Veröld sem var

isl-bladamAf stjórnlausri græðgi hafði ég auðvitað gleypt í mig allar bækur sem ég komst yfir fyrir jólin og var því í hálfgerðri örvæntingu á Þorláksmessu að leita að einhverju að lesa. Einmitt þegar ég hélt að öll sund væru lokuð og ég neyddist til að lesa innihaldslýsingar á baunadósunum sem við vorum nýbúin að kaupa mundi ég eftir þriðja bindi ritraðar Blaðamannafélags Íslands um íslenska blaðamenn. Guðrún Guðlaugsdóttir tók viðtöl við tólf reynda og virta kollega mína og mikið ofboðslega tekst henni vel upp. Þarna er rakin saga íslenskra fjölmiðla frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og fram á okkar daga en einnig gefin skemmtileg innsýn í persónuleika viðmælenda og hvernig þeirra gildi mótuðu starfið. Þetta fólk tók þátt í bæði uppgangi og hnignun íslenskra fjölmiðla. Fjörið þegar DV varð til og flokksblöðin smátt og smátt lögðu upp laupana. Frelsi gefið til rekstur ljósvakamiðla og nýjar útvarps- og sjónvarpsstöðvar verða til. Nú þegar komið er fram á þriðja áratug tuttugustu og fyrstu aldar er margt af þessu fólki hætt störfum en sumir eru enn að. Það er fróðlegt að lesa um viðhorf þess til breytinga á fjölmiðlaumhverfinu og hvernig það sér framtíðina fyrir sér. Flestir tala um að prentmiðlar séu á undanhaldi og netið að taka yfir. Þar vanti hins vegar trausta ritstýrða miðla og lesendur þjálfaða í að greina hismið frá kjarnanum. Næstu ár munu skera úr um hvort íslenskir dagblöð og tímarit lifi af og nái að laga sig að breyttu umhverfi. Að mínu mati hafa prentmiðlar fjölbreytilegt menningargildi og það væri mikill missir ef þeir hyrfu alveg og áður en svartsýnin nær alveg tökum á mér finnst mér vert að minnast að dauða bókarinnar hefur verið spáð margoft og ekki gengið eftir fremur en heimsendir sem ótal spámenn hafa séð fyrir og reiknað út dagsetningar á.

 


Ein sú allra besta

downloadÉg verð að viðurkenna að ég treindi mér þessa bók. Horfði á hana á náttborðinu svona eins og maður starir á freistandi súkkulaðiköku. Eftir góða vinnutörn verðlaunaði ég mig með því að opna hana. Og þvílík sæla. Bandið er svo fallegt og kápan vel unnin svo veislan byrjaði strax þar. Jane Austen las ég fyrst sautján ára. Þá varð Pride and Prejudice fyrir valin og seinna fór ég í áfanga í enskudeildinni þar sem verk hennar var tekin fyrir ásamt bókum Brontë-systra og Georges Eliots. Mikið var það rosalega gaman. Ég gleypti í mig Emmu og Northenger Abbey og keypti Sense and Sensibility til lesa mér til ánægju. Hún var ekki tekin fyrir þarna því hún var fyrsta bókin og æskuverk, Jane var aðeins nítján ára þegar hún byrjaði á henni, og kennarinn eiginlega gaf í skyn að hún væri síðri en hinar. Þegar ég hafði svo lokið lestrinum gat ég alls ekki verið því sammála. Þessi dásamlega kímni, meistaralegur leikur að kaldhæðni og snilldarlega persónusköpun er til staðar í þessari fyrstu bók ekkert síður en í hinum og mér finnst persónur hennar ekkert gefa eftir Bennett-fjölskyldunni og vonbiðlum systranna þar. Þær Elinor og Marianne eru hvor á sinn hátt frábærlega unnir og heilsteyptir karakterar í skáldsögu og móðir þeirra ekki síður. Maður getur skilið báðar systurnar, haft samúð með þeim og fagnað því hversu vel þær ná að þroskast í gegnum söguna. Allt það besta sem Jane Austen gerir er til staðar í Aðgát og örlyndi en það er titillinn sem Silja Aðalsteinsdóttir valdi eftir þónokkra umhugsun og eftir að hafa heyrt rök hennar fyrir valinu er ég fyllilega sátt við hann. Hún þýðir söguna líka snilldarlega á fallegt íslenskt mál og það var hreinlega dásamlegt að endurnýja kynnin við Dashwood-fjölskylduna. Hinn sjálfselska John og gráðugu Fanny, hinn hægláta Edward Ferrars, Sir John Middleton, Willoughby og Colonel Brandon. Þetta var sko jólaveisla rétt fyrir jólin og það verður svo gaman að eiga þessa bók upp í skáp og handleika hana reglulega lesa aftur fyndnustu kaflana og dást að því hvað hún er falleg. Ég vona sannarlega að Silja fái þýðingarverðlaunin sem hún er tilnefnd til. 


Hörkuspennandi, snjöll og áleitin

enn5309050470Stóri bróðir eftir Skúla Sigurðsson er mjög vel unnin sakamálasaga. Að halda forvitni lesandans vakandi í yfir 500 síður, einkum og sérílagi eftir að ljóst verður hver er morðinginn er þó nokkur kúnst. En Skúla tekst það og það vel. Hann skapar trúverðugar persónur og skemmtilega karaktera en bókin er ekki síst góð fyrir að vekja upp alls konar siðferðilegar spurningar. Er réttlætanlegt að taka lögin í sínar hendur og refsa? Allir vita að réttarkerfið hefur reynst vanmegnugt þess að taka á kynferðisbrotamálum og fjölmargir sitja uppi með þá tilfinningu að þeir hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar. Stóri bróðir fjallar um slík mál og mann sem telur sig verða að útdeila refsingum vegna þess að réttvísin hafi brugðist. Skúli brýtur frásögnina upp á skemmtilegan hátt með því að birta fréttir af rannsókn lögreglunnar og skrifar í anda mismunandi miðla en er einnig virkur í athugasemdum við þær. 

Í bókinni er einnig komið inn á ofbeldi gegn börnum á ríkisreknum barnaheimilum en slíka mál hafa komið upp hvað eftir annað á undanförnum árum. Mörg þeirra hafa ekki verið fyllilega gerð upp og þolendur ofbeldisins ekki náð sátt. Það er undarlegt að börnum skuli sjaldnast trúað enn í dag þegar þau segja frá ofbeldi og að eftirlit bregðist gersamlega með úrræðum sem eiga að forða börnum í erfiðum aðstæðum og byggja þau upp til betra lífs. Úr slíkum jarðvegi sprettur ekkert gott. Stóri bróðir á tilnefninguna til Blóðdropans fyllilega skilið og þetta er mjög athyglisverð frumraun. Ég hlakka til að lesa næstu bók.


Fordæður, galdramenn og töfrajurtir

Spil_Asta_2Forlagið gaf út núna fyrir jólin spil gerð eftir teikningum listakonunnar Ástu Sigurðardóttur. Hún hannaði spilin og ætlaði að gefa þau út en entist ekki aldur til. Mannspilin eru frægir íslenskir galdramenn, draugar og nornir en einnig bregður fyrir í ásunum þjóðsagnadýrum, jurtum og öðrum fyrirbærum. Þarna má sjá Þorgeirsbola, hjónagras, flæðarmús, Gottskál grimma, Sæmund fróða, Bjarna Dísu og ótal fleiri merkilega og spennandi karaktera. Þetta eru sérlega falleg spil og mögnuð í útliti en Forlagsfólk hefur líka vandað einstaklega vel til þessarar útgáfu. Bæði eru spilin mjög vel útfærð og sömuleiðis kassinn utan um þau. Þeim fylgir líka bæklingur með upplýsingum um bæði Ástu og öll fyrirbærin sem hún gæðir lífi í myndum sínum. 

Ekki er langt síðan sýnt var í Þjóðleikhúsinu verkið Ásta, eftir Ólaf Egilsson en hann leikstýrði líka. Það var byggt á ævi Ástu. Hún var hneykslunarhella borgara í Reykjavík á sinni tíð en heillaði marga með hæfileikum sínum. Fíknin var henni fjötur um fót og dró hana að lokum til dauða en enn er fólk forvitið um list hennar, persónu og örlög.

Hugsanlega er ástæða þess að enn leikur dulúð og spenna um persónu Ástu sú að í henni voru miklar andstæður. Hún var sveitastúlka, fædd að Litla-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi á Snæfellsnesi. Hún kom til Reykjavíkur fjórtán ára til að leita sér mennta og byrjaði á að klára landspróf og síðan fór hún í Kennaraskólann. Áhugi hennar á kennslu var hins vegar takmarkaður og hún starfaði aldrei við það. 

Ásta lærði leirkerasmíð og grafíklist og myndskreytti sjálf bók sína, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns. Þar er listavel skrifaðar og áhrifamiklar smásögur, sem margar eru taldar byggja á atvikum úr lífi Ástu. Það var einkum titilsaga bókarinnar, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns sem skapaði úlfúð en hún birtist fyrst í tímaritinu Líf og list árið 1951. Sagan fjallar um nauðgun og margir áfelldust Ástu fyrir að segja frá og aðrir fyrir að lýsa gerandanum en nafngreina hann ekki því þar með félli grunur á marga aðra. Kannast einhver viðdownload-3 þessa umræðu? Hún hefur verið endurtekin margoft með mismunandi áherslum allt frá því Metoo-byltingin hófst. Hún vann einnig fyrir sér sem nakið módel í Myndlistarskólanum og olli það hneykslun margra hennar auk þess að hún kaus að búa í kommúnu skálda og listamanna í Hólum í Skerjafirði. Ástalíf hennar þótti sumum betri borgurum einnig fullfjörlegt. Ásta átti son með Jóhannesi Geir listmálara en árið 1957 tók hún saman við Þorstein frá Hamri og átti með honum fimm börn. Þau bjuggu í Kópavogi þar til upp úr sambandi þeirra slitnaði. Þá tók Ásta saman við Baldur Guðmundsson og giftist honum árið 1967.

Sársauki undir niðri

Ásta var glæsileg kona og eftirminnileg í útliti og fasi. Hún vakti þess vegna athygli hvar sem hún kom og allir vissu hver hún var. Þótt hún bæri höfuðið hátt og léti sér fátt um hneykslan og dómhörku samborgaranna finnast á yfirborðinu var mikill sársauki undir niðri. Hann er augljós í mörgum sögunum í Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns. Hún var alkóhólisti og margt bendir til að hún hafi mátt þola margvíslegt ofbeldi. Ein sagan hennar er meðal annars um nauðgun og önnur ofbeldi gegn barni. Margir telja ekki vafa á að Ásta sé að skrifa um eigin reynslu. 

Hún þekkti einnig fátækt og basl mæta vel því það er erfitt að lifa af list á Íslandi og var mun erfiðara þá en nú. Drykkjan hjálpaði heldur ekki. Í útvarpsþáttunum Helmingi dekkra en nóttin fjallar Vera Sölvadóttir um listakonuna og byggir meðal annars á bréfum hennar til systur sinnar auk þess er talað við eftirlifandi börn hennar og fólk sem man eftir henni. Ólafur Egill sagði einnig í útvarpsviðtali um sýninguna sína að alltaf væri ábyrgðarhluti að fjalla um ævi annarra og orðar það einkar fallega: „Maður þarf að muna að þetta er líf fólks og sögur og það þarf að fara blíðum höndum um hana.“ Birgitta Birgisdóttir fór með hlutverk Ástu og gerði það einstaklega vel. En spilin hennar bera listfengi hennar og ímyndunarafli vitni og vert að mun að kerti og spil eru klassísk jólagjöf. 


Útsýnið úr augum annarra

downloadÁn efa höfum við öll velt því fyrir okkur hvernig það væri að geta séð heiminn með augum annarra. Sett okkur svo gersamlega í spor þeirra að við gætum skilið hugsanir, tilfinningar og viðbrögð. Einmitt þetta getur aðalsöguhetjan í bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur Sigurlilja. Hún að vísu valdi sér ekki þetta hlutskipti og ræður litlu um hvernig og hvenær þetta gerist, né ræður hún hvaða manneskja verður fyrir valinu. Hún upplifir hins vegar alltaf óþægilegar stundir eða erfið augnablik. Sigurlilja öðlaðist þennan hæfileika eftir að hafa séð geimskip svífa yfir Hafnarfirði og hnigið niður í götuna.

Henni hefur lærst að tala ekki um þennan hæfileika en vegna hans er hún líka svolítið á floti í lífinu, stefnulaus og ofurlítið tætt og þykir engum mikið. Áhorfandi að lífinu fremur en þátttakandi. Þegar ömmusystir hennar deyr býður hún móður sinni að fara austur á Bakkafjörð og ganga frá dánarbúinu. Þar hittir hún margt litríkt og skemmtilegt fólk og kemst að ýmsu um sjálfa sig og frænku sína.

Guðrún Eva skrifar einstaklega fallegan texta og henni er sérlega lagið að skapa sterka og flotta karaktera. Það er hins vegar eitthvað sérstaklega heillandi við framvinduna í þessari bók. Hún líður einhvern veginn áfram í tímaleysi og þægilegu frelsi þeirra sem ekki eru bundnir við tímann og stressið í höfuðborginni. En um leið eru þetta margar sögur í einni. Við fáum að sjá atvik úr lífi fólksins sem Sigurlilja heimsækir í svefni en heyrum einnig af ævi og atvikum samferðamanna hennar. Augu hennar horfa djúpt inn í sál fólks og það trúir henni fyrir ýmsu sem það hefur ekki talað um áður. Útsýnið í þessari sögu er svo margvíslegt og athyglisvert, úr glugganum í Steinholti sjö, úr augum Sigurlilju, fólksins sem hún heimsækir og fólksins sem hún hittir. Er ekki sagt að það auki skilning okkar á veröldinni og okkur sjálfum ef við reynum að setja okkur í spor annarra og sýna þeim skilning og umburðarlyndi. Í þessari sögu er mikill kærleikur og vilji til að leyfi hverjum fugli að fljúga eins og hann er fiðraður. Vísindin hafa ekki alltaf skýringar á öllu og það gerir lífið forvitnilegra og meira spennandi. 


Hvað er svona merkilegt við sögustaði?

download„Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt,“ orti Tómas Guðmundsson í kvæðinu Fjallganga og var auðvitað að hæðast að þörf okkar fyrir viðurkenningu, sigra og vinna einhver afrek fyrst og fremst til að stæra okkur af þeim. Ég fékk hins vegar aðeins aðra sýn á þessa þörf mannsins til að merkja og þekkja umhverfi sitt þegar ég fór að starfa sem leiðsögumaður. Landslag og staðir fá einhvern veginn meiri dýpt og merkingu þegar maður þekkir sögu þeirra. Að ferðast með leiðsögn um eykur skilning manns á menningu landsins og þess sem hefur mótað þjóðina.  bókinni Á sögustöðum fjallar Helgi Þorláksson prófessor emeritus við HÍ um sex sögustaði: Bessastaði á Álftanesi, Hóla í Hjaltadal, Odda á Rangárvöllum, Reykholt í Borgarfirði og Skálholt og Þingvelli í Árnessýslu. Hann veltir fyrir sér hvað þurfi til að staður kallist sögustaður og hvert aðdráttaraflið sé.

Í sumum tilfellum eru það tengsl hæfileikaríkrar manneskju við staðinn, stundum umhverfið eða atburðir sem þar hafa átt sér stað og svo auðvitað annað slagið allt þetta. En þetta er vandmeðfarið. Nægir það til dæmis að eitthvert frægðarmenni hafi fæðst á tilteknum stað til að hann teljist sögustaður? Verður að fylgja að það hafi vaxið þar upp eða nægir að fyrstu andardrættirnir voru dregnir þarna? Þessum og fleiri áhugaverðum spurningum veltir Helgi upp en hann setur sér einnig stærra markmi

Helgi tekur sér á hendur áhugavert verkefni. Hann hrekur margar viðteknar hugmyndir og mýtur um hlutverk staðanna og þá atburði sem þar áttu sér stað. Hann bendir á í inngangi að að hugmyndir okkar um þessa staði mótist af þjóðernisrómantík á 19. og 20. öld, sjálfstæðisbaráttunni og þeim hugmyndum sem þá urðu til um gullöld landsins, þjóðveldisöldina. Ansi margt bendir til að aðdáun okkar á forfeðrunum sé byggð á misskilningi og ekki síður um þá kúgun og harðræði af hálfu erlends valds sem talið var hafa haldið aftur af þjóðinni. Landsmenn trúa því margir enn að við höfum bara þurft að losna undan dönsku konungsvaldi til að ná að blómastra og margir einstaklingar fengið á sig óverðskuldaðan hetjustimpil vegna baráttu sinnar gegn erlendu hættunni. Þessi bók er einstaklega vönduð og vel skrifuð og mjög holl lesning. Hér eru reifaðar nýjustu hugmyndir sagnfræðinga byggðar á nútímarannsóknum. Það er ekki síður gaman að lesa um margvíslega menningarstarfsemi og hugmyndaauðgi manna er sátu suma þessa staði, menn sem eru að mestu gleymdir og áhrif þeirra þökkuð öðrum. Þetta er merkileg bók sem ekki er hægt að lesa í einni lotu og verður að lesa oftar en einu sinni

 


Brotin raðast saman

downloadÉg ætla að leyfa mér að fullyrða að Brotin eftir Jón Atla Jónasson sé besta íslenska sakamálasaga þessa árs og já ein sú besta sem ég hef lesið lengi. Tek það fram að þar um umtalsverðan fjölda að ræða svo þetta álit er byggt á góðri tilfinningu fyrir vel fléttaðri glæpasögu. Jón Atli skapar eitt áhugaverðasta spæjara tvíeyki þeirrar bókmenntagreinar svona almennt þótt þau séu mörg eftirtektarverð. Þau Rado og Dóra eru brotin hvort á sinn hátt, hún með heilaskemmd eftir vinnuslys, hann með byrðar flóttabarnsins á bakinu. En bæði eru skarpskyggn, með athyglisgáfuna í lagi og ekki tilbúin að sleppa takinu af rannsókn fyrr en hún er til lykta leidd. Jóni Atla tekst að byggja upp spennu og vekja slíka forvitni að ég gat ekki lagt frá mér bókina og hann styttir sér aldrei leið. Hver einasti þráður er fastofinn, fellur fullkomlega inn í mynstrið og raknar ekki upp. Það er einfaldlega svo að eftir að maður hefur lesið glæpasögur í hálfa öld þá eru ýmsar brellur orðnar fyrirsjáanlegar og lausnin oft ljós strax í fyrstu köflunum. En hér er það ekki þannig. Margt kemur á óvart og engin ódýr leið farin að því að reifa málið í lokin. Ég vona sannarlega að Jón Atli eigi eftir að skrifa fleiri svona bækur og ég er strax farin að hlakka til næstu.


Barist við hvíta dauðann

Brefin_hennar_mommu_72ptEngan grunaði að í gamalli blárri ferðatösku leyndist fjársjóður. Samt var henni ekki hent þótt flutt væri milli húsa, eigandinn Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, vissi að þarna voru skjöl tengd fjölskyldu hans en gaf sér aldrei tíma til að fara í gegnum þetta og skoða nákvæmlega. Eftir að forsetatíð hans lauk afhendir hann persónuleg gögn sín Þjóðskjalasafninu til varðveislu og það er ekki fyrr en ástríðufull leikkona, María Pálsdóttir hefur samband og spyr hann hvort til séu einhverjar heimildir um dvöl móður hans á Kristneshæli að hann fer að kanna málið. Hann fer á Þjóðskjalasafnið og er afhentur fullur kassi af bréfum Svanhildar Hjartar, móður hans, til föður hans meðan hún lá veik heima, dvaldi á Vífilsstöðum og á Kristneshæli til lækninga. Nú eru þau komin út á bók.

Bréfin hennar mömmu er átakanleg en einstaklega heillandi saga konu sem glímdi við vanheilsu nánast alla ævi. Hún er opinská í fallegum bréfum til mannsins síns og sveiflast stöðugt milli vona og vonbrigða. Það er augljóst að samband hennar og Gríms hefur verið ástúðlegt og hún sækir til hans styrk og gleði en líður líka af söknuði og sárindum yfir að geta ekki tekið þátt í hversdagslegu heimilislífi með honum og seinna drengnum þeirra.

Í ljósi þess hversu skæður sjúkdómur berklarnir voru og hversu margar fjölskyldur hann snerti er undarlegt að ekki hafi verið meira skrifað og talað um þennan tíma þegar ótal ungir menn og konur hurfu frá fjölskyldum sínum mánuðum og árum saman í þeirri von að ná að yfirvinna sjúkdóminn. Margir áttu ekki afturkvæmt og margir komu til baka illa leiknir eftir höggningu. Engin lyf voru til og helsta ráðið í raun að styrkja sjúklinginn í þeirri von að líkama hans tækist að yfirvinna meinið. Stundum var blásið lofti inn í lunga til að fá það til að falla saman. Það var gert þegar fólk var komið með berklaholur eða berklaígerð í lungun og stundum dugði þetta til. Einnig reyndu menn að brenna með rafmagni samgróninga vegna berklasýkinga. Höggning var svo síðasta úrræðið og það versta. Þá voru skorin burtu efstu rifbeinin í þeim tilgangi að fá brjóstkassann til að falla saman og loka þannig berklaholunni. Sjúklingurinn bar svo auðvitað varanlegan skaða af þessari aðferð en í sumum tilfellum dugði hún til að yfirvinna berklana.

Bréfin hennar Svanhildar segja sögu konu sem þráir að vera heilbrigð, taka þátt í lífinu en þarf að dvelja fjarri manninum sem hún elskar, barninu sínu, fjölskyldu og vinum. Hún er einmana, kvíðin og leið á þjáningum sem virðast engan enda ætla að taka. Það er í senn fróðlegt og athyglisvert að fá á þennan hátt innsýn inn í tilveru manneskju sem barðist við þennan illvíga sjúkdóm. Á Kristnesi við Eyjafjörð hefur María Pálsdóttir komið upp safni sem segir sögu berklasjúklinga á Íslandi og þar er stofa helguð Svanhildi. Eftir lestur þessarar bókar langar mig að heimsækja Hælið og skoða þær aðstæður sem hún og aðrir í hennar stöðu bjuggu við.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband