflóttri vinnuskyrtu og skítugum buxum. Við á h-tímarit tókum okkur líka til í febrúar og klæddum Helga Seljan virðulegan fréttamann upp eins og smástrák og smurðum súkkulaði í andlitið á honum. Enginn vorkenndi Helga og talaði um að hann hefði verið gerður að fífli. Þvert á móti. Öllum fannst mikið til um hversu glettinn og frjálslegur Helgi væri að taka þátt í þessu. Málið er að við verðum að passa okkur á að leita ekki að fordómum þar sem engir slíkir eru til staðar. Vissulega er gott að vera með augu og eyru opin og reyna að stuðla að auknu jafnrétti hver á sinn hátt en það þýðir ekki að við megum ekki leyfa okkur svolitla skemmtun.

Að lokum þá verð ég að þakka bloggvinunum stuðninginn. Þið eruð frábær.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband